23.03.1925
Neðri deild: 40. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1094 í C-deild Alþingistíðinda. (2951)

102. mál, mælitæki og vogaráhöld

Magnús Jónsson:

Jeg ætla mjer heldur ekki að vekja deilur, nje tefja fyrir næsta máli, sem menn bíða líklega eftir með nokkurri óþreyju. Jeg vildi aðeins geta þess, að þótt jeg væri einn þeirra manna, sem greiddu atkv. með því, að afnema löggildingarstofuna, þá var það fyrst og fremst af lítilli sannfæringu, og í öðru lagi hefi jeg, við nánari umhugsun, efast um, hvort það myndi hafa verið rjett, að afnema þessa stofnun svo að fullu og öllu sem gert var. En þrátt fyrir það efast jeg um, hvort sú leið, sem hv. flm. (BJ) bendir á, sje sú rjettasta — að taka lögin frá 1917 óbreytt upp í frv., og reka löggildingarskrifstofuna á sama hátt og fyr.

Þegar löggildingarstofan var lögð niður, var það alls ekki af því, að menn teldu slíka stofnun óþarfa, heldur af hinu, að kostnaður við hana þótti úr hófi keyra. (BJ: Kostnaður ríkissjóðs?) Nei, að vísu ekki fyrir ríkissjóð, en fyrir kaupmenn og aðra, er mælitækin áttu, varð hann töluvert þungbær. Þó að vísu sje ekki rjett að dæma stofnanir eftir vinsældum þeirra, þá er það vist, að þessi stofnun varð mjög óvinsæl um land alt. Mönnum þótti það hart aðgöngu, að þurfa að senda mælitæki sín til Reykjavíkur, hvar á landinu sem þeir voru, þótt ekkert væri bilað í þeim, nema ef til vill einn nagli, sem hver lagtækur maður gat gert við. Stundum var og kvartað yfir því, að vogaráhöldin kæmu engu betri en þau fóru, eða jafnvel hefðu skemst við hinn langa flutning. Auðvitað mátti altaf búast við því, að þetta starf yrði óvinsælt. Það er að nokkru leyti sönnun þess, að það hafi verið rekið með mikilli samviskusemi, og mjer er líka kunnugt um, að svo var. Jeg veit um einn eftirlitsmann, sem rækti þetta starf af mikilli snild. En jeg held, að þessu megi kippa í lag á annan hátt. Ætti að skipa einn mann eða fleiri, sem kunnáttu hefði, og prófuðu þeir mælitæki og vogaráhöld og löggiltu þau. Í bæjum út um land mætti svo löggilda smiði, sem gerðu við vogaráhöld, er þau biluðu. Á þennan hátt væru lögin framkvæmd með meiri lempni en áður og minni fyrirhöfn og tilkostnaði. Óvinsældirnar myndu hverfa, en gagnið haldast. Að vísu er ekki ástæða til að láta óvinsældir fá á sig um of, en jeg held, að það hafi verið á rökum bygt, að hjer hafi verið allhart að gengið. Jeg vildi leggja til, að nefndin athugaði þessa leið, enda þótt heppilegra myndi vera, þar sem er orðið nokkuð áliðið þings, að fela stjórninni rannsókn á þessu máli, því að ekki virðist mjög mikið í húfi, þótt málið verði ekki afgreitt á þessu þingi.