23.03.1925
Neðri deild: 40. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1098 í C-deild Alþingistíðinda. (2954)

102. mál, mælitæki og vogaráhöld

Bjarni Jónsson:

Jeg gæti raunar sparað mjer frekari umræður um mál þetta. En hjer hefir þó verið talað svo mikið um kostnað og óánægju í sambandi við löggildinguna, að jeg vil ekki láta því með öllu ósvarað.

Kostnaðurinn við þetta eftirlit legst eftir frv. einmitt þar, sem rjett er, að hann komi niður. Þeir menn eiga að bera hann, sem gera sjer atvinnu að því að vega út og mæla vöru, er þeir selja öðrum. Jeg tel alls ekki eftir kaupmönnum og kaupfjelögum að bera þann kostnað, sem leiðir af því, að fullkomið eftirlit sje haft með því, að mælitæki þeirra og vogir haldist rjettar, svo sem unt er. Hinsvegar er það ekkert óvanalegt, að menn kveini undan jafnsjálfsögðum gjöldum; og þegar þetta kvein er búið að bergmála nógu mikið og lengi, og alt landið tekur undir hrinurnar, þá er rokið í það, að fleygja burtu því skipulagi, sem naumast má kalla komið á laggirnar. Menn hafa ekki leyfi til þess að vera óánægðir yfir slíku. Það má þakka fyrir, að þeir menn, sem selja útlendingum t. d. fisk, fái vogir sínar leiðrjettar, svo þeir eigi ekki á hættu að tapa tugum þúsunda kr. fyrir rangar vogir. Síðan löggildingarstofan kom, hafa þeir verið trygðir fyrir slíku stórtjóni. Nú eru það ekki ætíð útlendir menn, sem vegið er út. En jeg sje ekki, að rjett sje að spara verslununum þessi útgjöld, sem leiðir af eftirlitinu, og láta viðskiftamennina bíða halla.

Jeg hygg því, að ekki sje rjett að breyta frv. þessu í höfuðatriðum þess. En ekki er jeg frá því, að breyta megi því í smáatriðum, ef þörf þykir, svo sem launaákvæðum og ákvæðum um stofnkostnað o. fl., slíku. En sjálfsagt tel jeg, að einkasala löggildingarstofunnar á þessum tækjum, sem hjer er um að ræða, haldi áfram, svo sem áður var. Annað getur ekki fulltrygt heitið. Enginn veit, hvað lengi verslun brúkar vogaráhöld ólöggilt, er hún aflar sjer sjálf frá útlöndum. Ísland er ekki svo lítið, að auðvelt sje fyrir einn mann að framkvæma fullkomið eftirlit með slíku. En sjeu áhöldin seld beint frá löggildingarstofunni, og merkt þar, og hver sá, sem ekki á og notar slík áhöld, á ekki að hafa leyfi til þess að reka verslun, þá er hægur hjá um eftirlitið, því hver og einn, sem viðskifti hefir, getur sjálfur gengið úr skugga um það, hvort áhaldið er merkt, og kært, ef svo er ekki. Þetta virðist mjer vera aðaleftirlitið, og trygging mikil á þessu fólgin. En þeir menn, sem vola um kostnað, er leiði af því að senda lóð og metaskálar til Reykjavíkur til leiðrjettingar, ættu að þegja um slíkt. þeim væri nær að vinna að því, að upp komist sjúkrahæli í sveitum landsins, svo veikt fólk þurfi ekki að hrekjast hingað suður upp á líf og dauða, heldur en að kenna svo hástöfum í brjósti um vogarskálar, þó að þær skrölti hingað í skipi. Slík brjóstgæði koma ekki í rjettan stað niður.

Jeg vænti þess, að mál þetta megi koma fljótt frá allshn., og að hún megi skilja, hver eru aðalatriði þessa máls. En aðalatriði er það, að þessi stofnun hafi einkarjett á sölu áhaldanna, svo sem jeg hefi nú bent á. Þar er aðaleftirlitið fólgið.