23.03.1925
Neðri deild: 40. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1100 í C-deild Alþingistíðinda. (2955)

102. mál, mælitæki og vogaráhöld

Hákon Kristófersson:

Jeg skal ekki fjölyrða um þetta mál. En það verð jeg að segja, að mjer er það ekki jafnmikið gleðiefni og hv. 2. þm. Reykv. (JBald), að frv. þetta er fram komið. Mjer virðist það ekki sýna annað en það, því miður alt of venjulega, hringl í löggjöf, sem löngum hefir við brunnið hjer. Þau lög voru samþ. hjer á þingi í fyrra, að fella niður stofnun þessa, en nú á að reisa hana aftur við með frv.

En jeg fer nú að skilja, að það sje ekki öldungis óeðlilegt, að frv. kom fram. Hjer hefir verið talað um atvinnulausan mann. Það er nú svo, að ýmsar leiðir eru til þess að veita atvinnulausum mönnum starf, og mun þetta frv. vera ein þeirra. Jeg man ekki til þess, að jeg hafi heyrt eða sjeð kvartanir yfir því, að löggildingarstofan var lögð niður í fyrra, frá einum einasta þingmálafundi, jafnvel ekki úr Dalasýslu. (BJ: Þeir hlógu bara að því!) Þá hafa þeir ekki verið reiðir yfir því.

Hv. flm. (BJ) lagði aðaláhersluna á það, að löggildingarstofan hefði einkasölu á mælitækjum og vogaráhöldum. Þetta er ekki nýtt hjá hv. flm. (BJ), og jeg veit, af hvaða tilfinningum þetta stjórnast. Hann heldur, að engin vog geti komið rjett frá Dönum, nema það sje blessað yfir hana af löggildingarstofu hjer. En jeg held nú, að vogir geti komið rjettar frá Danmörku, og engu lakari, þó ekkert sje yfir þær blessað hjer. (BJ: Það er ekki dýrt sjálfstæði, að hafa sjálfur gát á vogaráhöldum sínum). Þá talaði hv. flm. um, að það væru óþarfa brjóstgæði, að hlífa mönnum við því að senda tæki sín langar leiðir til viðgerðar. Í þessu efni verður hver að hafa þá skoðun, sem hann telur hest við eiga, og hv. flm. (BJ má ekki furða á því, þó að aðrir sjeu á annari skoðun en hann. En jeg veit, að hann er sjálfur mjög brjóstgóður. (BJ: Jeg kenni í brjósti um hv. þm. Barð. og aðra, sem eru á móti frv.) Það er kunnugt, að löggildingarstofan var óhafandi vegna kostnaðar. Það var upplýst hjer í fyrra, að fyrir að lita á 2 vogir, sem voru nýkomnar frá henni, tók eftirlitsmaðurinn rúmar 40 kr. (BJ: Alveg er jeg nú hissa!) — og mun þó ekki hafa verið lengri tíma að því en svaraði stundarfjórðungi. Þetta dæmi er aðeins eitt af mörgum, sem sanna, hve afskaplega dýr þessi stofnun var landsmönnum. Hv. þm. Dala. er ekki sýnt um að meta gildi peninga. Og þó 40–50 kr. sje ekki mikið fyrir verslunina, þá kemur það þó niður á viðskiftamönnum. (BJ: En ef skakt er vegið, kemur það þá ekki niður á viðskiftamönnum?) Jú, en jeg hygg, að frv. þetta komi ekki í veg fyrir slíkt, þar sem þeir menn eiga í hlut, er beita vilja slíku. Jeg skal taka til dæmis fiskivog, sem löggildingarmaður kemur til skoða. Þarna er veginn blautur fiskur, en vegna þess, að svo vill til, að maðurinn, sem vogina á, lætur sjer ant um að hún sje í lagi, þá reynist hún rjett. En þessi vog getur verið orðin skökk eftir 3–4 daga, ef ekki er borin umhyggja fyrir því, að hún haldist í góðu lagi. Aðalatriðið í þessu efni er því heiðarleiki þeirra manna, sem hlut eiga að máli, en ekki eftirlit, sem ekki er hægt að framkvæma nema að litlu leyti.

Þegar mál þetta var til umræðu hjer síðast, þá man jeg ekki til þess, að löggildingarstofan sjálf legði á móti því neitt fastlega, en nú vill þó svo til, að því skýtur upp aftur. Jeg vil nú ekki vænta þess, að hið svonefnda Krossanesmál sje þess valdandi, að frv. er fram komið.

Jeg vil ekki leggja móti því, að máli þessu sje sýndur sá sómi, að vísa því til nefndar, af því það er fram borið af hv. þm. Dala. (BJ). En jeg vona, að það komi ekki aftur fyrir deildina.