14.05.1925
Efri deild: 77. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1127 í B-deild Alþingistíðinda. (296)

1. mál, fjárlög 1926

Frsm. (Jóhannes Jóhannesson):

Eins og hv. þdm. sjá, liggja ekki fyrir neinar brtt. við frv. eins og það kom frá háttv. Nd. eftir eina umr. þar. Fjvn. þessarar hv. deildar áleit rjettast að ganga að frv. eins og það er; ekki þó af því, að hún sje ánægð með þær breytingar, er háttv. Nd. hefir gert á því — það er öðru nær, því að nokkrar breytingarnar eru þannig vaxnar, að nefndin getur ekki aðhylst þær. En hitt reið baggamuninn, að þingið hefir nú staðið lengi, í 97 daga, og ef fjárlagafrv. hefði átt að koma fyrir Sþ., þá hefði það lengt svo starfstíma þingsins, að það hefði ekki getað lokið störfum sínum annað kvöld, eins og ráð hefir verið fyrir gert. Flesta hv. utanbæjarþingmenn er nú farið að langa heim og marga þeirra knýr til þess nauðsyn að komast heim sem fyrst.

Að þannig vöxnu máli vildi fjvn. því ekki taka það á sig að lengja þingið, og jeg þykist sjá, að hv. þdm. sjeu nefndinni sammála um þetta, því að enginn þeirra hefir borið fram neina brtt. við frv. Og úr því að hv. deild ætlar að sætta sig við frv. eins og það er, þá er þýðingarlaust að hafa langar umræður um það. Aðeins vil jeg benda á þá breytingu. er gerð var eftir till. landlæknis, að skifta styrk til augnlækningaferða kringum land jafnt milli þeirra augnlæknanna Guðmundar Guðfinnssonar og Helga Skúlasonar. Fjvn. hefir ekkert við þetta að athuga. Það er nauðsynlegt fyrir landsmenn að ná til augnlæknis, og þar sem þessi breyting sparar bæði fyrirhöfn og fje, telur nefndin rjett, að þingið stuðli að því. Ef læknarnir eru tveir, geta þeir dvalið lengur á hverjum stað, en stutt viðdvöl kemur ekki að fullum notum.

Þá eru næst breytingar við 12 gr., 16. lið e. og f. Þar hefir fjárveitingin til læknisbústaðarins og sjúkrahússins í Laugarási verið færð aftur upp í 5000 kr., eða með öðrum orðum, lækkun þessarar hv. deildar á þessum lið hefir verið feld. Fjvn. hefir ekki breytt skoðun sinni á þessu atriði, en hún telur það ekki svo þýðingarmikið. F.-liðurinn hefir einnig verið hækkaður um 14 þús. kr., af því að ráðgert er að reisa sjúkraskýli á Hofsósi og í Reykhólahjeraði. Það er full þörf á að koma þessum sjúkraskýlum upp og fjvn. hefir ekki annað við það að athuga en að gjaldauki þessi, ásamt öðru, verði of mikill á árinu 1926.

Styrkurinn til Eimskipafjelagsins hefir verið hækkaður um 15 þús. kr. (13. gr. C. 1. b.).

Þá er aths. við 13. gr. D. IV. 4, sem hefir verið breytt í þá átt, er háttv. 1. landsk. þm. (SE) lagði til í þessari hv. deild. Fjvn. telur þessa breytingu ekki svo þýðingarmikla, að hún vilji leggjast á móti henni, svo að frv. fyrir þá sök þurfi að fara í Sþ.

Þá er sú breyting á 14. gr. B. I. g., að hækkaður er styrkurinn til Trausta Ólafssonar efnafræðings um 200 kr. Fjvn. var meðmælt þessu og hæstv. forsrh. (JM) hafði borið fram till. þessa efnis í hv. Nd.

Þá er í sömu gr. IX. lið d. breytt orðalaginu á fjárveitingu til þess að styrkja unga og efnilega karla og konur til verklegs framhaldsnáms erlendis, og hefir nefndin ekkert á móti því.

Svo kemur sú breyting undir XIII. lið sömu gr., að styrkur til fræðslumálarits er feldur niður. Þessi upphæð kom inn hjer í deildinni, en þó ekki eftir till. fjvn., og telur hún því þá breytingu til bóta.

Þá eru enn breyttar aths. um styrk til hjeraðsskóla, þar sem það ákvæði er felt burtu, að 2–3 sýslur skuli slá sjer saman. Meiri hl. fjvn. telur þessa breytingu til hins verra. Annars er þetta stefnumál, og meiri hl. nefndarinnar álítur, að hjeraðsskólar eigi ekki að vera of margir og að hlutaðeigandi sýslufjelögum og ríkissjóði sje það ofvaxið að styrkja og reka skóla í hverri sýslu landsins. Hinsvegar er því ákvæði haldið sem skilyrði fyrir styrkveitingunni úr ríkissjóði, að trygging sje fyrir nægu fjárframlagi á móti ríkissjóðsstyrknum, og kemur fjárhæðin því ekki til útborgunar fyrri en trygt er nægt fje, ekki aðeins til að koma væntanlegu skólahúsi upp, heldur og til rekstrar skólans. Treysti jeg hæstv. stjórn til þess að gæta þessa.

Þá er aths. við XVIII. lið 4, um sundnám. Þar er ætlast til þess, að 2000 kr. sjeu greiddar til sundlaugar á Reykjanesi í Norður-Ísafjarðarsýslu, en þó ekki yfir 1/5 kostnaðar. Fjvn. hefði helst kosið, að þessi aths. hefði ekki komið inn, en telur hana þó ekki svo mikils varðandi, að frv. þurfi þess vegna að koma fyrir Sþ.

Fjvn. telur það galla á frv., að hv. Nd. hefir felt niður styrk þann, er þessi hv. deild setti inn til Leikfjelags Akureyrar. Fjvn. leit þannig á, að það leikfjelag hefði sýnt mjög virðingarverðan dugnað og ætti því skilið að fá viðurkenningu, en hv. Nd. hefir ekki getað fallist á það.

Þá er styrkur til skálda og listamanna lækkaður um 1000 kr., en í þess stað er bætt inn 1500 kr. styrk til Stefáns frá Hvítadal. Þetta telur nefndin ekki til bóta.

Þá er styrkur til Hjálmars Lárussonar 1000 kr. Maður þessi er áreiðanlega þurfandi fyrir styrk, og fjvn. telur það ekkert stefnumál, þótt honum sje veittur þessi styrkur.

Þá eru 1200 kr. til Þórbergs Þórðarsonar til þess að safna orðum úr alþýðumáli bundnar því skilyrði, að safnið sje eign ríkisins, — þar hefði átt að standa: að honum látnum.

Þá hefir hv. Nd. sett inn í 23. lið 15. gr. 1500 kr. styrk til Steins Dofra. Maður þessi heitir rjettu nafni Jósafat Jónasson og fór til Ameríku fyrir mörgum árum, en langar nú til þess að komast heim. Fjvn. telur þessa fjárveitingu ekki nauðsynlega og hefði lagt til, að hún væri feld, ef hún hefði viljað gera nokkrar breytingar við frv. Þessi maður skildi ekki svo vel við landið, að það þurfi að verðlauna hann fyrir það.

Þá er brtt. við 15. gr. 48. lið, 1500 kr. til frú Soffíu Guðlaugsdóttur til utanfarar til leiklistarnáms. Þessi kona hefir óvenjumikla leikhæfileika, og fjvn. hefir þess vegna ekkert við þetta að athuga.

Sama er að segja um styrkinn til söngflokks K. F. U. M., 8000 kr. gegn hálfu minna framlagi úr bæjarsjóði Reykjavíkur. Nefnd frá þessu fjelagi kom til fjvn. til þess að skýra málið fyrir henni, og fjvn. er því hlynt, að fjelaginu sje sýndur þessi sómi.

Þá eru stærstu breytingarnar, um að tillagið til Búnaðarfjelags Íslands og Fiskifjelagsins sje hækkað aftur upp í 200 þús. kr. og 70 þús. kr. Það mun standa sjerstaklega á um það, að fjvn. hv. Nd. vill hækka þessi tillög svo, af því að hún mun hafa lofað fjelagsstjórnunum nokkuð ákveðið þeim upphæðum, sem nú standa í frv. Jeg átaldi þetta við 2. umr. og vísa til þess nú.

Jafnframt eru veittar 5000 kr. til Lúðvíks Jónssonar, til að endurbæta jarðyrkjuverkfæri þau, er hann hefir smíða látið. Þessi maður er máske í ónáð hjá forstjórum Búnaðarfjelagsins, en fjvn. telur það enga ástæðu til þess, að honum sje veittur sjerstakur styrkur, fram yfir það, sem Búnaðarfjelaginu er veitt. Sje óánægja með manninn og hún á ekki við rök að styðjast, á stjórn Búnaðarfjelagsins að taka í taumana og sjá um það, að maðurinn fái þann styrk, er honum ber, en sje óánægjan á rökum bygð, á Alþingi ekki að veita þessum manni sjerstakan styrk.

Þá hefir hv. Nd. veitt 10 þús. kr. til lendingarbóta að Skálum á Langanesi, 1/3 kostnaðar. Þar er nýtt útgerðarpláss, sem sjómenn úr fjarlægum hjeruðum sækja að, og er það í anda þingsins að samþykkja slíkt fjárframlag sem þetta.

Þá hefir hv. Nd. lækkað styrkinn til Sambands íslenskra heimilisiðnaðarfjelaga. Hún hefir felt niður 1000 kr. hækkun frá Ed. á þessum lið, en hefir hinsvegar veitt Sigrúnu Pálsdóttur Blöndal í Mjóanesi og Þórdísi Ólafsdóttur á Fellsenda 500 kr. hvorri til kenslu í hannyrðum og vefnaði. Fjvn. Ed. telur það miður farið, að styrkur til hins íslenska heimilisiðnarfjelags skyldi vera lækkaður, því að það vinnur þarft starf og gott og hefði ekki veitt af þeirri upphæð, sem Ed. tók til.

Þá kem jeg að þeirri fjárveitingu hv. Nd., sem fjvn. Ed. er einna verst við. En það er 5 þús. króna fjárveiting til Byggingarfjelags Reykjavíkur, gegn tvöföldu framlagi annarsstaðar frá. Það hefir verið feld hjer í þessari hv. deild áður fjárveiting, sem fór í sömu átt, enda er ekki gott að verja hana. Þetta er sem sagt sú fjárveiting, sem fjvn. Ed. á erfiðast með að sætta sig við.

Þá eru ekki breytingar fyr en í 22. gr., 15 þús. kr. lánsheimild til Hvammstangahjeraðs og 40 þús. kr. lánsheimild til Húsavíkurhrepps, til þess að koma á vatnsleiðslu í kauptúninu. Við þetta er ekkert að athuga. Ef fje er til í viðlagasjóði, þá er það gott, að ríkið veiti lán til slíkra framkvæmda, en ef fje er ekki fyrir hendi, þá nær það ekki lengra.

Þá er 20 þús. kr. lánsheimild til tóvinnufjelags Vestur-Ísfirðinga. Það var áður hjer á fjárlögunum, en þá ekki sje lán, heldur ábyrgð. Nefndin telur það nú skárra, því að heimildin verður ekki notuð, nema ef fje er til, en allar líkur eru til þess, að svo verði ekki. Nefndin telur því þessa heimild næsta þýðingarlausa; lítur á hana sem fjöður til að skreyta hatt þingmanns kjördæmisins, er hann vitjar kjósenda sinna.

Þá er lánsheimild til Sigurðar Sigurðssonar frá Vigur, til þess að koma upp embættisbústað, alt að 15 þús. kr. Þess var að vænta, eftir því sem fór um Kristján Linnet hjer, að fleiri mundu á eftir koma, enda hefir það nú komið á daginn með þessu.

Jeg hefi þá ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta að sinni. Jeg vona, að hamingjan gefi, að árferði verði svo gott til lands og sjávar, að ekki verði tekjuhalli á útkomu ársins, þó að fjárlögin verði nú afgreidd með nokkrum tekjuhalla.

Leyfi jeg mjer að lokum að leggja það til, að fjárlagafrv. verði samþykt eins og það kemur frá hv. Nd., svo að það þurfi ekki að fara fyrir sameinað þing.