27.03.1925
Neðri deild: 44. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1103 í C-deild Alþingistíðinda. (2960)

106. mál, kirkjujörðin Fjós

Flm. (Bjarni Jónsson):

Þetta litla frv. er fyrir þá sök fram komið, að stjórnin getur ekki, samkv. gildandi lögum, selt þessa jörð, af því að í landi jarðarinnar er lítil verslunarlóð. Nú vænti jeg hinsvegar, að hv. deild skilji, að ekki er hægt að búa á þessari jörð, eins og sakir standa. Ef ábúanda verður ekki synjað kaupsins, þá er hann fús á að girða nægilega stóran haga til afnota hestum ferðamanna. Um kauptúnið Búðardal er þess að geta, að það er lítið; eiga þar ekki skifti við nema fáar sveitir Dalasýslu. Nú á síðustu árum hefir það heldur minkað, og líkur eru ekki til þess, að það stækki meir en landrými er til á þeirri verslunarlóð, sem til er. En í þjóðjarðasölulögunum er það ákvæði, að stjórnin má ekki selja, nema þingheimild komi til, þær jarðir, sem í eru kauptún.

Jeg vænti þess, að deildin leyfi þessu frv. að ganga til 2. umr. og nefndar, jeg býst við allshn. Vil jeg svo ekki tefja tímann með frekari umræðum.