20.04.1925
Neðri deild: 60. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1106 í C-deild Alþingistíðinda. (2970)

114. mál, ríkishappdrætti

Flm. (Magnús Jónsson):

Af því það er orðið áliðið þingtímans, og þessvegna í sjálfu sjer heppilegra, að mál þyrftu ekki að tefja mjög mikið fyrir umræðum, þá höfum við flm. þessa frv. tekið það ráð, að skrifa með frv. miklu ítarlegri og lengri greinargerð heldur en við annars hefðum talið nauðsynlegt, og hefðum við þó alveg eins getað hugsað okkur, að þær upplýsingar, sem gefnar eru í greinargerðinni hefðu getað komið að meira eða minna leyti í umræðum. Jeg vonast til þess, að hv. þdm. hafi litið yfir þessa greinargerð, og skal því að þessu sinni — ef ekki gefst frekara tilefni til — ekki fara út í það sama, sem þar er frá skýrt.

Í sjálfu sjer er mál þetta ekki öldungis nýtt hjer á þingi. Það var samþ. frv. á þinginu 1912, ætla jeg, um þetta efni, og í fyrra lá fyrir þinginu frv. um happdrætti, sem varð ekki útrætt. Þetta mál hefir því verið talsvert vakandi á þinginu. Í bæði skiftin var farið fram á, að einstökum mönnum, hjerlendum eða erlendum, væri veitt sjerleyfi til að reka peningahappdrætti hjer á landi. Og jeg býst við, að nokkuð af mótspyrnunni gegn þessu máli hafi stafað einmitt af þessu, að menn hafa ekki þóst vera nógu öruggir um það, hverju þessir menn ætluðu að stinga í sinn eigin vasa, og hvort ágóðinn, sem ríkinu væri ætlaður, væri hæfilegur.

Annað, sem ýmsum mun hafa þótt nokkuð athugavert, var það, að bannað var að selja hjer á landi nema nauðalítinn hluta þeirra seðla, sem gefa mátti út. Hitt átti að selja erlendis, en þar er nálega alstaðar bannað að selja erlenda happdrættismiða, og þetta líktist því nokkuð löghelgun á smyglun.

Eins og frv. var lagt fyrir í fyrra og eins og kom til mála að leggja það fyrir nú, var jeg því samþykkur; jeg sá ekkert athugavert við að veita einstaklingum leyfi til að reka happdrætti, í þeim tilgangi að fá ríkissjóði tekjur. Þar sem útsjeð er um, að slíkt mál komi fram, þá höfum við borið málið fram í annari mynd, til þess að það skyldi að minsta kosti liggja fyrir þinginu slík uppástunga um tekjur handa ríkissjóði, sem hann hefir víst fulla þörf á.

Jeg skal ekki frekar fara út í, hvernig happdrættið er hugsað. Jeg býst við, að hv. þdm. hafi sjeð það í reikningnum, sem hjer er settur upp um tekjur og gjöld ríkishappdrættisins, að svo framarlega sem allir hlutir eru seldir, gefur happdrættið ríkissjóði að minsta kosti 350 þús. kr. Hefir kostnaður við það verið áætlaður nokkru hærri en líklegt hefir þótt, að þyrfti nauðsynlega að vera. Fari svo, að ekki seljist nema helmingur seðlafjöldans, en það mun vera það minsta, sem þarf að gera ráð fyrir, þá gefur happdrættið um 150 þús. kr. í hreinar tekjur; því tekjur og gjöld fara áreiðanlega saman, eftir því, hvað mikið selst, nema stjórnarkostnaðurinn; hann getur staðið nokkurnvegin í stað. Það er því ákaflega áhættulítið — maður getur sagt hættulaust — fyrir ríkið, en auðvitað verður ekki jafnmikill ágóði, hvort sem vel eða illa gengur að koma miðunum út.

Enda þótt í frv. þessu sjeu teknir burtu þessir tveir ásteytingarsteinar, sem jeg gat um áðan, get jeg búist við því, að mál þetta mætti ef til vill óvinsældum hjá sumum hv. þm., eða það verði skiftar skoðanir um, hvort happdrætti skuli upp taka. En þar sem vandlega er reiknuð út fjárhagshlið málsins, þá býst jeg við, að þeir, sem því eru andstæðir, sjeu það af hreinum „princip“-ástæðum, að yfirleitt sje það ekki rjett, að stofna til happdrættis, hvorki í þessari eða annari mynd. Yfirleitt eru skiftar skoðanir um, hvort það sje rjett; sjerstaklega eru það Englendingar og Ameríkumenn, sem hafa staðið á móti „lotteríi“ eða happdrætti, í öllum myndum, og talið það ranga aðferð til að afla fjár fyrir ríkið, og það ali upp óheilbrigðan hugsunarhátt, með því að þarna geta menn fengið stórsummur fyrir ekki neitt, í staðinn fyrir að vita, að þeir verði að vinna fyrir hverjum eyri, sem þeir ná í. En það er svo gott að vita, að með öllum þeim uppeldisáhrifum, sem beitt er til að bægja mönnum frá fjárglæfrum, þá eru þessar þjóðir alls ekki lausar við þá æfintýralöngun, sem hreyfir sjer hjá mönnum, að geta einhverntíma átt von á happi. Menn hafa ríka löngun eftir því, að þeir geti orðið fyrir höppum, eins og það geta altaf komið fyrir menn óhöpp í þessum efnum. Reynslan hefir því orðið sú, að hjá enskumælandi þjóðum kemur happdrættið fram í annari mynd, t. d. á Englandi í veðmálum, við veðreiðar og hvar sem þeir geta höndum undir komist, og oft veðjað stórupphæðum. Þetta er happdrætti í annari mynd, og verri mynd; það er ekki aðeins ábatavon, sem menn geta haft þar, heldur líka skaðavon; í staðinn fyrir að við happdræti vita menn í byrjun, hvað þeir láta úti, en það eina, sem þeir vita ekki, er það, hvað þeir hreppa. Í Ameríku selja menn hveiti, án þess að nokkur vara sje fyrir hendi; það er einskonar veðmál, sem borga skal eftir 3 mánuði. Það er ekki nema veðmál um það, hvort hveitið hækkar eða lækkar, því eftir því fær kaupandinn halla eða ágóða af versluninni.

Við höfum fengið byrjun af þessum veðmálum, þó lítið sje, þar sem veðreiðar hafa verið teknar upp hjer. Þeir segja mjer — því sjálfur hefi jeg ekki komið þar — að við þessar veðreiðar sjeu menn ekki ófúsir á að taka upp þennan enska sið, og veðji allmiklum upphæðum á stundum.

Jeg skal fúslega játa, að það er í sjálfu sjer, frá sjónarmiði einstaklingsins, ekki skynsamlegt, að kaupa happdrættismiða, því eftir líkindum reiknað ætti maður að tapa á því, þegar til lengdar ljeti. Þetta happdrætti skilar kringum 70% af því, sem menn láta; hitt lendir nærri alt sem skattur í ríkissjóðinn. En þetta er nokkuð, sem menn ganga út í vitandi fyrir fram. Frá sjónarmiði heildarinnar er ekki um annað að ræða en það, að 70% fer til manna aftur, hjer um bil 25% til ríkissjóðs, til gagnlegra fyrirtækja, og 5% fer til stjórnar fyrirtækisins. Svo í raun og veru er það enginn eyrir, sem fer forgörðum; það kemur alt að fullu gagni. Það eina, sem menn geta kanske reynt að kalla „eyðslu“, er það, sem fer til stjórnar fyrirtækisins. En það eru þá menn, sem á einhverju verða að lifa, sem hefðu þar atvinnu við.

Jeg býst við, að ríkissjóði þyki sem ljett sje af honum þeim parti af kostnaði við byggingu landsspítalans, sem sá sjóður borgar, sem stofnaður var með frjálsum samskotum í þessu skyni. Það, sem hjer er farið fram á, er í raun og veru ekki annað en frjáls samskot til að auka tekjur ríkissjóðs, að menn leggi á sig skatt af fúsum og frjálsum vilja. Sá kostnaður sem landsspítalasjóðurinn borgar fyrir byggingu landsspítalans, er borgaður af þjóðinni í heild sinni, ekki síður en það, sem borgast úr ríkissjóði. Þannig er með alt, sem framkvæmt er með samskotum; munurinn er aðeins sá, að menn taka þátt í því af fúsum og frjálsum vilja í staðinn fyrir að borga með illu í álögðum skatti. Sá, sem kaupir happdrættismiða, gerir það oft að gamni sínu eða til þess að hafa það fyrir einskonar krydd í lífinu, af því að það munar hvort sem er engu um hans fjárhag, hvort hann leggur til þess nokkrar krónur eða ekki.

Að svo mæltu orðlengi jeg ekki frekar um frv. nú, og geri heldur ekki síðar, nema tilefni gefist. En frv. vona jeg að fái að ganga til 2. umr. og fjárhagsnefndar.