20.04.1925
Neðri deild: 60. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1120 í C-deild Alþingistíðinda. (2976)

114. mál, ríkishappdrætti

Jakob Möller:

það er ekki aðeins athugavert, að frv. er seint fram borið. Síðastl. laugardag var tilkynt, að því væri útbýtt hjer í hv. deild, en fyrir mínar sjónir kom það fyrst í byrjun þessa fundar, hvað sem þessu veldur. Af þessu leiðir, að jeg hefi ekki getað kynt mjer greinargerð frv. sem skyldi. En þó hygg jeg, að jeg fari með rjettara mál en hv. flm. (MJ), þar sem okkur ber á milli. Jeg held, að jeg hafi lýst því rjettilega, hverskonar svikamilla slíkt happdrætti getur verið og verður vafalaust. Jeg meina ekki, að beint fals verði í rekstri fyrirtækisins, eins og hv. flm. virtist skilja orð mín. Slíkt getur auðvitað komið fyrir, en jeg hefi þó ekki gert ráð fyrir því í þessu sambandi. En eins og hv. 2. þm. Reykv. (JBald) tók fram, verður áreiðanlega mest látið bera á stærstu vinningunum í öllum auglýsingum um happdrættið. En hvort þeir koma nokkurntíma til dráttar, fer eftir því, hversu mikið verður selt af happdrættisseðlum, þegar dregið verður. Um söluna vita svo ekki aðrir en þeir, sem happdrættinu stjórna, og þeir reikna nákvæmlega út, auðvitað undir hinu „ágætasta“ eftirliti, hvað óhætt sje að láta vinningana nema hárri upphæð, eftir sölunni að dæma, fyrirtækinu að skaðlausu. Þessvegna er engin sönnun fyrir því, að stóru vinningarnir, sem mest ber á í auglýsingunum, komi nokkurntíma til greina, þegar dregið er. En menn úti um alt land hafa keypt seðla í happdrættinu vegna þessara vinninga fyrst og fremst og vita ekki annað en um þá sje einnig dregið, sem vonlegt er. Þetta kalla jeg svikaspil.

Hv. flm. (MJ) sagði, að enda þó ekkert slíkt happdrætti yrði stofnað, væri hægt að hafa af mönnum fje á svipaðan hátt. Þetta er rjett. Það er öllum kunnugt, að hjer á landi er keypt talsvert mikið af útlendum happdrættisseðlum. En hann getur reitt sig á, að það verður gert eftir sem áður. Þetta happdrætti kemur aðeins í viðbót við útlendu happdrættin, sem selja hingað seðla sína. Og það verður ill viðbót. Smalar happdrættisins munu renna inn á hvert einasta heimili um landið þvert og endilangt og ginna menn til seðla kaupa, því þarna fær fjöldi manna atvinnu, svo skemtileg sem hún verður. Nú er það þó svo, að útlendu happdrættin láta sjer nægja að senda mönnum brjef í pósti 1–2 sinnum á ári, þar sem skrumað er fram úr hófi af ágæti vinninganna, en menn eru blessunarlega lausir við allar persónulegar heimsóknir smalanna.

Mjer þótti hv. flm. (MJ) ganga nokkuð langt, þegar hann bar saman slíka happdrættis-„spekúlation“ og atvinnuvegi landsmanna.

Jeg gæti trúað, að sumum hv. þdm. þætti þetta ganga nokkuð nærri „blasfemi“. (MJ: Jeg hefi oft heyrt sildveiðar kallaðar lotterí.) Jeg hefi aldrei fyr heyrt slíkan samanburð gerðan í alvöru, og mjer finst hann stappa nærri „blasfemi“.

Hv. flm. (MJ) gerði mikið úr ást Dana á sínu „Klasselotteríi“. Jeg skal ekkert um það segja, hvort þessi umtalaða ást stafar af ræktarsemi við föðurlandið, eins og hv. flm. (MJ) gaf í skyn. En hitt veit jeg, að eru tómar bábiljur, að ekki sje hægt að fá keypta seðla í því happdrætti nema helst hjá dánarbúum, þar sem engir lögerfingjar eru, og þá aðeins fyrir margfalt verð. Jeg veit ekki betur en að seðlana megi fá hvenær sem er, á venjulegum markaði.