14.05.1925
Efri deild: 77. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1134 í B-deild Alþingistíðinda. (298)

1. mál, fjárlög 1926

Frsm. (Jóhannes Jóhannesson):

Er jeg talaði um, að hv. utanbæjarþingmenn vildu og þyrftu að fara að komast heim, þá átti jeg við það, að ráðgert er, að skip fari á laugardaginn, og það er ekki gott að láta skip bíða. Gullfoss verður þá búinn að bíða einn dag.

Það er rjett hjá hv. þm. A.-Húnv. (GÓ), að við, sem heima eigum hjer í bænum, getum ekki gefið okkur eins óskifta við þingstörfunum sem þingmenn utan af landi. En jeg vona þó, að það hafi ekki orðið að verulegum baga. Jeg veit það, að fjárlögin hafa ekki tafið þingið. Það voru önnur stórmál, er fyrir lágu, sem gerðu það að verkum, að ekki var hægt að flýta þeim meira.

Jeg átti alls ekki við, að stjórnin ætti að láta sína flokksmenn sitja fyrir, er hún færi að framkvæma lánsheimildirnar, heldur að hún ætti að láta það, sem nauðsynlegra er, ganga fyrir. Jeg skil nú ekki í því, að það geti orkað tvímælis, að það sje nauðsynlegra og stjórninni skyldara að lána fje til þess að byggja embættisbústaði í Vestmannaeyjum og á Sauðárkróki heldur en að lána fje til tóvjela á Vestfjörðum. Jeg efast ekki um, að stjórnin stuðli frekar að því, enda alsiða að veita viðlagasjóðslán til þess að reisa embættisbústaði, svo að hjer er engin ný stefna á ferðinni.