12.05.1925
Neðri deild: 78. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1123 í C-deild Alþingistíðinda. (2982)

119. mál, húsaleiga í Reykjavík

Jón Baldvinsson:

Frv. þessu var vísað til allshn. fyrir skömmu, og hún hefir gert það, sem hún áleit skynsamlegast og vísaði málinu til bæjarstjórnar Reykjavíkur, sem nú hefir sent allshn. erindi því viðvíkjandi. Það, sem bæjarstjórnin samþykti, var það, að hún ætti að eiga frumkvæði að tillögum um það, hvort lögin skuli úr gildi numin eða ekki. Lögin voru upprunalega sett eftir beiðni bæjarstjórnarinnar, og þegar þau voru gefin út sem bráðabirgðalög, var það fyrir tilstuðlan hennar. Síðan breyttist þetta þannig, að bæjarstjórninni var veitt heimild til að setja reglugerð um þetta efni, og þó að jeg geti vel játað, að henni hafi ekki farist það sem höndulegast, þá tókst henni í fyrra að semja reglugerð og sendi stjórnarráðinu til staðfestingar. En þá vjek svo við, að hæstv. atvrh. (MG) vildi ekki staðfesta hana. Mjer er óhætt að fullyrða, að reglugerðin hafi ekki að neinu leyti farið út fyrir heimild bæjarstjórnarinnar, og því var það gerræði af hæstv. atvrh., að neita um staðfestingu. Mjer virðist ekki geta komið til mála, að Alþingi fari að samþykkja neitt í þessu máli, þvert ofan í tillögur bæjarstjórnarinnar. Það væri gerræði af Alþingi, engu síður en af stjórnarráðinu, að neita reglugerðinni um staðfestingu. Þessvegna álít jeg, að þetta mál eigi ekki að standa á dagskrá nú, því að ekki er rjett að hrinda frv. áfram, enda er ólíklegt, að það nái fram að ganga, er menn vilja afnema lögin án þess að setja neitt í staðinn.

Jeg hafði þessa tillögu, sem bæjarstjórnin samþykti, en erindi bæjarstjórnarinnar hefir nú verið tekið frá mjer og finst ekki, en jeg hefi þessa tillögu hjer í blöðum og vil vísa til hennar. Með leyfi hæstv. forseta ætla jeg að lesa upp ályktun bæjarstjórnarinnar, sem samþykt var á fundi 7. maí s.l. Hún hljóðar svo:

„Með lögum nr. 50, 27. júní 1921 var bæjarstjórninni gefið vald til að setja reglugerð um húsnæði í Reykjavík með samþykki ráðuneytisins. Með slíkri reglugerð verða húsaleigulögin numin úr gildi, eins og líka má fella þau úr gildi með konunglegri tilskipun. Með þessum lögum er viðurkent, að bæjarstjórn eigi að ráða fram úr húsnæðismálinu án íhlutunar Alþingis. Þegar lögin voru sett, voru allir sammála um, að bæjarstjórnin hefði bestu skilyrði til að ráða vel fram úr vandræðum þeim, sem stafa af húsnæðisskorti í bænum.

Afstaða bæjarstjórnar hefir ekki breyst í þessu efni, og mótmælir bæjarstjórnin þessvegna, að Alþingi taki fram fyrir hendur hennar og afnemi nú húsaleigulögin og heimildina fyrir bæjarstjórn til að setja reglugerð, er tryggi bæjarbúum afnot húsnæðis í bænum, og um annað, er að húsnæði lýtur.“ Þessi tillaga var samþykt í bæjarstjórn með miklum meirihl. atkv., og að framkominni þessari tillögu getur Alþingi ekki afgreitt málið þannig. Jeg legg því eindregið til, að frv. verði felt.

Allshn. hefir ekki gert nál. um málið, enda hafa verið fundir í þinginu að heita má dag og nótt, síðan málið kom frá bæjarstjórn.