12.05.1925
Neðri deild: 78. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1127 í C-deild Alþingistíðinda. (2984)

119. mál, húsaleiga í Reykjavík

Benedikt Sveinsson:

Háttv. 2. þm. Reykv. (JBald) taldi á forseta fyrir að hafa tekið þetta mál á dagskrá. Jeg held, að hv. 2. þm. Reykv. hafi lítið vald til að skipa fyrir um þetta. En það væri ósanngjarnt, að taka ekki á dagskrá slíkt mál, sem svo mjög varðar allan almenning. En hv. þm. hefir tekið í sama strenginn og bæjarstjórnin. En jeg verð að leyfa mjer að mótmæla því, að bæjarstjórnin sje í þessu efni rjetthærri en Alþingi.

Hv. þm. sagði, að bæjarstjórnin ætti að búa við þessi lög. Jeg hugði nú, að þau bitnuðu mest á bæjarmönnum. — Hann segir, að Alþingi hafi „gefið“ bæjarstjórn þetta vald, — líkt og það væri Kristján konungur IX., er „gaf“ stjórnarskrána. En hjer víkur lítið á annan veg við, því að Alþingi hefir aldrei „gefið“ bæjarstjórn Reykjavíkur nein rjettindi, er því sje eigi að sjálfsögðu í lófa lagið, og skylt, að breyta, hvenær sem þörf gerist. — Hitt er rjett, að lögin eru mest fyrir bæjarstjórn Reykjavíkur, í þeim skilningi, að hún ein vill, að þau standi. Flestir aðrir mundu verða alfegnir að losna við þau. En sakir þess, að Reykjavík er ekki einungis til fyrir bæjarstjórnina, að því er jeg hefi ætlað, þá hjelt jeg jafnvel, að borgarar bæjarins væru svo rjettháir, að þeir mættu leita til Alþingis sem aðrir um rjettarbætur.

Á krepputímum þarf stundum að grípa til örþrifaráða. En ætlast nokkur til, að slík lög verði til eilífðar? Hv. þm. (JBald) sagði, að Alþingi ætti ekki að taka málið fyrir, af því að bæjarstjórnin hjeldi móti því. — Háttv. þm. þyrfti að átta sig betur á „stjórnlagafræðinni“.

Jeg kann hæstv. stjórn þakkir fyrir, að hún staðfesti ekki reglugerð bæjarstjórnarinnar, og jeg vona, að hún hafi hjer eftir gát á því, sem fram fer.

Hv. 2. þm. Reykv. talaði um eitthvert „vald“, sem Alþingi hefði gefið bæjarstjórninni 1921. Þessu hefi jeg svarað áður. — En þessi sami andi kemur fram í ályktun þeirri, sem samþykt var á bæjarstjórnarfundinum um daginn. Þar er talað um, að Alþingi taki fram fyrir hendurnar á bæjarstjórninni!! Það er eins og þegar Jón Sigurðsson mótmælti ofríki Dana!

Ein mjög einkennileg hugsunarvilla kemur fram, þar sem hv. þm. (JBald) lætur svo sem lögin sjeu til þess, að „tryggja bæjarbúum afnot húsnæðis“ — rjett eins og Reykvíkingar mundu eigi hafa rjett til slíkra afnota, ef eigi væru kúgunarlög til um þau efni.

Annars mundi hjer eigi alóáþekt því, er oss var í æsku sagt um Sódóma og Gómorra; því að til eru góðir og rjettlátir menn í þessum málum, og hefir einn bæjarfulltrúi mótmælt því, að bæjarstjórn eigi frekara úrskurðarvald í þessum málum en Alþingi heimilar í hvert sinn eða gefur tilskipun um með lögum. Sannleikurinn er sá, að þessi lög hafa tafið fyrir húsagerð í bænum, alveg eins og hv. 4. þm. Reykv. (MJ) benti á, og þannig valdið húsnæðiseklu og haldið húsaleigunni uppi.