14.05.1925
Neðri deild: 80. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1138 í C-deild Alþingistíðinda. (2991)

119. mál, húsaleiga í Reykjavík

Jón Baldvinsson:

Jeg vil benda á það, að með þessu frv. yrðu úr gildi feld öll ákvæði um húsnæði í Reykjavík, og verð jeg, eins og sakir standa, að telja það mjög varhugavert. Bæði er það, að 2. gr. er svo orðuð, að við svo búið má ekki standa, og í annan stað hefir bæjarstjórn Reykjavíkur, sem þessum málum ætti að vera kunnugust, mótmælt frv. eindregið. Getur það valdið miklu tjóni, að láta bæjarstjórn standa varnarlausa uppi í húsnæðismálum. Jeg vil því leyfa mjer að skjóta því til hv. fhn. frv., hvort þeim sýnist ekki rjett að setja ákvæði í frv. um það, að bæjarstjórnin skuli, eftir þessum lögum, fá frest til að gera samþyktir um þetta efni. Fyndist mjer það vel hlýða, að lög um húsnæði í Reykjavík miðuðu að því, að bæjarstjórnin mætti setja reglugerð um húsnæði innan einhvers ákveðins frests.

Allshn. hefir haft með höndum erindi frá borgarstjóra Reykjavíkur, en hann er sá maður, sem stöðu sinnar vegna ætti að vera þessum málum kunnugastur. Hann segir svo í þessu brjefi sínu, að reynsla sín frá byrjun hafi sannfært sig um, að stórhættulegt myndi vera, ef lögin yrðu afnumin og ekkert sett í staðinn. Og bæjarstjórnin hefir tjáð sig vera á sama máli. Þess má ennfremur geta, að erfiðleikar eru nú talsvert meiri í vor, og verða að sjálfsögðu ennþá meiri í haust, en þeir hafa verið að undanförnu. Húsnæðisvandræðin eru m. ö o. að aukast, en ekki að þverra, eins og sumir virðast halda. Mjer finst, að Alþingi gerði því mjög rangt í því, að afgreiða þessi lög nú, ekki síst, þar sem svo lítið er eftir af þingtímanum, að engin von mun þess, að hægt verði að koma að brtt. við frv., sem nauðsynlegt væri, þó eigi settu þær eins mikil höft á eins og verið hafa. Það væri t. d. mikil þörf á að setja fastan uppsagnartíma og ákveða flutningsdaga, en eins og nú er, þá munu aðeins venjur, en engin lög vera til um þetta atriði, önnur en húsaleigulögin. Eru þó lög sett um viðskifti, sem smærri eru og þýðingarminni en þessi.

Jeg vil því að lokum aðeins ítreka það, sem jeg tók fram, að þar sem frv. er svo seint á ferð, að aðeins 2 dagar eru eftir af þingtímanum, en það á hinsvegar eftir að ganga í gegnum 4 umr., þá er sýnilegt, að engin athugun á því getur farið fram, og vil jeg því vænta, að hv. þm. sjái þessu máli svo best komið, eins og sakir standa, að fella frv.