14.05.1925
Neðri deild: 80. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1141 í C-deild Alþingistíðinda. (2993)

119. mál, húsaleiga í Reykjavík

Magnús Jónsson:

Það er farið að tíðkast nokkuð hjer á Alþingi, svo að menn eru farnir að hætta því að kippa sjer upp við það, að ef menn halda fram þeim málum, er snerta einhverja einstaklinga, þá er sagt, að menn gangi erinda þeirra, og þá væntanlega af óhreinum hvötum.

Hv. 2. þm. Reykv. (JBald) byrjaði vörn sína á því að segja, að hjer í bænum væri húseigendafjelag, og mundu menn úr því hafa legið í eyrum okkar þm., og frv. komið fram vegna hagsmuna þeirra. En nú er það öllum kunnugt, að fjelag þetta var stofnað vegna þess, hvað lögin rjeðust geipilega á rjett einstaklinga. Jeg skal geta þess, að jeg hefi verið leigjandi, svo að húseigandahagsmunir ráða ekki afstöðu minni til málsins, heldur hitt, að jeg vil ekki, að lögin standi, hvorki vegna húseigenda nje leigjenda. Það er óánægjueldur um allan bæ út af lögum þessum. Og maður veit, að fyrir allan þorra manna, sem óskar að búa í góðu samlyndi við húseigendur, er lítil vernd í þessum lögum, því að hver heiðarlegur maður, sem á annars úrkosta, óskar heldur að flytja sig en að búa við ósamlyndi. En þó getur komið fyrir, að menn verði að sitja kyrrir vegna laganna, af því að ekkert losnar, og það má hver sem vill halda því fram, að þeir geti unað sjer eins vel í íbúð sinni, þótt húseigandi sje þeim reiður. Það er samt sem áður ekki rjett, því að flestir eru þannig gerðir, að þeir vilja lifa í sátt og ró.

Hv. þm. (JBald) sagði, að það væri vegna barnamanna, sem ættu ilt með að fá húsnæði, að bæjarstjórn vildi ekki afnema lögin. En ef maður athugar nú reglugerð þá, sem bæjarstjórnin setti, þá veit jeg ekki betur en að það sje aðalatriðið, sem tekið er upp í hana, að hægt sje að segja mönnum upp húsnæði. Með því vill þá bæjarstjórn ekki lengur vernda fátæka barnamenn.

Hv. 1. þm. Árn. (MT) sagði, að með þessu frv. væri verið að ráðast á sjálfsákvörðunarrjett bæjarins. Taldi hann, að bæjarstjórn væri málinu miklu kunnugri en Alþingi, og þessvegna hefði henni verið gefin heimild til að setja reglugerð um þetta efni. En borgarstjóri segir svo, í brjefi dags. 11. maí:

„Það skal játað, að heppilegra hefði verið, að þegar fyrir löngu hefði verið sett reglugerð, en það er eðlilegt, að bæjarstjórn hafi átt erfitt með að koma sjer saman um þetta mál, þar sem svo margvísleg hagsmunasvið koma til greina.“

Þetta er satt. Það er eðlilegt. En hví þá endilega að halda í þetta ímyndaða „vald“ dauðahaldi? Einmitt af því, að hagsmunirnir rekast svo á í þessu máli, á æðra vald, sem er þeim ofar, að taka í taumana. Bæjarstjórn hefir reynt þetta og mishepnast, og jeg sje enga ástæðu til þess að vera að þreyta bæjarstjórnina lengur á þessu.

Til þess að lengja ekki tímann, skal jeg láta hjer staðar numið. En röksemdirnar, sem bornar eru fram gegn frv., eru hinar sömu og altaf koma fram, þegar menn vilja halda í einhver þvingunarlög, og jeg efast ekki um, að þótt við afnemum húsaleigulögin, þá verða hvorki tákn á sól nje tungli, heldur kæmi í ljós heilbrigð og góð áhrif þess, og að fátækir barnamenn mundu þá fá miklu betri húsakynni en áður.