16.02.1925
Efri deild: 7. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1158 í C-deild Alþingistíðinda. (3017)

42. mál, húsmæðraskóli á Staðarfelli

Flm. (Jónas Jónsson):

Út af fyrri hluta ræðu hæstv. forsrh. (JM) vildi jeg aðeins segja það, að æskilegt væri, til leiðbeiningar fyrir þá nefnd, sem fær málið til meðferðar, hver sem hún verður, að hann, sem bæði tók við gjöfinni og er málinu vafalaust manna kunnugastur, frá þeirri hlið, vildi láta í ljós sína persónulegu skoðun, hvort nokkuð væri því til fyrirstöðu að nota gjöf frú Herdísar í sambandi við skólarekstur á Staðarfelli. Verið getur, að þyrfti að breyta frv. þessu. Óska jeg eftir, að hæstv. forsrh. (JM) gæfi frekari skýringu um það frá sínu sjónarmiði, hvort nokkurt álitamál sje, að það verði að nota þessar gjafir saman, úr því þing og þáv. stjórn tóku við Staðarfellsgjöfinni með þeim formála, sem gert var. Ennfremur er það kunnugt — þó ekki sje það æskilegt — að gjafabrjefum er stundum breytt lítið eitt; vil jeg í því efni benda á Hannesarsjóðinn, sem vafalaust, eftir ósk gefandans, ætti að nota til almennra heimspekirannsókna, en ekki, eins og hann síðar varð notaður, til sjerrannsókna í heimspekilegum efnum.

Eftir eðli þessa máls finst mjer, að það eigi heima í mentmn. Það er þó skólamál, og skil jeg ekki, til hvers mentmn. ætti að vera í þinginu, ef ekki til að athuga skólamál.

Að síðustu vildi jeg benda hæstv. forsrh. (JM) á það, út af tímatali í kennaraskólanum, að jeg hefi líka góðar heimildir, gefnar af kennara við skólann, og mun jeg við tækifæri leggja fram álit hans á móti þessu áliti. En þar sem jeg hefi ekki búið mig út með skriflegum skjölum, ætla jeg að geyma það til síðari tíma.