19.03.1925
Efri deild: 34. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1172 í C-deild Alþingistíðinda. (3024)

83. mál, byggingar og landnámssjóður

Fjármálaráðherra (JÞ):

Eftir því sem verkefni þessa sjóðs er lýst í þessu frv., fellur það að miklu leyti saman við ætlunarverk Ræktunarsjóðs Íslands, samkv. stjfrv. því, sem nú liggur fyrir hv. Nd. Af þessu er jeg hræddur um, að framkoma þessa frv. muni heldur spilla fyrir Ræktunarsjóðsfrv., ef bæði eru á ferðinni um sama leyti hjer í þinginu, annað frá Nd., en hitt hjeðan, og getur vart hjá því farið, að þau muni fyr eða síðar lekast á. Þetta er svo augljóst, að þetta frv. verður fremur til að spilla fylgi við Ræktunarsjóðsfrumvarp stjórnarinnar, að jeg gat vart varist þeirri hugsun, að það væri einmitt borið fram í þeim eina tilgangi. En jeg vil þó ekki ætla, að svo hafi verið. Og í framsöguræðu hv. flm. fann jeg heldur ekki neitt, sem benti til þess, að þetta væri tilgangur frv. En þó fæ jeg ekki annað betur sjeð en að brautin væri hreinni og greiðfærari fyrir Ræktunarsjóðsfrv., ef þetta frv., sem hjer ræðir um, væri ekki látið vera lengi á flækingi í þinginu. Jeg þykist vita, að frv. stjórnarinnar muni eiga allmikið fylgi í þinginu, ef eigi eru önnur frv. um líkt eða sama efni að tefja fyrir því. Auk þessa eru mörg atriði í þessu frv. hv. 5. landsk. (JJ), sem eru algerlega ótæk, og skal jeg nú gera grein fyrir nokkrum þeirra og að hverju leyti þau eru óhafandi. Mótbárur mínar skiftast í 3 flokka, og snerta sumar fjáröflunina handa sjóðnum, aðrar meðferð sjóðsins, og loks fráganginn á frv.

Fjáröflunin til sjóðsins er sett fram sem hreint skattamál, og heyrir það því undir mína stjórnardeild. Þessvegna taldi jeg mjer skylt að taka mál þetta til athugunar, þegar við 1. umr.

Fjáröflun handa sjóðnum á að gerast með árlegri niðurjöfnun eftir efnum og ástæðum á alla þá einstaklinga í landinu og „gróðafjelög“, sem hafa meira en 20 þús. kr. skattskyldar tekjur eða 30 þús. kr. skattskylda eign, og á hin niðurjafnaða upphæð, án tillits til árferðis, að nema 500 þús. kr. árlega. Í þessu sambandi verður nú fyrst að gæta þess, að vegna lággengis og ljelegs kaupmáttar peninganna samsvara 20 þúsund króna tekjur, sem stendur, nálægt 7 þús. kr. tekjum fyrir stríðið, og 30 þús. kr. eign nálægt 10 þús. kr. fyrir stríð, svo að hjer er hvorki um geypigróða nje mikla auðlegð að ræða, enda er lítið um slíkt í þessu fátæka landi. Þetta er þá nýr skattur, hliðstæður aukaútsvörunum og tekju- og eignaskattinum, og lendir einmitt á þeim gjaldendum í landinu, sem nú þegar bera aðalbyrðarnar af þessum gjöldum. Tekju- og eignaskatturinn er eftir núgildandi löggjöf um 50% hærri á tekjum fyrir ofan 20 þús. kr. og tilsvarandi eignum en í Danmörku, og hann er svo hár, eftir dómi þeirra manna, sem þessu eru kunnugastir, að það mundi vera ávinningur fyrir ríkissjóðinn að lækka hann nokkuð. Það er almenn regla, viðurkend af sjerfræðingum í skattamálum í meira en 100 ár, að takmörk eru fyrir því, hve mikið má hækka einstaka skatta; þegar komið er að þessu takmarki, leiðir frekari hækkun ekki til aukningar á skatttekjum, heldur til lækkunar á þeim. Ef skattur á háum tekjum hjer á landi þegar er kominn upp fyrir þetta mark, má nærri geta, að varhugavert er að bæta enn þar ofan á. Tekju- og eignaskatturinn hefir undanfarin ár numið alls um 800 þús. kr., og mætti giska á, að alt að 500 þús. kr. þar af komi frá þeim gjaldendum, sem eiga að bera nýja skattinn, og felur þá frv. í sjer tvöföldun þeirrar byrðar, sem nú er fyrir og of þung er talin. Að skattinum er jafnað niður af handahófi, og að þeir, sem með undandrætti geta komið tekjum sínum rjett niður fyrir 20 þús. kr. og eign niður fyrir 30 þús. kr., sleppa alveg, bætir náttúrlega ekki úr.

Í erfiðum árum, þegar atvinnurekstur gefur lítinn eða engan arð, eða jafnvel tap, fjelli nýi skatturinn svo að segja eingöngu á eignir manna, yrði hreint eignarnám. Hann mundi því hafa sömu afleiðingar hjer eins og menn hafa sjeð fyrir annarsstaðar, þar sem tillögur í sömu átt hafa komið fram, sem sje almennan fjárflótta úr landinu. Samskonar tillögur voru bornar fram af sósíalistum í Sviss, og komust svo langt, að þeim var hleypt undir þjóðaratkvæði. En meðan á því stóð, að atkvæðagreiðslan kæmist í kring, varð fjárflóttinn svo mikill, að allir sáu hættuna, og tillagan fjekk aðeins tiltölulega sárfá atkvæði, ekki nándarnærri þá atkvæðatölu, sem annars fylgir sósíalistum í Sviss. Á Englandi höfðu sósíalistar samskonar mál nokkuð á oddi við næstsíðustu kosningar. Verkamannaflokkurinn sigraði við kosningarnar og myndaði stjórn, en fyrsta verk stjórnarinnar var það, að hún gaf út yfirlýsingu um, að tillögunum um eignarnám yrði ekki framfylgt. Slíkar tillögur hafa hvergi verið bornar fram af öðrum en sósíalistum, og því ekki óeðlilegt, að þær sjeu einnig hjer fram bornar af sósíalista, sem hv. 5. landsk. vitanlega hefir verið og er enn. Tilgangurinn með þeim er ávalt og alstaðar sá, að hindra fjársöfnun eða efnaaukningu, en afleiðing þess getur aldrei orðið önnur en almenn fátækt, og finst mjer fyrir mitt leyti, að löggjafarvaldið ætti heldur að velja sjer eitthvert annað verkefni en viðhald fátæktarinnar í landinu.

Þá kem jeg að notkun fjárins. Það á sumt að renna til sveitanna, en sumt til kauptúna og kaupstaða. Í sveitirnar má veita lán til tvenns, sem sje, að endurbyggja niðurnídd býli og til „landnáms“, þ. e. til nýbýlastofnunar. Jeg fyrir mitt leyti hefi nú enga trú á stofnun nýbýla í sveitum fyrst um sinn. Jeg lít svo á, að þessi 7000 til 8000 býli, sem til eru í landinu, sjeu að því leyti í rauninni nýbýli, að ræktun og húsun þeirra er að mestu leyti ógerð ennþá, þó að þau sjeu 1000 ára gömul. Jeg álít sjálfsagt, að beina kröftunum að ræktun og byggingu þeirra býla, sem fyrir eru, en eyða þeim ekki til þess að taka skákir úr óyrktum löndum jarðanna undir nýbýli, sem bjóða ólíkt erfiðari skilyrði til umbóta en jarðirnar sjálfar. Fjölgun sveitabýlanna hjer á landi kemur á sínum tíma á sama eðlilega hátt og í öðrum löndum Norðurálfunnar, þegar svo mikið af landi jarðarinnar er ræktað orðið, að það nægir fleirum heimilum en einu. Þá er jörðunum skift, oft við erfðir, og þannig hafa í öðrum löndum einstök býli smámsaman orðið að sveitaþorpum, og svo mun einnig verða hjer, þegar ræktunin er nógu langt á veg komin.

Til sveitanna rennur þá naumast annað fje sjóðsins en það, sem ætlað er til að endurbyggja niðurnídd býli. Mjer finst það nú æðiundarlegt, að gera niðurníðsluna að skilyrði fyrir framlagi til byggingar úr sjóðnum, eins og verið væri að verðlauna hana. Það er líkast því sem menn eigi að keppast við að níða niður, til þess að þeim sje rjett hjálparhönd. En þar sem ætla má, að fjármagn sjóðsins nægi ekki til byggingar nema svo sem 25 býla á ári, eftir núverandi verðlagi, þá gæti sumum orðið löng biðin, og óvíst, hvort meira gætti, niðurníðslunnar eða endurreisnarinnar í því kapphlaupi þeirra á milli, sem til er stofnað.

Til nýbýla við kauptún og kaupstaði er efalaust unt að koma út miklu fje, öllu hinu fyrirhugaða fje sjóðsins, ef menn vildu. Af því mundi leiða talsverða örvun á fólksstraumnum úr sveitunum til þessara sjávarþorpa, en mjer hefir ekki skilist, að nú sem stendur sje þörf á að örva þennan straum, heldur hið gagnstæða.

Fje sjóðsins á að veita mönnum að láni vaxtalaust. Þetta er gjöf. Fáækrastyrk eða sveitarstyrk má líka kalla það; mest af núverandi sveitarstyrk er einmitt veitt sem vaxtalaust lán. Sammerkt á þetta líka við þann sveitarstyrk, sem nú er í lögum, að fjeð er í báðum tilfellum fengið með niðurjöfnun eftir efnum og ástæðum. Og loks vantar hjer ekki síðasta einkenni sveitarstyrksins, rjettindamissinn, sem við hann er tengdur. Að vísu á sveitarstyrkurinn úr þessum sjóði ekki að svifta menn kosningarrjetti og kjörgengi, en samkvæmt ákvæðum 7. og 8. gr. frv. sviftir hann lánþegana í reyndinni eignarrjettinum yfir býlum þeirra, að minsta kosti eignarrjettinum eins og hann er afmarkaður í núgildandi landslögum. Svo er sem sje ákveðið í frv., að ef lántakandi stendur ekki í skilum, þá verður hann að flytja burt af býlinu, en hann má ekki selja það hæstbjóðanda, heldur á að skamta honum verðið eftir mati nefndar, sem á að gæta þess, að hann fái ekki meira fyrir eignina en hann sjálfur hefir til hennar kostað. Hugsum oss, að slík lög hefðu verið í gildi síðustu 10 árin, og að fátæklingur hefði kostað 1000 kr. frá sjálfum sjer upp á býli sitt 1915, og að hann lendi svo í vanskilum árið 1923. Þá á hann að víkja í ár, 1925, og þó allar aðrar eignir hafi þrefaldast í verði síðan 1915, vegna hinna almennu verðhækkunar, eða lækkunarinnar á kaupmætti peninganna, þá má þessi fátæklingur ekki fá meira en 1000 kr. fyrir sína eign í býlinu. Yfir höfuð gerir frv. ekki ráð fyrir neinum eignarrjetti að þessum býlum, heldur einungis ábúðar- og afnotarjetti, og er í því efni í fullu samræmi við sósíalista eða sameignarstefnuna, sem vill ekki þurfa að viðurkenna neinn eignarrjett að landi, svo að hv. flutningsmaður er einnig í þessu atriði í fullu samræmi við sína eigin stefnu.

Jeg held, að fáir dugnaðarmenn gerðust til þess að sækjast eftir þessum sveitarstyrk. Jeg er sjálfur af bændabergi brotinn og hefi það mikinn metnað fyrir bændastjettarinnar hönd, að jeg tel henni misboðið með slíku tilboði um fátækrastyrk. Það er reynsla allra tíma, að engin menning þrífst meðal þeirra, sem aldir eru til langframa á ölmusugjöfum. Þarf ekki annað en minna á borgarlýðinn í Rómaborg hinni fornu, sem breyttist úr atorkusömu fólki í hreinan skríl, eftir að sú tíska hófst, að valdhafarnir keyptu atkvæði lýðsins fyrir lífsframfæri. Menningin byggist á því, að menn beiti sínum eigin kröftum fyrst og fremst, og leiðin til að efla ræktun og byggingu í sveitunum er sú, að kalla á starfsvilja manna, með því að skapa þeim hagstæðari skilyrði en nú eru til árangurs af eigin starfsemi, m. a. með útvegun lánsfjár, þar sem notkun þess á við.

Þá skal jeg að lokum minnast ofurlítið á frágang frv. Skattinum á að jafna niður eftir efnum og ástæðum, og það á „skattanefnd Reykjavíkur“ að gera, en sú nefnd er engin til. Reykjavík er eina sveitarfjelag landsins, sem ekki hefir skattanefnd. Úrskurðum þessarar nefndar, sem ekki er til, má svo skjóta til yfirskattanefndar Reykjavíkur, og hún er til. Hún á svo að fella fullnaðarúrskurð í öllum málum um gjaldskyldu til sjóðsins. Þetta er alveg nýmæli í löggjöfinni, því að til þessa hafa dómstólarnir úrskurðarvald um gjaldskyldu í öllum skattamálum, bæði ríkis og sveitarfjelaga, en ýmsar nefndir hafa oft æðsta úrskurðarvald um gjaldhæðina í vissum tilfellum. Skýrslur eiga að koma til þessarar skattanefndar Reykjavíkur frá skattanefndum hvers hrepps og hvers kauptúns, jafnskjótt og hver nefnd hefir lokið skattskýrslu sinni. Leiðrjettingar yfirskattanefndanna eiga ekki að koma til greina, og úr kaupstöðunum 6, utan Reykjavíkur, á engar skýrslur að senda. Þetta er nú tekið úr 2. gr. frv. einni saman, sem fjallar um skattgjaldið, og heyrir þessvegna sjerstaklega undir verksvið mitt, og skal jeg láta það nægja sem dæmi upp á fráganginn á frv. í heild.

Jeg kem ekki með neina uppástungu, af því að jeg á ekki sæti í þessari hv. deild. En hitt dreg jeg engar dulur á, að þá teldi jeg best farið, ef frv. þetta ætti sjer sem skemstan aldur.