19.03.1925
Efri deild: 34. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1179 í C-deild Alþingistíðinda. (3025)

83. mál, byggingar og landnámssjóður

Sigurður Eggerz:

Jeg skal ekki þreyta hv. deild með löngum ræðum. En jeg vildi skjóta fram þeirri athugasemd í sambandi við þetta frv., og annað svipað og af sömu rótum runnið, að þau eru fram komin vegna þess, hve menn finna sárt til þeirra vandkvæða, sem eru á því, að geta bygt í sveitunum.

Jeg vil vekja athygli á því, að hjer í Reykjavík og í öðrum kaupstöðum og í sveitunum er hvergi lánað fje til húsabygginga. Hjer er að vísu veðdeild til, en hvorugur bankinn lánar til slíkra fyrirtækja. Þetta er mjög alvarlegt atriði, og húsaleiga lækkar ekki fyr en hægt er að fá lán til bygginga.

Um veðdeildarlánin er það að segja, að þau eru ekki glæsileg, því „effectiv“ renta af þeim lánum til 20 ára er um 8%, eftir því sem brjefin seljast nú. Og þó að hægt sje að selja brjefin fyrir 80%, þá eru kjörin þó býsna óaðgengileg.

Jeg held, að leiðin út úr þessum ógöngum sje, að koma ríkisveðbankanum í framkvæmd. Að vísu má vel vera, að breyta þurfi lögunum. En aðalatriðið virðist vera það, að sveitirnar og bæirnir sameini sig um einn banka, svo að í honum verði sem mestur styrkur.

Má vel vera, að hægt væri að útvega brjefunum markað í London eða annarsstaðar. Og víst er að minsta kosti, að bankarnir hafa þar nú góð sambönd.

Lausn á þessu máli er svo gott verk, að það eitt mundi nægja til þess að halda nafni þessa þings á lofti.