19.03.1925
Efri deild: 34. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1180 í C-deild Alþingistíðinda. (3026)

83. mál, byggingar og landnámssjóður

Flm. (Jónas Jónsson):

Jeg þakka hv. 1. landsk. (SE) ummæli sin, þótt hann færi ekki út í einstök atriði þessa máls. Hann viðurkendi nauðsyn þess, að málið væri tekið til alvarlegrar meðferðar.

Jeg býst við, að hæstv. fjrh. (JÞ) líti ekki svo á. Sjón hans er lokuð fyrir þessari nauðsyn, og þessi blinda gengur svo langt, að hann hikar ekki við að mælast til þess, að hin eina alvarlega tilraun, sem gerð er á þessu þingi til að styðja nýræktarmálið, verði kæfð við fyrstu umræðu. Umbætur sýnast snerta viðkvæman streng í brjósti ráðherrans. Hæstv. fjrh. (JÞ) áleit, að nauðsynlegt væri að drepa frv. strax, til þess að greiðara gengi með eitt tiltölulega ómerkilegt stjfrv. í Nd.

Við þetta er margt að athuga. það stjfrv. er þannig úr garði gert, að þó að hæstv. fjrh. ætti fáeina skoðanabræður á búnaðarþinginu, gat enginn þeirra fylgt frv., nema ef til vill einn vandamaður hans, sem kann að hafa verið því fylgjandi í hjarta sínu. Hæstv. fjrh. getur ekki gengið þess dulinn, að Búnaðarfjelagið vildi einróma láta leggja annað frv. fyrir þingið, og fól það manni, sem í stjórnmálum er nákomnari mjer heldur en hæstv. fjrh. Og þó að stjfrv. væri ekki felt við 1. umr., var það ekki af því, að í því feldist neitt úrræði. Það er lítil sannleiksást í því, að líkja saman úrræðunum í þessu stjfrv. og frv. á þskj. 133. Stjfrv. er ekki annað en einskonar 5. eða 6. flokks veðdeild, ef telja á með tilraun hv. þm. V.-Sk. (JK) til að lífga veðdeildina í fyrra, og þessi 5. eða 6. fl. veðdeild gefur kost á lánum fyrir 61/2%, fyrir utan afborgun. Allir sjá, að hjer er lítið bjargræði á ferðinni. Hæstv. fjrh. hefir bygt mjög gott og vandað hús yfir sjálfan sig. Ef steypan endist svo sem menn vona, ætti húsið að verða í góðu gildi eftir 500 ár. Það, sem mitt frv. stefnir að, er einmitt það, að byggja varanlega yfir þúsundir af íslensku bændafólki, eins og hæstv. fjrh. hefir bygt yfir sig, en til þess að það sje kleift, verður að skifta kostnaðinum niður á langan tíma. Það getur kanske borið sig fyrir ráðherra að byggja með 61/2% vaxtakjörum. En það er ekki hægt að byggja vel yfir prestinn á Mælifelli eða Mosfelli eða Skútustöðum með þeim kjörum, og þá ekki heldur fyrir allan þorra efnaminni bænda. Á engum þessum stað ber jörðin þá vexti, sem stjfrv. gerir ráð fyrir, ef miðað er við vandaðan steinbæ.

Það er enginn skyldleiki milli míns frv. og frv. stjórnarinnar. Frv. stjórnarinnar er ofboð saklaust kák. Frv. Búnaðarfjelagsins, sem hv. þm. Str. ber fram, getur hjálpað bjargálnabændum við minniháttar framkvæmdir, sem eru þess eðlis, að þær gefa fljótt arð. En jeg held því fram, að ef byggja á hús í sveitum eftir nútímakröfum, þá sje það ekki hægt, nema með því að sökkva þar fjármagni, og ekki hægt að borga neina verulega vexti. Þannig fara líka að þeir efnamenn, sem nú byggja bæi í sveit. Þeir gefa eftirkomendunum mikið af höfuðstólnum og vöxtunum. Og ekki ætlast landið til, að búskapurinn á prestsetrunum, sem bygð eru fyrir almannafje, borgi vexti af höfuðstól þeim, sem þar er festur. Sú tillaga, að vísa málinu frá, af því að þetta stjfrv. sje komið fram í Nd., bendir á, að sá, sem slíkt leggur til, viti ekki, hve mikið alvörumál þetta er, eða þá, að hvatir ráða, sem hann vill ekki að komi í ljós.

Hvað stjfrv. snertir, þá er það svo grunntækt, að það hefði verið felt við 1. umr., ef menn hefðu ekki vitað um búnaðarþingsfrv. En það mun hafa verið litið svo á, að vel mætti sýna stjfrv. þá kurteisi, að lofa því að fljóta með og bæta síðan inn í það, því sem búnaðarþingið taldi aðalatriði.

Jeg skal þá taka ræðu hæstv. fjrh. lið fyrir lið. Fyrst mun jeg tala um fjárútvegunina, þá meðferð fjárins, þá fráganginn á stjfrv., og að lokum mun jeg nefna það úr fyrri ræðu minni, sem hæstv. fjrh. sá ekki ástæðu til að minnast á, af því að þar urðu fyrir honum örðugir þröskuldar, sem hann gat ekki stigið yfir.

Hæstv. fjrh. heldur því fram, að höfuðgallinn á frv. mínu sje sá, að ekki sje tekið tillit til árferðis. En jeg vil leyfa mjer að spyrja: Tók hæstv. fjrh. tillit til árferðis í landinu, þegar hann setti verðtollinn á í fyrra? Er yfirleitt tekið tillit til árferðis, þegar verið er að innheimta tollana? Jeg segi nei. Íslenska ríkið aflar tekna með tekjustofnum, sem hvíla jafnþungt á breiðum bökum og bognum og jafnt í hallæri sem góðæri. Er það þá ekki beinlínis ósvífni, að finna þessu frv. mínu það til foráttu, að ekki sje tekið tillit til árferðis? En fyrst ekki er tekið tillit til árferðis, þegar verið er að krefja bændur og verkamenn um tolla, hversvegna mega þá t. d. ekki sementskaupmenn í Reykjavík borga skatta til landsþarfa í erfiðum árum sem góðum? Efnamenn sleppa altaf vel í góðum árum, og þá safna þeir í sarpinn. En hjá þeim, sem altaf lifa á hungurtakmörkunum, eru aldrei nein góðæri.

Hæstv. fjrh. segir, að hjer sje lítið um geipigróða. En hvað sem því líður, þá virðist liggja í augum uppi, að þeir, sem hafa meira en 20 þús. kr. skattskyldar tekjur, geti borgað eitthvað meira en venjulega tolla. Jeg skal minna á verksmiðju eina, sem kend er við Krossanes og mjög fræg orðin, og sem mjer skilst að standi undir sjerstakri vernd hæstv. stjórnar. Þessa verksmiðju eiga útlendir menn, sem haft hafa stórfje af landsmönnum og yfirleitt grætt geypilega. Væri nú nokkur höfuðsynd í því, þó að t. d. Goos á Siglufirði og þessi Krossanesgoði borguðu dálítið ríflega til landsþarfa hjer, í því skyni, sem frv. mitt mælir fyrir um? Eftir því sem eitt togarafjelagið hefir látið gorta af í útlendum blöðum, þá skifti gróði þess hundruðum þúsunda s.l. ár, og það er einnig vitanlegt, að gróði einstakra manna hefir verið geysimikill. Væri það þá nokkurt rán, þó að þessir menn væru látnir greiða dálítið af gróða sínum til landsþarfa, ekki síst þar sem þessir menn þurfa ekki að borga ýkjamikinn tekjuskatt, af því að svo er um búið, að skatturinn hækkar ekki, þegar komið er yfir vist hámark. Hæstv. fjrh. hlýtur að sannfærast um það, að það er alt annað en að taka alt af öllum, þó að nokkuð sje tekið af gróða þessara stórríku manna. Einn af leiðandi mönnum í þessum hóp hefir jafnvel við hátíðlegt tækifæri boðið upp á þennan gróða, til þess að rækta landið. Hæstv. fjrh. segir, að tekju- og eignaskattur sje hjer ákaflega hár. En þetta er ósatt. Hjer eru jafnvel stóreignamenn og stórtekjumenn, sem engan skatt borga af eignum og tekjum. Mjer er kunnugt um einn mann, sem átti fjölda jarða og borgaði þó sama sem ekki neitt. Virðist það nokkuð ósanngjarnt, þegar bláfátækir launamenn verða að borga mörg hundruð krónur í tekjuskatt af þurftarlaunum. Nei, það er engin ástæða til þess að monta af tekjuskattslögum Íslendinga, því að þau eru næsta ófullkomin smiði. Samt er það eitt af áhugamálum hæstv. fjrh. (JÞ) að spilla þeim enn og svifta landið á þann hátt nú í ár a. m. k. hálfri miljón í vissum tekjum hjer í bænum. Með þessum lögum er haldið verndarhendi yfir hækkandi gróða, eins og hjá Goos og Krossanesverksmiðjunni.

Hæstv. fjrh. er þeim mun vorkunnsamari við sjálfan sig en Englendingar við sína efnamenn, að þeir lögðu 80% á stórgróða hjá sjer 1921–1922, til þess að borga stríðsskuldir. Hæstv. fjrh. segir, að tekju og eignarskattur hjer sje um 800 þús. kr. Það sýnir einmitt, að atvinnureksturinn hjer er að komast í það horf, að fjármagnið dregst á fárra manna hendur meir og meir. Enskir íhaldsmenn hafa ekki verið taldir neinir englar, og ef til vill á við þá lýsing sú, sem hæstv. fjrh. (JÞ) hefir fyr gefið á íhaldsmönnum yfirleitt, en þeir ganga ekki eins langt og hjer er gert. Jeg skal nota hjer tækifærið til þess að segja sögu af Baldwin forsætisráðherra Breta. Hann er mjög auðugur maður — græddi á stríðsárunum eins og margir aðrir. Kunningjar hans höfðu orð á því við hann, hversvegna hann setti miljón eftir miljón í ríkisskuldabrjef, ef England kynni svo að bíða ósigur. Þá svaraði hann: „Jeg hefi ekkert með fje mitt að gera, ef England bíður ósigur“. Sögu þessa hefi jeg eftir mjög áreiðanlegum íhaldsmanni hjer. Það er ljóst, að Baldwin hefir viljað hjálpa landi sínu með þessum mikla auði, og álitið hann sjer einskisvirði, ef landið biði lægra hlut. Þessi íslenski íhaldsmaður — og hann er áreiðanlega enginn bolsivíki — áleit rjett, að reynt væri að fá okkar nýríku menn til þess að kaupa ríkisskuldabrjef hjer, til þess að koma í veg fyrir, að þeir eyddu í vitleysu og óþarfa gróða sínum, eins og farið hefði með stríðsgróðann. Hann bjóst við, að þessi gróði færi sömu leið, ef íhaldsstjórnin bæri ekki gæfu til þess að frelsa hann frá glötun, vegna almennra hagsmuna.

Skoðun Baldwins er mjög eftirtektarverð. Hann skoðar sig í samábyrgð með öðrum þegnum, eins og lið í ríkisheildinni. Hvað hefði verið auðveldara fyrir hann en að laumast til Ameríku með gróða sinn? En honum dettur ekki í hug að stelast undan. Hann hefir víst ekki glæpamannsnáttúru, eins og hæstv. fjrh. (JÞ) dróttar að sínum flokksmönnum, þar sem hann segir, að ekki dugi að leggja á þá aukna skatta, því að þá muni þeir ljúga til um eignir sínar eða flýja með þær úr landi. Hæstv. fjrh. (JÞ) gerir ráð fyrir, að stóreignamennimir sjeu miklu verri en jeg hefi gert mjer í hugarlund. Hann gerir ráð fyrir, að þeir muni vilja svíkjast undan að bera byrðar landsins og sje gersamlega sama, hvernig fer um þjóðarheildina, og að þeir geti ekki hugsað til þess að láta neitt af hendi rakna til þess að byggja landið. Jeg skal játa, að þó jeg sje samþykkur lýsingu hæstv. fjrh. á íhaldsmönnum yfirleitt, eins og hann setti svo skýrt fram 1908, þá finst mjer núverandi álit hans á þessum mönnum varla vera á rökum bygt og þar kenna of mikillar svartsýni. Jeg skal benda á eitt dæmi. Það gerðist á fundi að Þjórsártúni 1922, þegar verið var að undirbúa landskjörið. Þangað fór íhaldsmaður hjeðan úr bænum, einn af stærstu útgerðarmönnunum, til þess að mæla með lista Jóns Magnússonar. Hann sagði þá, að þessi flokkur, núverandi stjórnarflokkur, vildi gera alt mögulegt til þess að styðja landbúnaðinn. Hann bandaði hendinni út yfir feitt landið umhverfis ræðustólinn, og sagði: „Við útgerðarmenn erum aflaklærnar. Frá okkur eiga að koma peningar til þess að rækta þetta land.“

Jeg er alveg samdóma þessum manni. Fyrir mjer vakir einmitt sú hugsun, að leggja skatt á breiðustu bökin í þessu skyni. Það er alveg ástæðulaust að vera að skrafa um eignarnám í þessu sambandi. Þó að þessari hálfu miljón væri jafnað niður á þá, sem best mega, væri það hlutfallslega ljettari baggi en þær 7 eða 8 milj., sem jafnað er niður á alla þjóðina, og að mestu leyti er borið sem nefskattur af efnalitlu fólki.

Jeg tel ummæli þessa útgerðarmanns, sem jeg nefndi, mjög heilbrigð og sanngjörn, og jeg býst við, að hæstv. forsrh. (JM) verði langminnugur þessara orða hans og byggi á þeim hugsunarhætti, sem hann hefir látið þennan mann túlka við bændur, þegar verið var að afla honum kjörfylgis. Út á þessi loforð hefir hann sjálfsagt fengið allmörg atkvæði, og vafalaust stendur hann við öll þau loforð, sem þarna voru gefin fyrir hans hönd.

Þá komst hæstv. fjrh. (JÞ) að eignarnámsgrýlunni. Það er annars líkt með skattamálin hjerna eins og Gröndal sagði, að verið hefði í Portúgal, að þar var stolið frá þeim, sem ekkert áttu. Þetta þótti fyndið, en má hjer til sanns vegar færast.

Það eru vísvitandi ósannindi hjá hæstv. fjrh. (JÞ), að engir nema jafnaðarmenn láti sjer detta í hug að leggja dálítið þyngri skatta á efnamanninn en fátæklinginn. Tekjuskattslöggjöf allra siðaðra landa gerir ráð fyrir, að ríku mennirnir beri miklu þyngri skatta en fátæklingar. Jafnvel hjer er að litlu leyti gert ráð fyrir þessu. Og þá verður að merkja sem bolsivika þá, sem hafa starfað að þessu, m. a. stjettarbróður hæstv. fjrh.,þann, sem kom í gegn frumdráttunum að núverandi tekju- og eignaskattslöggjöf 1921.

Einnig vil jeg benda hæstv. fjrh. á það, að samherjar hans í Borgarfirði, nokkrir helstu stórbændurnir — ekki Framsóknarmenn, heldur menn, sem að einhverju leyti hafa blandað blóði við hæstv. fjrh. og lagt fje í það viðurkenda flokksnafn — þeir sáu í fyrra engin ráð önnur til þess að borga ríkisskuldirnar en að innleiða einhverskonar eignarskatt. Það eru stólpar íhaldsins í Borgarfirði, sem kemur þetta í hug, og jeg býst við þeim þætti hart, að heita ræningjar fyrir það. En þeirra hugsun í þessa átt var þó djarfari en jeg hefi leyft mjer að fara fram á.

Þá var það dálítið skrítið hjá hæstv. ráðh., þegar hann talaði um tilraunirnar, sem gerðar voru nýlega á Englandi til að leggja skatt á höfuðstól, til þess að borga stríðskostnað. Þeir, sem stefnu þeirri fylgdu, fengu ekki meirihluta við kosningarnar — þær síðustu — og mynduðu stjórn með þeim „liberölu“, sem ekki höfðu þetta á stefnuskrá sinni. Þessvegna gat það umtal aldrei haft neina verklega þýðingu.

Hæstv. fjrh. (JÞ) reyndi að komast í kringum það, að sjálft íhaldið á England hefði lagt á geipilegan tekjuskatt á stríðsárunum, en hann hefir ekki treyst sjer til að bera beinlínis á móti því „konkreta“ dæmi hjer í hv. deild.

Þá leyfði hæstv. ráðh. (JÞ) sjer að halda því fram, að jeg fylgdi ekki mínum flokki, væri ekki Framsóknarmaður. Ætla jeg að benda hæstv. ráðh. á það, að það þykir auðsýnilega meira máli skifta, hvaða skoðanir jeg hefi — og það er heiður fyrir mig — heldur en þó hæstv. fjrh. hafi skift mikið um stjórnmálaskoðun síðan hann lýsti íhaldsmönnum sem heimskum og fáfróðum fjepúkum, blindum fyrir almannahag. Nú er hann að vísu orðinn formaður þessa flokks, er hann fyr hefir húðflett, og víst ánægður með stefnuna. En þó verður hann að láta slíkan dóm um sig og samherjana standa varanlegan í Lögrjettu. Nú hefi jeg boðið einum heldur liðtækum flokksmanni hans að skýra hin ímynduðu skoðanaskifti mín. En sá maður fann engar ástæður til, að jeg væri í ósamræmi við Framsóknarflokkinn. Annars er dálítið barnaleg þessi umhyggja Morgunblaðsmanna fyrir samheldni Framsóknarmanna. Óska þeir meiri samheldni frá okkar hálfu en þeir fá að kenna á daglega? Hafa þeir ekki árum saman fundið okkur þingmenn flokksins einhuga í sókn og vörn, þingflokkinn, kjósendur okkar út um land og blöð flokksins? Finst stjórnarflokknum þetta frv., sem hjer liggur fyrir, benda á, að jeg sje deigur að beitast fyrir málstað bændanna? Hefir nokkurntíma komið hjer á þingi frv., sem fremur en þetta stefndi að því að auka og efla bændaveldið í landinu og sveitamenninguna?

Það er ef til vill rjettast, að jeg minnist á útsvörin um leið. Hæstv. ráðh. gerði mikið veður út af því, að útsvör hjer á landi væri þung, einkum í Reykjavík. Jeg vildi óska, að hæstv. ráðh. vildi kynna sjer, hvernig útsvörin eru í Bergen, Þrándheimi, Kristjaníu og nokkrum öðrum myndarbæjum hjá frændum okkar, Norðmönnum. Það eru lög þar í landi, að útsvör megi ekki vera hærri en 20% tekna, nema með sjerstöku leyfi yfirvalda. Hafa þeir oft orðið að grípa til að leggja hærra á. Ef hæstv. ráðh. athugar útsvörin í Reykjavík, þar sem þau eru líklega langþyngst hjer á landi, mun hann komast að raun um, að þau eru stórum ljettari en í Noregi, oft meir en helmingi ljettari. Það er áreiðanlega hægt að jafna þessum litla skatti, sem frv. gerir ráð fyrir, á okkur Íslendinga, án þess að ganga eins hart að og frændur okkar Norðmenn verða að gera, einungis vegna sinna daglegu útgjalda. Þó er rjett að geta þess, að Reykjavík hefir haft ýmsa dýra bagga. Skal jeg aðeins lauslega nefna tvo, gasstöðina á sinni tíð, og sjerstaklega rafveituna. Af því hæstv. ráðh. hefir haft nokkuð mikil afskifti af fyrirtækjum þessum, þá mun hann máske ekki verða eins kröfuharður um mannlegan fullkomleika, þegar hann athugar, hvað þessar byrðar þýða fyrir bæjarbúa, og hvað þær hækka útsvörin.

Þá kem jeg að 2. lið ræðunnar, eftir að hæstv. ráðh. (JÞ) er búinn að sýna í löngu máli, að hann hefir enga samúð með því, sem hjer um ræðir; því annars væri hann ekki að bjóða upp á fánýta 6. flokks veðdeild sem úrræði til að endurbyggja sveitabæi og rækta tún. Jafnframt gerði hann þá yfirlýsingu, að hann hefði enga trú á stofnun nýbýla í sveitum, hjer á landi. Hvað segir hann þá um Reykjahlíð og Voga? Þar hafa verið stofnuð 5 nýbýli á síðustu 10–15 árum, teknar 2 einbýlisjarðir og bættar svo, að þar lifa nú 7 fjölskyldur. Í Mývatnssveit er bær, sem heitir Álftagerði, ein af minni jörðum þar. Hafa verið teknir partar af þeirri jörð handa 4 öðrum jörðum, og þar að auki 3 bændur á jörðinni sjálfri. Þetta eru alt nýbýli, eins og fyrir mjer vakir, fjölgun heimilanna, með aukinni jarðrækt og auknum búpeningi. Jeg veit, að hæstv. fjrh. hefir sjeð, að fyrir mjer er það ekki aðalatriðið, að hugsa fyrst og fremst um nýbýli í venjulegum skilningi, enda beint tekið fram í frv. Jeg geri ráð fyrir, að fjölga heimilum, á þann hátt, sem jeg hefi lýst og sjerstaklega hefir verið gert mikið að í Mývatnssveit, með því að kljúfa jarðir í fleiri býli, þegar eignin skiftist með erfðum. Þar standa ungu mennirnir á því stigi, að þeir vilja ekki verða galeiðuþrælar hjá „grósserunum“ í Reykjavík. Máske hefir þessvegna verið svo mikil mótstaða gegn því, að byggja alþýðuskólann í Þingeyjarsýslu af hálfu Íhaldsflokksins, eins og raun ber vitni, að hún sje ekki vinsæl í stjórnarflokknum, tilfinningin, sem kom Mývetningum til þess að rækta betur jarðir sínar og reyna að láta sjer líða vel án þess að flýja burt.

Hæstv. ráðherra játaði, að skifting jarða gæti komið til greina með erfðum. Það stendur heima við mína hugmynd. En mjög víða stendur svo á, að það vantar höfuðstól með aðgengilegum kjörum til þess að skapast geti ný heimili og ræktun aukist, enda þótt fleiri börn erfi jörð saman og vilji vera þar áfram. Nýlega kom til mín maður úr Dalasýslu, sonur aldraðs bónda á einhverri stærstu jörð sýslunnar. Faðir hans hefir átt og alið upp 12 börn. Jeg spurði hann, hvort ekki tæki fleiri en eitt systkinanna við jörðinni. Svaraði hann neitandi; „því við höfum ekki efni á,“ sagði ungi maðurinn, „að koma í framkvæmd þeim mannvirkjum, sem þarf, til þess að fleiri fjölskyldur geti lifað á jörðinni.“ Líklega mundi og enginn maður taka lán til þess, þegar vextir eru 6 og 61/2%.

Þá fanst hæstv. ráðh. það uppbyggilegt, að snúa út úr orðum mínum um nýræktina og fjölgun býla. Hversvegna gerir hann ekki eitthvað til þess að hindra það, að þessir 664 berklasjúklingar skifti einni milj. króna á milli sín? Ástæðan hjer er hin sama og um niðurníddu jarðirnar. Hafa menn ekki fengið berklaveikina fyrir ástand landsins og ekki síst húsakynni? Fyrir hvað eru býlin niðurnídd? Ósvífni væri að segja það, að öll niðurníðsla væri fyrir ódugnað. Mundi vera hægt að kalla það vansæmd fyrir t. d. einn smábónda í Rangárvallasýslu, sem hefir búið á litlu koti, þó að hann hafi ekki bygt upp bæinn sinn samhliða því að ala upp 12 syni til að skapa stórgróða á togurum í Reykjavík? Þeir um það, sem kasta steini á slíka menn.

Jeg hefði nógu gaman af, ef hæstv. ráðh. hefði gert grein fyrir því ágæta brjefi, sem hann sendi út í hvern hrepp á landinu í vetur, þar sem hann bannar bændum, í nafni fjármálavisku sinnar, að leggja út í nýjar framkvæmdir, svo sem girðingar og þessháttar, af því fje vantaði. En hvar var sá góði maður, þegar tíu togararnir voru keyptir? Gat hann þá ekki gefið út bráðabirgðabann móti þessum framkvæmdum í bænum? Í þessari hegðun hæstv. fjrh. er fólgin ákveðin lífsskoðun hans, fjandsamleg anda frv., sem hjer er til umræðu, sú, að sveitirnar megi visna, en útgerðin kaupstaðanna eigi að dafna. Ennfremur er verið að svíkja það loforð, sem einn samherji hæstv. ráðh. í Íhaldsflokknum hefir gefið 1922 við Þjórsárbrú, sem sje, að gróðinn af útveginum eigi að ganga til að rækta landið. Því að jeg býst ekki við, að það hjálpi mikið bændum út um land, þó ein eða fleiri „aflaklær“ hjer rækti tún kringum bæinn fyrir sjálfa sig. Atkvæðasmölunin við Þjórsárbrú mun líklega hafa staðið í sambandi við þesskonar ræktun.

Út af sínum hugleiðingum um niðurníðsluna kom hæstv. ráðh. að því, að vonin um hjálp mundi draga dáð úr mönnum í búskapnum. Eftir sömu hugsunarfræði mundu menn keppast eftir að fá berkla, til þess að verða aðnjótandi þeirrar ánægju að liggja á spítala fyrir 3 kr. á dag á ríkiskostnað. Þetta tvent er hliðstætt, þar sem sú hjálp, sem hjer er um að ræða, er hliðstæð við berklaveikilögin, nema gengur dýpra og nær meininu.

Jeg hygg það hafi verið miður heppilegt, þegar hæstv. fjrh. vildi leggja niður sögukenslu við háskólann í fyrra, Mjer virðist söguþekking hans og skilningur þess eðlis, að maður verði að álíta, að einn sagnfræðingur á Íslandi hefði nægilegt verkefni ennþá, a. m. k. við að fræða Morgunblaðsmenn. Söguþekking hæstv. fjrh. sýnist vera allmjög niðurnídd, eins og sum kotin út um landið. Hann heldur því fram, að hnignun Rómaveldis standi í engu sambandi við eyðing sveitanna á Ítalíu. Jeg bendi hæstv. ráðh. á að lesa það, sem Mommsen, hinn mikli þýski sagnfræðingur, sem ritað hefir sögu Rómaveldis, segir um þetta. Mommsen þekti áreiðanlega betur orsakirnar til hnignunar Rómaveldis heldur en hæstv. ráðh. (JÞ). Og jeg býst við, að hæstv. ráðh. mundi finna, að hann er nær minni skoðun en hans. Hæstv. ráðh. sagði, að „broddarnir“ í Róm, sem keyptu atkvæði fáætklinga — eins og enn er gert á voru landi af sömu stjettum — og komu sjer þannig til valda, þeir hefðu eyðilagt fólkið með gjöfum. Hann hefir endaskifti á orsök og afleiðing. Það veit hvert skólabarn, að hershöfðingjarnir rómversku, sem unnu marga sigra víðsvegar um lönd, komu með fjölda þræla heim með sjer. Þennan ódýra vinnukraft settu þeir svo á jarðirnar út í sveitinni, sem komnar voru úr sjálfsábúð, aðallega vegna herskyldunnar. Smábændur, sem höfðu verið uppistaðan í Rómaveldi á tíð Hannibals, áttu að búa við langa herskyldu, eins og Íhaldið er að stofna til hjer. Meðan bændurnir unnu fyrir föðurlandið í endalausum herferðum, hírðist konan og krakkarnir heima við illa líðan, þar sem enginn var þeim til forsjár. Þá varð að taka lán hjá „grósserum“ í Róm. Þegar bændurnir komu heim úr hernum, var búið að ganga að jörðum þeirra, og þrælarnir, þessi ódýri vinnukraftur, sigruðu fangarnir úr fjarlægum löndum, sem rómversku bændurnir höfðu handsamað fyrir yfirstjett lands síns, komu í staðinn. Leifar bændafólksins, sem flæmt var af jörðum sínum af efnamönnum síns lands, fór til Róm og átti ekkert fyrir sig að leggja nema atkvæðisrjettinn; og hæstv. ráðh. sagði þar satt, að þá voru atkvæði seld. Fólkið fjekk brauð, og það fjekk leikhús. Menn segja reyndar, að þegar broddborgararnir í Róm hjeldu veislu eftir unnar kosningar, þá var veitt vín og fleira góðgæti, alveg eins og íhaldið gerir hjer eftir kosningasigra sína. En íhaldsforkólfarnir rómversku virtu ekki háttv. kjósendur meir en það, að þeir settu þjóna sína til að gæta þess, að fátæku gestirnir, sem búið var að flæma úr sveitunum og gera að betlurum í höfuðborginni, færu ekki með silfurborðbúnað í vösunum til endurminningar um veislufögnuðinn. Þetta er sýnishorn af því þakklæti, sem kjósendur fengu hjá burgeisunum þar. Það var íhaldsstjett Rómaveldis, sem eyðilagði sveitirnar og gerði bændafólkið að skríl og atkvæðafjenaði við kosningar.

Þá kem jeg að því, sem á víst að vera höfuðröksemd Íhaldsflokksins í þessu efni, ef maður dregur ályktun af orðum formanns flokksins og af því ágæta blaði, sem Berlémee stórkaupmaður af náð sinni lánar Íhaldsflokknum til þess að fræða kjósendur um, hvað sje rjett og hvað rangt í pólitík þessa lands.