19.03.1925
Efri deild: 34. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1201 í C-deild Alþingistíðinda. (3027)

83. mál, byggingar og landnámssjóður

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg sje það, úr því að hæstv. forseti stöðvar ekki umræðurnar, að jeg muni eiga að vera stuttorður, enda get jeg það ofurvel, því að í ræðu háttv. flm. kom ekkert nýtt fram. Þarf jeg því litlu við að bæta.

Út af því, sem háttv. 1. landsk. (SE) sagði, skal jeg viðurkenna, að eitt af mestu vandamálum þessara ára er, hvernig sjeð verði fyrir hæfilega ódýru lánsfje til húsabóta í sveitum og kauptúnum. En þeir erfiðleikar eiga ekki rót sína að rekja til okkar þjóðfjelags. Þeir eru afleiðing af hinni miklu vaxtahækkun í heiminum.

Það hefir verið bent á, að taka mætti lán í London. Það var gert í fyrra, en síðan hafa vextir hækkað svo, að það er ekki aðgengilegt nú. En sjálfsagt verður þetta athugað eins og hægt er, og tillögur til þess að reyna að ráða bót á þessu máli liggja nú fyrir neðri deild í Ræktunarsjóðsfrv. því, sem stjórnin lagði fyrir hana.

Háttv. 5. landsk. (JJ) hefir verið að jafna þessum styrk til bænda saman við ábyrgðina, sem ríkisstjórninni var heimilað að taka á sig fyrir togarafjelögin 1921. En þetta tvent er ekki sambærilegt. Hjer er um að ræða skattálagningu, sem gerð er að skýlausri skyldu. En hitt var aðeins ábyrgðarheimild, sem með engu móti gat kostað þjóðfjelagið neitt, því að hana mátti því aðeins nota, að full trygging væri fyrir hendi. Enda hefir þessi heimild ekki verið notuð, svo að tjón hafi af hlotist.

Þá var háttv. þm. að vitna í hinn háa tekjuskatt í Englandi 1920. En í sambandi við það ber þess að gæta, að tekjuskattslöggjöfin þar er alt öðruvísi en hjer. Fyrst og fremst er frádrátturinn annar, og auk þess er skatturinn ekki stighækkandi og því sameiginlegur fyrir allar tekjur. Var skattur þessi upphaflega hækkaður mjög vegna afleiðinga stríðsins, og átti það að vera tækifærislöggjöf, sem standa átti skamma stund. Ef hjer væri um slíkt að tala, eða t. d. beðið um —1 miljón í eitt skifti fyrir öll, þá mætti vel vera, að mál þetta væri athugunar vert. En þessu fer fjarri. Hjer er um að ræða nýjan, fastan skatt í viðbót við þá, sem eru fyrir, það eina þesskonar gjald, sem er ætlast til, að innheimt sje jafnt, hvernig sem árferði er. (JJ: En tollarnir?) Já, tollarnir eru líka minni, þegar vont árferði er.

Þá hefi jeg ástæðu til að vísa aftur til föðurhúsanna þeim aðdróttunum háttv. þm., að jeg vildi ekkert sinna málefnum sveitanna og hefði engan áhuga fyrir þeim. Jeg er nefnilega ekki svo gerður, að jeg geti við hvert einasta tækifæri verið að hljóða upp með áhuga minn á hverju máli, eins og þessum háttv. þm. vill verða svo oft á. En jeg hefi áður á þessu þingi lýst afstöðu minni til málefna sveitanna, og sje ekki, að neinn sje bættari með því, að jeg fari að endurtaka það hjer, sem jeg hefi um það sagt áður.

Jeg sagði í fyrstu ræðu minni, að jeg hefði ekki getað varist þeirri hugsun, að frv. þetta væri borið fram til höfuðs frv. um Ræktunarsjóð Íslands, en að jeg hefði ekki fundið ástæður fyrir þeim grun mínum í fyrstu ræðu flm. En eftir aðra ræðu hans sje jeg, að rjett hefir verið til getið hjá mjer í fyrstu. Hv. flm. telur nú, að það sje einkum vaxtaspursmálið, sem sje óhæft og beinst er að með þessu frv. Því er haldið fast fram, að sveitabúskapur þoli ekki 6–61/2% vexti, sem eru þeir lægstu vextir, sem nú er um að ræða. Og ef ekki er til neins að bjóða mönnum lán með þeim vöxtum, þá verður spurningin ekki leyst með þeim lögum, það skal jeg játa. En hvað sem áhuganum í þessu máli líður, sem jeg býst við að sje þó nokkur hjá okkur báðum, hv. flm. (JJ) og mjer, þá er þó trú mín á sveitabúskapinn það meiri, að jeg er sannfærður um, að hann þolir þessa vexti. (JJ: Er hægt að byggja steinhús í sveitum fyrir lánsfje með 6–7% vöxtum?) Það er hægt, og það hefir verið gert. En hitt er satt, að það er óhagstætt að taka lán til framkvæmda, þegar verðlag er jafnhátt og nú. Endurgreiðsla hlýtur að verða erfið með lækkandi verði. Menn verða náttúrlega að gæta þess, að reisa sjer ekki hurðarás um öxl og fara sjer varlega í lántökum. En það er langt á milli slíkrar gætni og þess, að kveina eftir sveitarstyrk, svo sem hjer er gert í þessu frv.

Hv. flm. (JJ) gerði að umtalsefni umburðarbrjef fjármálaráðnuneytisins, er sent var út, eftir till. gengisnefndar. Það var ekki varað við öðrum framkvæmdum en þeim, sem hefðu lántöku í för með sjer, og hinsvegar lagt til, að menn reyndu að greiða sem mest af skuldum sínum. Og hver sem skilur ástand tímanna veit, að þetta var rjett stefna á gróðaárinu 1924.

Um sögu Rómverja skal jeg vera fáorður. En jeg vil minna þennan sögufróða þm. (JJ) á það, að um nokkrar aldir fram eftir keisaratímanum var mikið um bændur og búalið, sem sátu vel sín býli og ræktuðu þau forkunnarvel. Og það var ekki þaðan, sem hnignun ríkisins kom. En þegar hin pólitísku völd komu í hendur þeirra manna, sem þóttust þurfa að gefa kjósendum gjafir frá sjer eða öðrum, og raunar af almannafje, því ríkið borgaði, þá var komið inn á sömu braut og hjer er verið að feta inn á í þessu kapphlaupi um að bjóða kjósendum sem mest fríðindi úr annara vösum. (JJ: Hefir hæstv. fjrh. lesið Mommsen?) Jeg hefi lesið sögur eftir hv. flm. (JJ). En mjer þykir ekki þörf að geta heimilda, er jeg fer rjett með, svo ekki verður á móti mælt.

Þá mótmælti hv. flm. (JJ) því mjög, að þessu frv. væri samfara skerðing á eignarrjettinum, en viðurkendi samt í sömu andránni, að það ætti að vinna á móti verðhækkun á þeirri eign, sem lán væri lagt í, en sagði, að ef maðurinn yrði að sleppa eigninni, vegna þess að hann gæti ekki staðið í skilum, þá ætlaðist hann til þess, að hann fengi það, sem hann hefði í eignina lagt. Nú vil jeg biðja þennan hv. þm. (JJ) að athuga það, hvernig það tæki sig út, ef slík löggjöf sem þessi hefði verið hjer síðastliðinn áratug, og maður hefði lagt t. d. 1 þús. kr. í eign nokkra á fyrra hluta þessa tímabils, auk vinnu sinnar og skylduliðs síns. Svo koma kreppuárin. 1923 getur hann svo ekki staðið í skilum, og 1925 á að bera hann út. Nú hafa allar eignir í kring hækkað í verði, vegna þess að peningar hafa lækkað niður í 1/3 að kaupmagni. En þessi maður á að ganga slyppur frá sínu, og fá aðeins þá krónutölu, sem hann hefir í eignina lagt. Er það ekki hart gagnvart þessum manni, að svifta hann, að ríkisráðstöfun, þó eftir mati sje, möguleikunum að komast úr fjárkröggum með því að selja eign sína því verði, sem aðrir vilja bjóða. (JJ: Hann má bara ekki „spekúlera“ með eignina.) Þetta er engin „spekulation.“ Það geta legið ýmsar ástæður til þess, að einhver maður sjái sjer fært að gefa fyrir eignina hærra verð, af því að hann hafi hennar þörf, og það er fásinna að kalla slíkt „spekulations“-verð. Þetta er að taka rjett af manninum, og skal jeg ekki rífast við hv. flm., hvort þetta sje skerðing eða svifting á eignarrjetti eða ekki. Það má einu gilda, hvað slíkt er kallað, ef farið er með manninn eins og sveitarlim. Sveitastyrksmarkið er sett á hann. (JJ: Eru þá allir sveitarlimir, sem ekki „spekúlera“?) Svo óviturlega þarf hv. þm. (JJ) ekki að spyrja.

Hv. flm. (JJ) sagði hjer þau hnittiyrði um bændabankana, að þeir væru annaðhvort óstofnaðir eða tómir. Þetta er satt. En úr því verður ekki bætt með þessu frv. Þetta verður áreiðanlega einn af óstofnuðu bönkunum.

Þá fetti hv. þm. (JJ) fingur út í það, er jeg sagði, að enginn dugnaðarmaður mundi sætta sig við þau kjör, sem hjer eru boðin, og dró af því þá ályktun, að það mundi enginn gera. En það er nú svo, að til kunna að vera menn, sem verði þessu fegnir, og skal jeg að því leyti leiðrjetta orð mín. Og vera má, að til sje þeir dugnaðarmenn, sem vilji brjóta svo mannlund sína að þiggja þennan styrk, sem frv. býður, fremur en þola aðrar afleiðingar af fátækt sinni. Þetta getur verið. En það er ekki velgerningur við slíka menn, að rjetta þeim hjálparhönd á þennan hátt. Það er bæði geðfeldara og heillavænlegra, að það sje gert með öðru móti.

Þá mátti skilja á orðum hv. flm. (JJ), að með skattanefnd Reykjavíkur væri meint niðurjöfnunarnefnd. En það nær vitanlega engri átt, að fela þeirri nefnd niðurjöfnun skatts um alt land. Hún er auðvitað ekki kosin með það fyrir augum.

Jeg mun svo ekki fjölyrða meira um þetta mál, þótt enn mætti svara mörgu í hinni löngu ræðu hv. flm. En jeg vil enda mál mitt með þeirri ósk og von, að hv. þm. (JJ) vilji taka föstum og alvarlegum tökum á því að hrinda á stað möguleikum fyrir ræktun landsins og húsabótum í bygðum þessa lands. En frekari umræður um það mál læt jeg bíða, þangað til frv. um Ræktunarsjóð Íslands kemur til umr. í þessari háttv. deild.