26.03.1925
Efri deild: 39. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1207 í C-deild Alþingistíðinda. (3031)

105. mál, skattur af húsum og lóðum í Siglufjarðarkaupstað

Flm. (Einar Árnason):

Að frv. þetta er svona seint fram komið, stafar af því, að jeg fjekk ekki fyr en nú fyrir nokkrum dögum tilmæli frá bæjarstjórn Siglufjarðarkaupstaðar um að flytja það.

Í ástæðunum fyrir frv. þessu er gerð grein fyrir, hvernig á því stendur, að það er flutt. En hún er sú, að Siglufjarðarkaupstaður hefir bundið sjer allþungan fjárhagslegan bagga með byggingu sjóvarnargarðsins. Bærinn er þegar búinn að taka 30 þús. króna lán til þess að standa straum af þessum kostnaði, og mun á þessu ári verða að taka í viðbót 20–25 þús. kr. lán, og hefir þegar fengið loforð fyrir töluverðu af því fje.

Frv. er samið af bæjarstjórn Siglufjarðarkaupstaðar. En jeg hefi aðeins bætt við það 4. gr., vegna ákvæða 2. gr. um það, að skattinn megi innheimta í fyrsta skifti á manntalsþingi 1925.

Í 1. gr. er ákveðið, að skatturinn af lóðum, sem liggja að sjó, skuli vera 6%0 af virðingarverði, samkvæmt fasteignamati, og af húsum á þeim lóðum 3%0. Þá er í 3. lið þessarar greinar bæjarstjórninni heimilað að leggja helmingi lægri skatta á aðrar fasteignir í kaupstaðnum. Mun tilætlunin að nota þennan lægri skatt því að eins, að hinn skatturinn hrökkvi ekki til afborgunar og vaxta af lánum þeim, sem þarf að taka til byggingar og viðhalds garðinum.

Þess skal getið, að allar lóðir útlendinga falla undir hærri skattinn, því að þeir hafa náð yfirráðum yfir flestum lóðunum, sem liggja að höfninni, og hafa fengið þær margar leigðar fyrir mjög lítið gjald.

Jeg get nú ekki búist við, að frv. þetta sæti miklum andmælum, því að það er ekkert nýtt, að nokkrum hluta af bæjargjöldunum sje jafnað niður með svona skatti. Og má þar til nefna, að Akureyri fjekk 1921 lög um allmiklu hærri skatt af lóðum til bæjarsjóðs. Samskonar lög hefir Húsavík fengið líka. Þó nú frv. þetta mæti engri mótspyrnu, tel jeg eigi að síður sjálfsagt, að það gangi til nefndar, og þá allshn. En til þess vil jeg mælast við háttv. nefnd, að hún afgreiði það sem fyrst, því að mikil nauðsyn er á, að það verði afgreitt á þessu þingi.