17.02.1925
Efri deild: 8. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1209 í C-deild Alþingistíðinda. (3035)

26. mál, Landsbanki Íslands

Fjármálaráðherra (JÞ):

Í athugasemdum við þetta frv. er gerð grein fyrir því, hversvegna eigi hefir þótt fært að draga lengur að ákveða með lögum, hvernig seðlaútgáfu Landsbankans skuli vera háttað framvegis. Seðlaútgáfa sú, sem nú síðast að undanförnu hefir átt sjer stað af bankans hendi, er aðeins bráðabirgðaráðstöfun og ófullnægjandi löggjöf um hana, en hún byggist á heimild í lögum nr. 7, frá 4. maí 1922, þar sem ákveðið er, að ríkisstjórnin hlutist til um, að Landsbankinn setji seðla í umferð, eftir því sem inndrætti Íslandsbankaseðlanna miðaði áfram og gjaldmiðilsþörfin krefur. En eftir því sem inndrætti Íslandsbankaseðlanna miðar áfram, má búast við, að þessi bráðabirgða seðlaútgáfa muni halda áfram að aukast.

Á síðasta þingi lágu fyrir 2 frv., sem bæði miðuðu að endanlegri úrlausn á þessu máli. Annað frv. var borið fram af fjhn. þessarar þingdeildar, samkv. beiðni þáverandi stjórnar, en hitt bar fram hv. 2. þm. G.-K. (BK). Í þessum tveimur frv. fólust tvær úrlausnir þessa máls, og þær einu úrlausnir, sem um virðist vera að velja, úr því að löggjafarvaldið eitt sinn er búið að fastákveða, að Íslandsbanki skuli eigi halda áfram að vera seðlabanki framvegis, þegar leyfistími hans er útrunninn. Núverandi stjórn hefir einnig litið svo á sem ekki sje nema um þessar tvær leiðir að ræða — leiðir, sem Alþingi eru þegar kunnar. Það hefir orðið niðurstaðan hjá núverandi stjórn, að haldið skuli inn á þá braut í aðalatriðunum, sem frv. fjhn. í fyrra benti til. Að þessu ráði hefir nú verið horfið eftir ítarlega rannsókn, sem best verður skýrð með skjölum þeim, sem um getur í aths. við þetta frv., og sú nefnd fær til athugunar, sem þessu frv. mun verða vísað til.

Stjórninni er það vel ljóst, að ýmsir annmarkar eru á því, að gera Landsbankann að seðlabanka ríkisins — annmarkar, sem mestmegnis stafa af því, að farið er fram á að breyta banka, sem ekki hefir verið seðlabanki undanfarið, í seðlabanka. En eðlilegast verður það þó, að sá banki í ríkinu, sem mestmegnis eða eingöngu er ríkiseign, verði aðalseðlabankinn. Vonandi tekst Alþingi með heppilegri lagasetningu að stýra svo fram hjá umræddum annmörkum, að þeir hverfi smámsaman. Starfsemi Landsbankans hefir að undanförnu verið á öðrum brautum en venjulega tíðkast um seðlabanka, en það má vonast til, að þetta breytist í framtíðinni, með breyttu verkefni muni starfsemi bankans beinast í þá átt, sem á að vera og eðlilegast er um seðlabanka.

Stjórnin vill því nú þegar láta bankann leggja inn á þá rjettu braut og láta eigi miklast í augum þá erfiðleika, sem á þessu virðast vera — erfiðleika, sem vonandi verða aðeins um stundarsakir.

Hin leiðin, sem um var að ræða — að koma upp sjerstakri ríkisstofnun til seðlaútgáfunnar — sneiðir að vísu fram hjá þeim annmörkum, sem fundust á því að breyta Landsbankanum í seðlabanka, en hefir sjálf ýmsa aðra galla. Það eru annmarkar, sem leiðir af því, að við erum svo smáir efnalega, að naumast verður hægt að vænta þess, að sú seðlaútgáfustofnun geti starfað sem reglulegur þjóðbanki eða haft á hendi öll þau viðskifti, sem slíkum bönkum er ætlað að hafa, t. d. viðskifti við erlenda banka með söfnun erlendra inneigna í góðæri o. s. frv. Öll þessi vandkvæði stafa af því, að við erum svo smáir efnalega, að það verður ekki hjá því komist, að sameina í einni stofnun ýmsa þá starfsemi, sem eigi er tíska að erlendir þjóðbankar hafi á hendi.

Þetta frv. er nokkuð breytt frá því, sem það var í fyrra, er það lá fyrir síðasta þingi. Nú eru tekin upp nánari ákvæði um störf þau, sem bankinn hefir að annast sjerstaklega sem seðlabanki og þjóðbanki. Það mun alstaðar vera viðurkent, að aðalverkefni seðlabanka sje að halda gjaldeyri ríkisins í fullu og stöðugu verði móts við gull. Það verður því að líta eftir því, að lögin sjeu þannig úr garði gerð, að bankinn hafi í þeim aðhald til þess að sinna sínu aðalverkefni, fremur en einhverjum annarlegum störfum. Hin sjálfsagða afleiðing þessa verður sú, að atvinnuvegirnir geta eigi vænst á sama hátt stuðnings frá bankanum og áður, ef hann rækir vel sitt aðalhlutverk, að halda uppi verði gjaldmiðils ríkisins.

Atvinnuvegirnir verða því eftirleiðis meira að vera komnir upp á aðstoð og styrk frá öðrum peningastofnunum í ríkinu á venjulegum tímum.

Jeg sje svo ekki ástæðu til þess að lengja ræðu um þetta mál að sinni; umræður um það munu bera meiri árangur, er málið kemur úr nefnd. Geri jeg svo að till. minni, að þessu frv. verði, að aflokinni þessari umr., vísað til fjhn.