25.04.1925
Efri deild: 60. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1230 í C-deild Alþingistíðinda. (3038)

26. mál, Landsbanki Íslands

Fjármálaráðherra (JÞ):

Þegar nú á að taka ákvörðun um þetta frv., þá verða menn fyrst og fremst að gera sjer það ljóst, hvort Alþingi eigi að sinna því eitthvað meira en hv. fjhn. þessarar deildar hefir gert, eða vísa því þegar frá að öðrum kosti. Menn verða þá náttúrlega að gera sjer ljóst, hvort frv. það, sem hjer liggur fyrir, leiði inn á rjetta eða a. m. k. forsvaranlega braut um seðlaútgáfuna, m. ö o., hvort rjett sje að gera Landsbankann að seðlabanka, eins og frv. fer fram á. Ef mönnum sýnist sú stefna rjett, þá tel jeg sjálfsagt að taka frv. til efnismeðferðar. Þá kemur auðvitað til greina, að hve miklu leyti beri að breyta einstökum gr. frv., og verða atkvæði að skera úr því. En því aðeins er rjett að vísa málinu frá, að menn álíti, að fara beri aðra leið í málinu en þá, að gera Landsbankann að seðlabanka. Til þess að skýra þetta, tel jeg að ræða beri einkum um þetta meginatriði frv.

Í fyrsta lagi verður þá að líta á það, hvert sje og verði að vera aðalverkefni seðlabankans hjer á landi á næstu árum. En kringumstæðurnar eru nú svo erfiðar, og það verk, sem bíður slíks banka á næstu árum, svo örðugt, að þeirri stofnun, sem getur tekið það að sjer, verður ekki um það neitað, að hún sje fær um að vera seðlabanki fyrir landið. Gengi peninga vorra er komið á ringulreið, og við búum nú við óinnleysanlega seðla, sem eru langt fyrir neðan gullgengi. Og hvað sem líður skoðunum manna um úrlausn gengismálsins, þá mun öllum koma saman um, að nauðsynlegt sje að halda genginu stöðugu, eða hækka það upp í það mark, sem þjóðin óskar. Þetta verkefni hlýtur að hvíla fyrst og fremst á seðlabankanum, og hlýtur hann að rækja það aðallega með tvennu móti. Í fyrsta lagi með því að safna sjer innieign utanlands, þegar afkoma atvinnuveganna leyfir það, að lagt sje fyrir erlendis nokkuð af þeim arði, er þeir hafa gefið, til þess að hægt sje að miðla þar af í þeim árum, er að kreppir og atvinnuvegirnir geta ekki staðist, án þess að fá nýtt fjármagn. Og þetta nýja fjármagn verður þá fyrst og fremst þessi erlenda innieign. En þjóðbankinn verður líka að hafa aðstöðu til þess að geta útvegað lánsfje til viðbótar, ef innieignin frá góðu árunum nægir ekki. Nú er það kostnaðarsamt að eiga mikla handbæra innieign í erlendum bönkum, því þeir gefa miklu lægri vexti en hjer eru greiddir af sparisjóðsinnstæðu. Það er því auðsjáanlegt, að ekki er hægt að heimta slíkt af stofnun, sem ekki hefir annað fje til umráða en lánsfje, sem hún verður að greiða af hærri vexti en af sparisjóðsfje, og auk þess sparisjóðsfje og fje á hlaupareikningi. það er næsta takmarkað, hvað heimta má af slíkri stofnun að hún safni innieignum erlendis á góðu árunum. Það sýnist vera eðlilegt, að seðlabankinn beri þessa þjóðfjelagsbyrði, enda má segja, að svo sje nú. Íslandsbanki hefir reynt að safna sjer nokkurri innieign erlendis árið sem leið, og Landsbankinn líka, en báðir hafa þeir nú sem stendur nokkum seðlaútgáfurjett. En eftir 2–3 ár er svo til ætlast, að Íslandsbanki hafi dregið inn mikið af sínum seðlum, svo það verða ekki með rjettu gerðar miklar kröfur til hans í þessu efni. En jafnframt færist rjetturinn yfir til Landsbankans, samkvæmt lögunum frá 1922, en með þeim kjörum, að hann verður að greiða 6% af þeim seðlum, er hann gefur út, og það skapar ekki möguleika fyrir því, að hann geti legið með arðlaust fje erlendis.

Hin hlið seðlabankastarfseminnar er sú, að hafa sem mest áhrif um þá almennu lánastarfsemi í landinu. Það er auðvitað, að hann ræður sjer sjálfur, en hann verður einnig að geta haft mikil áhrif á aðrar lánsstofnanir, einkum í þá átt að koma í veg fyrir misnotkun lánsfjárins, sjerstaklega þegar svo stendur á, að vænta má bráðlega kreppu í atvinnulífinu. Þegar svo sendur á, verður að draga úr lánveitingum, og er það hans verkefni að sjá til þess. En hinsvegar verður hann að vera við því búinn að hlaupa undir bagga af eigin efnum, þegar kreppan er skollin á og atvinnuvegirnir geta ekki komist af án þess að fá hjálp.

Það er þetta tvent, sem jeg vil benda á sem hlutverk seðlabankans: að halda gengi peninganna í horfi meðan það er óstöðugt, og veita atvinnuvegunum stuðning á krepputímum og verja þá áföllum.

Þá vil jeg fara nokkrum orðum um helstu mótbárurnar, sem fram hafa komið gegn því, að gera Landsbankann að seðlabanka, einkum þær, sem fram koma í fylgiskjölum við nál. hv. meirihl. fjhn. á þskj. 367 og í ræðu hv. frsm. meirihl. (SE) — mótbárur, sem koma, eins og hv. þm. Vestm. sagði, sín úr hverri áttinni, og mjög mismunandi eðlis.

Þá er fyrst sú mótbára hv. 2. þm. G.-K. (BK), að stofnfje Landsbankans sje of lítið, svo lítið, að það sje ekki tryggilegt, að ætla honum þetta mikla verkefni. Jeg get fallist á það, að stofnfjeð sje of lítið, en frv. vill ráða bót á þessu atriði, með aukningu stofnfjárins um 2 milj. kr., og þyki mönnum það ekki nóg, geta þeir borið fram brtt. um, að stofnfjeð skuli t. d. hækka um 4 miljónir, og er það að vísu ekki of mikið fyrir seðlabanka.

Þá hefir sami hv. þm. (BK) haft ýmislegt að athuga við stjórn bankans og endurskoðun, en í þeim athugasemdum felst engin grundvallarmótbára gegn því, að gera Landsbankann að seðlabanka. Þá talaði hann og um það, að núverandi bankastjórn væri skipuð upp á lífstíð. Þetta atriði er nú ekki þannig vaxið, að deila þurfi um það, því að altaf er hægt að ráða fram úr því máli, því að ríkisvaldið hefir altaf ráð til þess að skifta um menn, ef nauðsyn krefur.

Þá kem jeg að því, er jeg kalla höfuðástæðurnar, er færðar hafa verið fram gegn frv., og er þá fyrst að minnast á þá ástæðu, að bankinn hafi of mikið sparisjóðsfje, og noti það sem veltufje. Þetta telja menn, að stríði á móti alheimsreglu í slíku máli og reynslu erlendra banka um sparisjóðsfje, en jeg vil í þessu sambandi benda á umsögn próf. Axel Nielsens og Jóns Krabbe skrifstofustjóra um þetta efni. Erlendis hafa bankar ekki mikið sparisjóðsfje undir höndum. En hjer er það svo, að sama stofnunin verður að reka bæði sparisjóðsstarfsemi og bankaviðskifti, og er þetta í sjálfu sjer eðlilegt, þegar tekið er tillit til þess, hvernig ástatt er hjer í landi. Jeg held, að hið rjettasta, sem sagt hefir verið í þessu máli, sje það, er jeg ætla að standi hjá Jóni Krabbe, að sparisjóðsfje þurfi að ávaxta gætilega. Lán úr sparisjóðum mega að vísu vera löng, en þau þurfa að vera vel trygð. Og þetta er hið sama sem krefjast verður af seðlabanka um útlán. Hjer er því ekki um neitt ósamræmi að ræða, þótt seðlabanki reki sparisjóðsstarfsemi jafnhliða. En hinsvegar er sá munur á, að útlán seðlabanka þurfa yfirleitt að vera til skamms tíma, annaðhvort stuttir víxlar eða seljanleg verðbrjef. En þó vil jeg segja, að þótt bankinn hafi sparisjóðsfje með höndum, þá þarf að byggja starfsemi hans aðallega á stuttum lánum, en þó er forsvaranlegt að festa nokkuð af sparisjóðsfjenu í löngum lánum. Þetta eru bankarnir hjer vanir við, og jeg held, að það þurfi ekki að verða neinni peningastofnun að falli, og jeg get ekki sannfærst um, að peningamálum landsins stafi hætta af því, þótt seðlabanki hafi sparisjóðsfje undir höndum. Og þegar á að meta mótbárur þær, sem komið hafa fram, verður það afgerandi spurning: Hver úrræði eigum við önnur en láta Landsbankann hafa seðlaútgáfuna?

Hv. frsm. meirihl. vísaði til ummæla minna við 1. umr. þessa máls, en þau orð, er hann hafði eftir mjer, voru ekki rjett hermd. Og satt að segja skil jeg ekki, hvernig nokkrum manni getur dottið í hug, að veltufje muni verða meira eða minna í landinu eftir því, hvort seðlarnir eru gefnir út í Landsbankanum eða í stjórnarráðinu.

Þegar jeg held því fram, að Landsbankinn verði að sýna meiri varkárni í útlánum, þá þýðir það ekki annað en þá stefnu, er Landsbankastjórnin tók upp fyrir 3 árum, að leggja fje inn á hlaupareikning í Íslandsbanka í stað þess að lána út. Þetta er sú varkárni, sem seðlabanka er samboðin, en lánsfjeð í landinu minkar auðvitað ekki við það, og atvinnufyrirtækin hafa eins mikið rekstrarfje til umráða eins og ella. Jeg varð undrandi, er jeg sá, að stjórn Íslandsbanka tekur undir þetta, og segir:

„Þá álitu bankastjórarnir, að ef komið væri á því fyrirkomulagi, sem stjórnarfrv. gerði ráð fyrir, og seðlaútgáfan fengin í hendur Landsbankanum, þá mundi óhjákvæmilega skerðast mjög fje til reksturs framleiðslufyrirtækja landsins og til verslunarinnar“ o. s. frv.

Þetta er vitanlega ekki annað en hugarburður.

Þá kem jeg að seinni höfuðmótbárunni gegn því, að gera Landsbankann að seðlabanka, sem sje þeirri, að Íslandsbanka verði með því gert of þröngt fyrir dyrum. Það er í sjálfu sjer erfitt að ná tökum á þeirri mótbáru, því að hún er aðeins sprottin af hræðslu. Skal jeg aðeins benda á, að 10 árin fyrir stríðið var annar bankinn seðlabanki, og var það hinum ekki að neinu meini. Jeg veit, og það er viðurkent af stjórn Íslandsbanka, að síðan Landsbankinn fór að búa sig undir að verða aðalseðlabankinn, hafa viðskifti bankanna farið fram með ákjósanlegum liðlegheitum.

Þá er næst að minnast á aðra möguleika til úrlausnar þessa máls, og kem jeg þá fyrst að seðlastofnun þeirri, sem hv. 1. þm. G.-K. (BK) stakk upp á, á síðasta þingi. Hann sagði þá sjálfur, að það væri ekki heppilegasta úrlausn málsins. Sagðist hann álíta, að besta leiðin sje, að stofnaður sje nýr hlutabanki, en efnahagur manna sje ekki svo, að slíkt sje hægt. Hann bar það því frekar fram sem neyðarúrræði, að setja upp slíka seðlastofnun, enda má um hana segja, að það er augljóst, að hún getur ekki fullnægt því verkefni seðlabanka, að ná í erlendan gjaldeyri á góðu árunum til þess að miðla honum á verri árunum.

Ef litið er á það, hver á að vera starfsemi stofnunar þessarar, sjest, að henni er ekki ætluð nein velta eða viðskifti fram yfir það, að kaupa gullforða og lána seðla til bankanna hjer með 2% lægri vöxtum heldur en bankarnir taka. Slík stofnun hefir ekki mátt til þess að stýra lánastarfsemi bankanna, enda er þess ekki vænst, og hún er ekki fær um að hlaupa undir bagga, þegar kreppa skellur á. Skal jeg ekki segja, hvort slík stofnun gæti ekki verið forsvaranleg skipun, ef peningar væri í gullgildi, en jeg staðhæfi, að hún getur ekki ráðið við verkefni seðlabankans eins og nú er ástatt, þegar vjer búum við óinnleysanlega og verðbreytilega pappírspeninga.

Í álitsskjali hv. 1. þm. G.-K. (BK) er nú frekar gert ráð fyrir ríkisseðlabanka í stað Landsbankans, og gert ráð fyrir, að ekki þurfi til hans meira stofnfje en 11/2–21/2 miljón kr. Hv. frsm. meirihl. (SE) er á sömu braut, að stofna þurfi nýjan banka með seðlaútgáfurjetti. Jeg skal viðurkenna, að ef menn sjá, að landið sje nógu öflugt til þess að stofna slíkan banka, þá sje það forsvaranleg lausn á málinu, en sá banki verður að byrja á því að draga að sjer annað fjármagn en seðla. Það má gera ráð fyrir, að seðlaveltan kunni að nema 6–8 milj. kr. Þar af gengur til gulltryggingar 21/2–3 milj. kr., eftir verða í mesta lagi 4–5 milj. kr., sem seðlastofnunin hefir úr að spila, og það er allsendis ónóg fjármagn fyrir. þann banka, sem á að hafa á hendi skyldur seðlabankans.

Um samband seðlabanka og Ræktunarsjóðs vil jeg ekki tala.

Jeg ætla ekki í þetta sinn að fara neitt verulega út í það, sem aðrir hv. nefndarmenn, hver í sínu lagi, hafa á móti frv. þessu. Jeg læt það yfirleitt bíða þangað til síðar.

En mjer finst ekki úr vegi að rifja upp að þessu sinni afstöðu tveggja hv. nefndarmanna til þessa máls, eins og hún var fyrir ári síðan, þegar hjer var á ferðinni frv. til laga um seðlaútgáfurjett ríkisins. Skoðun þessara hv. þm. um þetta mál kemur ljósast fram í nál. á þskj. 362 í fyrra, og skal jeg, með leyfi hæstv. forseta, lesa það upp. Nál. er stutt og hljóðar á þessa leið:

„Minnihl. fjárhagsnefndar álítur, að seðlaútgáfa ríkisins eigi að sjálfsögðu að vera hjá Landsbankanum. Að efna til sjerstakrar stofnunar, með nýjum dýrum embættum, til að gera á landsins kostnað það, sem þjóðbankinn getur gert án aukins tilkostnaðar, væri mjög í ósamræmi við þann sparnaðaranda, sem nú ríkir í þinginu. Við leggjum því til, að frv. verði felt.“

Lengra er nál. þetta ekki, og undir það rita hv. 5. landsk. (JJ) og hv. 2. þm. S.-M. (IP). Jeg verð nú að segja, að það er næsta undarlegt, að þessir hv. þm., sem höfðu svo ákveðna skoðun fyrir ári síðan, geti ekki nú, eftir að þingið hefir staðið í hálfan þriðja mánuð, áttað sig á því, að hjer er um sama grundvallaratriðið að ræða og þeir bygðu á, og því undarlegra, að þeir skuli lýsa því yfir, að þeir geti ekki nú tekið afstöðu til málsins.

Báðir þessir hv. þm. árjettuðu í umr. í fyrra skoðun þá, er þeir hjeldu fram í nál. sínu. T. d. segir hv. 5. landsk. (J.I) svo í ræðu um málið, með leyfi hæstv. forseta:

„Þetta finst mjer vera svo einfalt mál, að mig furðar á því, að hæstv. stjórn og hv. þdm. skuli ennþá vera í vafa um það, að seðlaútgáfan hljóti að lenda á Landsbankanum.“

Jeg get gert þessi orð hans að mínum, og margt fleira, sem vel er sagt um málið og álíka gott í þessari ræðu hans, er jeg las upp úr, og alt er gagnstætt því, er hann hefir nú fram að færa gegn frv. því, er hjer liggur fyrir. Það er að vísu freisting að tilfæra ýmislegt fleira úr ræðunni, en jeg ætla þó að sleppa því að sinni, enda efast jeg ekki um, að mjer gefist tækifæri til þess síðar.

Þegar taka á ákvörðun um það, hvort gera skuli Landsbankann að seðlabanka, þá getur enginn neitað því, að hann er sá bankinn, sem aðstöðu sinnar vegna hefir mestan máttinn til þess að rækja verkefni seðlabanka, eins og stendur. Og þó jeg geti viðurkent, að seðlaútgáfunni megi koma viðunanlega fyrir á annan hátt, t. d. með sjerstökum banka, er stofnaður væri í því skyni, þá tel jeg hæpið, að vjer höfum fjárhagslegan mátt til þess, enda væri með því lagt inn á skakka braut, samkvæmt reynslu annara þjóða. Um alla Norðurálfuna er búið að koma þessu þannig fyrir, að alstaðar þar, sem ríkisbanki er til, þá er það hann, sem fer með seðlaútgáfuna, en hinir bankarnir, sem eru eign einstakra manna eða fjelaga, annast bankaviðskifti atvinnuveganna að öðru leyti.

Ef nú yrði settur upp af ríkisins hálfu sjerstakur banki, sem tæki að sjer seðlaútgáfuna, og Landsbankinn heldur áfram, þá er svo komið, að við höfum fengið þjóðbanka, sem er ríkiseign, en hinsvegar heldur Landsbankinn, sem líka er ríkiseign, áfram bankastarfsemi sinni á því sviði, sem í öðrum löndum er ætlað einkabönkum og sparisjóðum einum. Og jeg segi fyrir mig, að jeg álít þetta ákaflega óheilbrigða braut að ganga inn á, og það eru fleiri en jeg um þá skoðun. Það er ekki holt í bankastarfseminni, að haldið sje hlið við hlið einkabanka og ríkisbanka. Og það sem mest er haft á móti því af hálfu Íslandsbanka, að Landsbankinn taki að sjer seðlaútgáfuna, er einmitt það, að hann verði þá jafnframt starfandi sem einkabanki í samkepni við aðra banka, en fyrir þann annmarka verður ekki bygt, þó að settur verði á stofn sjerstakur seðlabanki og Landsbankinn haldi áfram sem ríkiseign. Með því heldur ríkið uppi samkepni við borgarana, og það er óheilbrigt, ekki vegna seðlabankans, heldur vegna þess, að Landsbankinn er ríkisbanki og um of hætt við, að samkepni hans á erfiðum tímum veiki traustið á þeim einkafyrirtækjum, er starfa við hliðina á honum.

En stjfrv. stefnir að því að stofna heilbrigt ástand, þó mjer hinsvegar blandist ekki hugur um, að breytingin hljóti að taka nokkurn tíma. Það, sem jeg á við með þessu heilbrigða ástandi, er það, að færa okkar banka í það horf, að ríkisbankinn fái með framtíðinni það afmarkaða starfsvið, er seðlabankar hafa fengið hjá öðrum þjóðum, en það á að vera sú starfsemi, sem jeg nefndi, að halda uppi góðu skipulagi á peningamálum landsins og gildi gjaldeyrisins. Þegar Landsbankinn gefur sig við þessu eðlilega viðfangsefni ríkisins, og fer með seðlaútgáfuna, þá verður svigrúm fyrir einkabankana til þess að gefa sig við þeim greinum bankastarfseminnar, sem betur eru komnar í höndum einkafyrirtækja.

Þetta er fyrir mjer aðalatriðið, og því er það bjargföst sannfæring mín, að með stjrfrv. sje gengið inn á heilbrigða braut í bankastarfsemi okkar.

Og þó að Íslandsbanki, sem jeg hefi altaf verið velviljaður og oft haft tækifæri til að sýna í verkinu að svo væri, — þó að hann verði fyrir einhverjum óþægindum í bili, þá get jeg ekki sett það fyrir mig, þegar annarsvegar er um það að ræða, hvort bankamálum landsins í heild verði stefnt inn á heilbrigðar brautir eða ekki.

Nú vill hv. meirihl. fjhn. vísa frv. frá með rökstuddri dagskrá, og tefja framgang þess að minsta kosti um eitt ár. Jeg verð að segja, að eftir því sem á undan er gengið, þá er þetta ekki forsvaranleg aðferð. Og jeg vil taka undir það, sem einn meirihl.-maðurinn, hv. 2. þm. S.-M. (IP) sagði í ræðu sinni í fyrra um seðlaútgáfu ríkisins. Hann sagði þá, og það var skynsamlega sagt, að hann vildi gefa hinni deildinni kost á að koma með álit sitt um málið. Þetta hafði við talsverð rök að styðjast þá, þó málið væri ekki jafnvel undirbúið og nú. En því frekar er auðvitað ástæða til þess nú, að hv. Nd. fái málið til meðferðar, eftir að þau gögn eru nú fram komin, sem alls ekki voru fyrir hendi í fyrra. Þessvegna er óforsvaranlegt að fella frv. nú á þessu stigi málsins, og það einmitt vegna þm. sjálfra, sem hjer hafa fengið stórt mál til meðferðar, og meira að segja mál, sem ekki er hægt að neita að sje langtum betur undirbúið en venja er til.

Auk þess eru nú lög í landinu, sem beinlínis skipa svo fyrir, að ráðstafa skuli seðlaútgáfunni á þessu þingi, eða fyrir 1. júní þ. á. (SE: Það má framlengja þau lög.) Nefndin hefir ekki gert neina till. um það. (SE: Það má gera á eftir.) Jú, en viðkunnanlegra hefði verið, að nefndin hefði komið með till. þess efnis, jafnhliða því, sem hún vill hindra það, að frv. þetta fari lengra.

Annars er það óskiljanlegt, að hv. meirihl. fjhn. kemur með. frávísunartill., án þess að hafa undirbúið nauðsynleg bráðabirgðaákvæði um þetta efni. Og hitt þó ennþá undarlegra, að lofa því, að koma síðar með þáltill. um skipun milliþinganefndar, sem engin ástæða er til að ætla, að samkomulag fáist um.

Nú í haust má Íslandsbanki ekki hafa meira úti í seðlum en 5 miljónir króna og Landsbankinn 3/4 miljón. Er fyrirsjáanlegt, að þessi seðlavelta verður allsendis ónóg, og verður því að grípa til laganna frá 1922, sem mæla svo fyrir, að ríkisstjórnin skuli hlutast til um, að Landsbankinn setji í umferð þá seðla til viðbótar, sem þarf. En um þá seðla vantar öll lagaákvæði, t. d., að þeir skuli vera löglegur gjaldeyri, eða menn skyldir að taka við þeim sem greiðslu, svo og þau ákvæði gegn fölsun þeirra, sem nauðsyn hefir þótt að lögleiða um aðra bankaseðla. (SE: Þessi frestur hefir verið gefinn áður með samþykki núv. stjórnar.) Það kemur ekki mjer við, og sú ábyrgð fellur ekki á mig. Úr því hv. 1. landsk. (SE) kastar þessari hnútu til mín, þá svara jeg og segi, að það var hann og hans stjórn, sem bar skylda til þess að undirbúa þessa löggjöf, bæði í hitteðfyrra og fyrra. En hann gerði ekki annað en að láta Landsbankastjórnina semja frv. um seðlaútgáfu Landsbankans, sem hann svo játar, að hafa ekki sjeð fyr en það var lagt fram á Alþingi. Vegna þessa tek jeg ekki á móti neinni hnútu úr þessari átt, og sendi hana því heim aftur.

Jeg sá mjer illa fært í fyrra sumar, er auðsætt var, að of fáir seðlar voru í umferð, að láta prenta þriðju tegund seðla, enda engin ákvæði í lögum um nýja seðlaútgáfu. Þessvegna fjekk stjórnin ljeð eyðublöð hjá Íslandsbanka, sem hún ljet Landsbankann síðan setja í umferð. Hvort hægt verði að taka til sömu ráða í sumar, læt jeg ósagt; jeg veit ekkert um það, en jeg tel óforsvaranlegt, ef þessu þingi lýkur svo, að ekki verði gengið að minsta kosti frá seðlaútgáfu til bráðabirgða á forsvaranlegan hátt.

Jeg geri nú ekki ráð fyrir því, eftir þeim tíma, sem mál þetta hefir verið til athugunar hjá hv. fjhn. þessarar deildar, að það verði útrætt á þessu þingi. En jeg tel sjálfsagt, að það fái þann undirbúning, að þm. eigi hægra með að taka ákvörðun um það, er þeir koma saman næsta vetur.

Jeg tek undir það, sem hv. frsm. meirihl. (SE) sagði, að jeg tel ekki, að árás á stjórnina fælist í dagskrártill., en hinsvegar verð jeg að segja, að eins og málið er undirbúið nú, þá er það ekki forsvaranlegt að vísa því frá. Jeg legg því til, að hv. deild felli dagskrána.