25.04.1925
Efri deild: 60. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1243 í C-deild Alþingistíðinda. (3039)

26. mál, Landsbanki Íslands

Jónas Jónsson:

Hv. frsm. meirihl. (SE) hefir tekið fram flest af því, sem meirihl. þurfti að segja að svo stöddu. En þar sem hv. þm. Vestm. (JJós) og hæstv. fjrh. (JÞ) hafa vikið ýmsu að okkur hv. 2. þm. S.-M. (IP), sem höfum gert sjerstaka grein fyrir áliti okkar, vil jeg segja fáein orð.

Á síðasta þingi endaði þetta mál svo hjer í deildinni, að samþ. var rökstudd dagskrá, sem hv. þm. Vestm. (JJós) var frsm. að, svo hljóðandi:

„þar eð stjórnin hefir óskað, að henni gefist kostur á að athuga með aðstoð sjerfræðinga og undirbúa fyrir næsta þing endanlegt fyrirkomulag seðlaútgáfunnar“ o. s. frv.

því er þá slegið föstu, að á síðasta þingi er það hv. þm. Vestm. (JJós), sem vill fresta málinu, eftir till. frá hæstv. fjrh. (JÞ), sem nú er svo óþolinmóður eftir, að því verði endanlega lokið á þessu þingi. Í framsöguræðu segir hv. þm. Vestm. (JJós):

„Miðhluti nefndarinnar álítur því, að fara beri eftir ósk hæstv. fjrh. (JÞ) og fresta málunum. Jeg er og á því máli, að nota beri frestinn til þess að undirbúa málin fyrir næsta þing.“

Eins og hæstv. fjrh. (JÞ) tók fram og las upp úr ræðum okkar hv. 2. þm. S.-M. (IP) um málin í fyrra, höfðum við lagt þá undirstöðu, sem við höfum þá ánægju að sjá, að hæstv. fjrh. hefir bygt á. Jeg segi undirstöðu, af því að við vorum ósamþykkir hæstv. fjrh. og stuðningsmönnum hans. Jeg býst við, að ekki geti verið um mikið deiluefni að ræða milli hæstv. fjrh. og hv. þm. Vestm. annarsvegar og okkar hv. 2. þm. S.-M. hinsvegar, þar sem í aðalatriðunum, eða stefnu málsins yfirleitt, er gengið inn á þær skoðanir, sem við hjeldum fram í fyrra. Þá var ekki farið eftir þeirri ósk hv. 2. þm. S.-M. (IP) að ræða málið ítarlega hjer og gefa hv. Nd. einnig ástæðu til þess að fjalla um það. Jeg vil segja, að þeir, sem þá voru svo áfjáðir að láta rannsaka málið betur utan þings, ættu ekki að vera mjög óþolinmóðir nú, þó að þeir, sem markað hafa stefnuna, vilji fara eftir öðrum vegum að markinu.

Hv. þm. Vestm. virðist vera búinn að gleyma því, að við hv. 2. þm. S.-M. höfðum sagt í fyrra, að ef málið kæmist gegnum 2. umr., mundum við bera fram brtt., en til þess gafst ekki tækifæri, af því að málið var svæft, einmitt af þeim, sem nú tala með nokkrum þjósti gegn ítarlegri rannsókn. Það kann að vera, að hæstv. fjrh. (JÞ) sje búinn að rannsaka málið fyrir sjálfan sig, en ekki þó svo, að hann hafi aukið fylgi þess meðal þeirra, sem honum eru nákomnastir. Það er langt frá, að við hv. 2. þm. S.-M. höfum komist í mótsögn við sjálfa okkur. Við hefðum gert brtt. við 3. umr. í fyrra og gerum nú, ef frv. kemst svo langt. En af því okkur finst málið hafa færst úr leið í meðferð hæstv. fjrh. (JÞ) þetta ár, gátum við sameinast öðrum þingmönnum — sem kanske hafa þó önnur stefnumið — um að rannsaka málið betur. Jeg get tekið fram, að í vissum atriðum hefir hæstv. fjrh. (JÞ) þokað málinu áleiðis, t. d. þar sem hann í viðtali við nefndina felst á, að landið legði sjálft fram hlutafje til bankans, ef hann væri gerður að seðlabanka. Sömuleiðis tel jeg bót að því, í samanburði við að farin sje sú leið, sem hv. þm. Vestm. leggur til, að fylgt sje ráðum Krabbe, og hlutafjár aflað með því að leggja inn í bankann fje opinberra stofnana. En þar sem ýmsar ástæður mæla með því, að málið sje betur athugað, höfum við hallast að undirbúningi frekari rannsóknar.

Af misgáningi hefir hv. þm. Vestm. haldið því fram, að jeg telji frv. í heild sinni hafa batnað frá því í fyrra. Það stendur hvergi í nál., heldur er skýrt tekið fram, að á frv. sjeu verulegir, nýir ágallar, t. d. ein till., sem tekin er upp eftir lögum, sem útlendar þjóðir þvinguðu Þjóðverja til þess að taka upp. Það er skiljanlegt, að Bandamenn vildu tryggja sjer, að þýska ríkið ætti ekki of greiðan aðgang að bankanum. Allir vita, að þetta fyrirkomulag ríkisveðbankans þýska er til þess að tryggja hag Bandamanna. Annars skal jeg ekki fara frekar inn á þetta, að svo vöxnu máli. Jeg vildi aðeins leiðrjetta þann misskilning hv. þm. Vestm., að jeg teldi frv. hafa batnað. Það hefir það ekki.

Þá sagði hv. þm. Vestm., að óhafandi væri það bráðabirgðaskipulag, sem nú er á seðlaútgáfunni. Vitanlega er ekki hægt að hafa það altaf. En hv. þm. (JJós) hefir víst ekki athugað, að tryggingin fyrir seðlunum er eign allra landsmanna, og hún er a. m. k. eins góð og það litla gull, sem vera kann hjá Íslandsbanka fyrir hinum hlutanum.

Hæstv. fjrh. drap á eitt atriði, sem nokkra þýðingu hefir, að þetta fyrirkomulag veiti ekki mikið aðhald til þess að eiga fje inni erlendis. En fiskaflinn undanfarið hefir orsakað það, að innieignir eru óvanalega miklar erlendis hjá báðum bönkunum. Þeir standa því vel að vígi, þó að dragist í eitt ár að koma endanlegu skipulagi á seðlaútgáfuna.

Það er nokkurnveginn víst, hvort sem ofan á verður, að Landsbankinn fái seðlaútgáfurjettinn eða stofnsettur verði sjerstakur seðlabanki, að gull verði notað til tryggingar seðlunum. Jeg geri einnig ráð fyrir, að Íslandsbanki heimti, að ríkissjóður taki við talsverðu af gulli bankans, enda væri það ekki nema eðlilegt, þar sem hann vitanlega skaðast á því, að liggja með gullforða umfram það, sem hann þarf til tryggingar seðlum sínum.

Á þennan hátt eignast landið gull, sem það að sjálfsögðu ekki vill selja, og er ekki hægt að ráðstafa því skynsamlegar en láta það standa á bak við væntanlega landsjóðsseðla.

Hv. þm. Vestm. sagði, að við hv. 2. þm. S.-M. hefðum í fyrra verið reiðubúnir til að samþ. bankafrv. Landsbankastjórnarinnar með litlum breytingum. Þetta er auðvitað eintómur skáldskapur. Við höfðum þegar samið margar allverulegar brtt., sem ekki gafst tækifæri til að bera fram, þar sem frv. var áður vísað til hæstv. stjórnar, eins og menn muna.

En jeg býst við, að hv. þm. (JJós) hefði ekki þótt þær brtt. veigalitlar, ef hann hefir fengið tækifæri til að kynna sjer þær.

Jeg hefi að vísu svarað ræðu hæstv. fjrh. (JÞ) að nokkru leyti, en vil þó víkja að henni nokkrum orðum aftur.

Hæstv. fjrh. kvað það rjettilega skifta langmestu máli, að hvaða takmarki menn stefndu endanlega með seðlaútgáfuna. Og þetta hefir unnist, að hæstv. ráðh. (JÞ), sem í fyrra lagði ekkert til málanna annað en það, að slá málinu á frest, hefir nú komist að svipaðri niðurstöðu sem við hv. 2. þm. S.-M. komumst að þá.

En þó geta verið mörg atriði í formi málsins og allri meðferð, sem taka verður fult tillit til, og þau málsatriði geta skilið vegi með þeim, sem upprunalega áttu samleið. Í nál. okkar hv. 2. þm. S.-M. er sýnt fram á, að þær breytingar, sem stjfrv. vill gera á öllu fyrirkomulagi Landsbankans, eru svo gagngerðar, að telja verður vafasamt, að ýmsir mætustu menn, sem annars vilja gera Landsbankann að seðlabanka, vildu vinna það til, ef honum yrði jafnframt stórspilt að öðru leyti, eins og þeir álíta, að gert sje með frv.

Utan af landi hefi jeg orðið þess var, að menn hafa lesið frv. með hrygð, og þykir form þess og fyrirkomulag seðlaútgáfunnar óhafandi.

Hæstv. fjrh. (JÞ) hefir þannig að vísu gengið inn á þá höfuðleið, sem við hv. 2. þm. S.-M. mörkuðum hjer í fyrra, en mikið ber enn á milli, hvernig takmarkinu skuli náð.

Jeg sje ekki ástæðu til að fjölyrða um hinar einstöku villigötur, sem hæstv. fjrh. (JÞ) enn er á. Það læt jeg bíða, þangað til sjeð verður, hvort hv. deild hafnar frekari rannsókn í málinu eða ekki.

Hæstv. fjrh. (JÞ) gat þess oftar en einu sinni, að aðstandendur Íslandsbanka væru hræddir um, að ef Landsbankinn fengi seðlaútgáfurjettinn, þá yrði hann nokkuð harður í horn að taka við Íslandsbanka. Þetta kemur einnig í ljós í samtalinu við bankastjórnirnar, sem meirihl. hefir látið fylgja nál. sínu.

Það er auðskilið mál, að Íslandsbanki vill heldur fá ódýrari seðla en hann býst við að geta fengið hjá Landsbankanum. Þessvegna vill Íslandsbanki helst seðlastofnun, þar sem hann getur gert sjer von um að fá ódýra seðla.

En jeg er alveg samdóma hæstv. fjrh. (JÞ) um, að með öllu er ástæðulaust, að Íslandsbanki hafi nokkur áhrif á, hvernig máli þessu verði nú ráðið til lykta. Og sama er reyndar um Landsbankann að segja. Jeg álít, eins og hæstv. ráðh. (JÞ), að þingið eigi að taka ákvörðun í máli þessu upp á eigin spýtur, en ekki binda sig við það, sem núverandi forstjórar bankanna kunna að leggja til málanna.

Þá álít jeg, að hæstv. fjrh. (JÞ) beri skylda til, ef till. meirihl. nær fram að ganga, að gera skjótlega ráðstafanir til þess, að seðlafölsun verði framvegis ekki eins arðvænlegur atvinnuvegur og hann gaf í skyn.

Ef seðlafalsarar hefðu hlustað á ræðu ráðh. (JÞ), þá hefði þeim mátt vera hvatning að heyra hana, því hann benti á, að atvinnuvegur sá væri síst hættulegur, en aftur á móti mjög arðvænlegur. (Fjrh. JÞ: Talar þingmaðurinn af reynslu?) Það hefir komið fyrir, einnig hjer á landi, að menn hafi lagt stund á seðlafölsun, að vísu aðrir en þingmenn, og því miður gætilegt af hæstv. ráðh. (JÞ) að sýna fram á, hversu sá atvinnurekstur geti blómgast hjer. En úr því að hann hefir gert það, þá væri vel viðeigandi, að hann bæri fram frv., sem gæti bætt úr þeim göllum á núgildandi löggjöf, sem gera þennan glæp svo hættulitinn, að hans sögn.

Jeg sje í rauninni ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um málið að sinni. Þegar búið er að fella till. meirihl., getur komið til mála, að gerð verði grein fyrir einstökum atriðum í stjfrv., jafnvel þó ekki sje sýnilegt, að tími vinnist til, að því verði komið gegnum báðar deildir þingsins.

Jeg vil endurtaka, að ef hæstv. fjrh. (JÞ) og hv. þm. Vestm. athuga, að þeir, vegna varfærni, kusu frest í málinu s. l. ár, þá geta þeir varla talið vítavert, þó til sjeu menn í landinu, sem óska, að málið njóti enn ítarlegri umbóta við gaumgæfilega rannsókn í eitt ár enn.

Hæstv. fjrh. (JÞ) taldi vitavert af meirihl. að vilja stöðva málið nú, en hleypa því ekki til umr. í hv. Nd. Jeg skal benda hæstv. ráðh. (JÞ) á, að ítarleg skjöl liggja fyrir um málið nú þegar, sumpart frá hæstv. stjórn og sumpart frá fjhn. þessarar hv. deildar. Má þar áreiðanlega fá töluverða leiðbeiningu fyrir þá, sem vilja glöggva sig á málinu, a. m. k. leiðbeiningu, sem jafngildir eins dags umr. í hv. Nd.

Og þegar hjer við bætist, að gert er ráð fyrir milliþinganefnd, sem athugi málið nánar, þá sýnist sú ásökun á litlum rökum bygð, að meirihl. vilji koma í veg fyrir, að þjóð og þing fái sem glegstar upplýsingar til að byggja á.