28.02.1925
Neðri deild: 22. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1135 í B-deild Alþingistíðinda. (304)

4. mál, fjáraukalög 1924

Frsm. (Þórarinn Jónsson):

Eins og nál. á þskj. 94 ber með sjer, þá leggur nefndin til, að frv. verði samþ. óbreytt.

Eins og vant er, þá hefir orðið að greiða ýmsar upphæðir árið 1924 fram yfir þær, sem voru í fjárlögum það ár. Nemur það kr. 37973,07, og er það raunar minna en oft áður. Sumt af þessu er greitt samkvæmt venju, sumpart af brýnni þörf, og enn annað samkvæmt heimildum frá Alþingi.

Upphæðin í 2. gr. getur þó ekki heimfærst undir neitt af þessu. Eru þar veittar 300 kr. til læknisvitjana í Breiðdalshreppi árið 1923. Svo stendur á þessu, að nefndur styrkur var í fjárlögum fyrir 1923, en fjeð var ekki hafið fyrri en nú, en ekki þótti þar fyrir rjett að láta þennan hrepp missa af styrknum.

Þá vildi jeg minnast á tvo liði í 3. gr. frv. Það er launabót tveggja kennara við stýrimannaskólann og vjelstjóraskólann. Hafa þeim áður verið veittar þessar upphæðir í fjáraukalögum, og því þótti ekki rjett að svifta þá styrknum nú, en þessi aðferð virðist nefndinni mjög varhugaverð og ætti að leggjast niður.

Stærsta upphæðin í þessari grein er samt ekki launabótin til þessara kennara, heldur kostnaðurinn við aðgerð á bændaskólanum á Hvanneyri, að upphæð kr. 23800,98. Hefir skólahúsið mörg undanfarin ár legið undir stórskemdum, og mátti varla dragast lengur, að það fengi rækilega aðgerð. Ýmsar aðrar upphæðir virðist á sama hátt hafa verið óumflýjanlegt að greiða, svo sem til kirkjugarðsins í Reykjavík, þó að sú upphæð sje raunar nokkuð há.

Þá eru eftir 4. og 5. gr. Þær upphæðir, sem þar eru nefndar, hafa verið greiddar samkvæmt heimild frá þinginu, þannig að með samþykt fjárlaganna fyrir 1925 fylgdi einnig, að þær mætti greiða á fjáraukalögum fyrir 1924.

Fjölyrði jeg svo ekki frekar um þetta. Það er ólíklegt, að ágreiningur geti orðið um þetta frv., og vil jeg í nafni fjvn. óska þess, að það nái óbreytt fram að ganga.