27.04.1925
Efri deild: 61. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1270 í C-deild Alþingistíðinda. (3043)

26. mál, Landsbanki Íslands

Fjármálaráðherra (JÞ) (frh):

Næst gat hv. frsm. meirihl. (SE) um það, að jeg hefði eigi sannað, að sjerstakur seðlabanki hefði ekki nægileg áhrif á útlánin. Jeg hefi aldrei ætlað að sanna þetta, en spurði aðeins, hvort hægt væri að láta slíka stofnun hafa nægilegt fje.

Ef stofnaður yrði nýr banki, gæti það verið heppileg úrlausn í bili, en með því væri farið inn á óheppilega braut. Annarsstaðar hafa ríkin sinn eigin seðlabanka, en láta einkabanka annast aðra bankastarfsemi. Ef hjer ætti nú að fara að bæta nýjum ríkisbanka við, þar sem Landsbankinn er fyrir, værum vjer komnir lengra í ríkisrekstri á þessu sviði en nokkurt annað land, sem jeg þekki til. Jeg tel því eigi rjett, að stofna nýjan seðlabanka, jafnvel þótt efni væru til þess.

Þá mintist hv. frsm. (SE) á sparisjóðsfje Landsbankans og starfsemi bankans í sambandi við það. Gat hann þess, að stofnun eins og sparisjóði Eyrarbakka hefði gefist illa að fást við allar tegundir bankastarfsemi. Vitanlega er það engin sönnun fyrir óheilbrigði fyrirkomulagsins, þótt ein slík stofnun hafi verið lögð niður hjer á landi. Hvað mætti þá segja um fyrirkomulagið á öllum þeim bönkum, sem fóru um koll í útlöndum um líkt leyti.

Það, sem varð sparisjóðnum á Eyrarbakka að falli, var alls eigi samblandið á löngum og stuttum lánum, enda tíðkast það alstaðar hjer, heldur alt aðrar ástæður. Að nokkru leyti má ef til vill kenna stjórn sjóðsins um þau mistök, sem þar urðu, enda þótt hægara sje að sjá slíkt eftir á en fyrirfram. Í öðru lagi kom þar atriði til greina, sem er lærdómsríkt, og því rjett að geta nánar um.

Sparisjóður þessi var stærsti sparisjóður landsins og fullnægði næstum eða alveg lánsþörf hjeraðs síns, enda þótt þeir, sem mest höfðu í veltunni, leituðu til banka í Reykjavík. Árið 1920, þegar ljettúð í fjármálum kemst á hæsta stig, er stofnað útibú frá Landsbankanum rjett við hliðina á sparisjóðnum. Þetta útibú hafði tvennskonar áhrif á sparisjóðinn og voru hvortveggja óhagstæð.

Í fyrsta lagi varð útibúið til þess, að auka allmjög skuldir manna þar eystra, sem þó var eigi á bætandi. Auðvitað hafði þetta mjög slæmar afleiðingar fyrir sparisjóðinn.

Rjett eftir stofnun útibúsins dynur kreppan yfir. Þá hefst þegar samkepnin um innlánsfje á milli sparisjóðsins og útibúsins. Af ýmsum hafði verið bent rækilega á það, að tryggara væri að ávaxta fje sitt í útibúi Landsbankans, heldur en í sparisjóðnum. Varð þetta til þess, að talsvert af innlánsfje sparisjóðsins rann til útibúsins.

Þessar tvær afleiðingar af stofnun útibúsins fyrir sparisjóðinn orsökuðu síðar þá kreppu fyrir sjóðinn, er hann komst eigi úr hjálparlaust. Að vísu er það mitt álit, að útlitið með sjóðinn hafi ekki verið ískyggilegra en svo, að sjálfsagt hefði verið að hjálpa honum, ef tök hefðu verið á. Að minsta kosti hefir fjölda af erlendum bönkum, sem lakar hafa verið staddir, verið hjálpað, t. d. norski Handelsbankinn. Já, hann og miklu fleiri bankar.

Þetta, sem jeg nú hefi skýrt frá, sýnir aðeins það, að óheppilegt er að stofna til ríkisreksturs við hlið á einkafyrirtæki. Má og til frekari áherslu segja frá því, að er danska ríkið tók ríkisábyrgð á Landmandsbankanum, að þá var það látið í ljós af ýmsum fjármálamönnum, að svo mætti eigi lengi ganga, vegna þess, að þá mundi bankinn draga of mikið til sín frá einkabönkunum.

Því hefir verið haldið fram af ýmsum, að ríkisábyrgð væri á sparisjóðsfje Landsbankans. Jeg hefi nú leitað álits einhvers best metna lögfræðings vors, og hefir hann látið þá skoðun í ljós, að svo sje eigi. Ríkið ábyrgist aðeins með innskotsfje sínu og með seðlum sínum.

Það er mín skoðun, að ríkið eigi að styrkja sinn seðlabanka, en skifta sjer sem minst af annari bankastarfsemi. Og úr því að Landsbankinn er ríkisbanki, virðist liggja næst, að hann verði seðlabanki ríkisins. Væru þá bankamál vor komin inn á svipaða braut og annarsstaðar.

Því hefir verið haldið fram, að á þennan hátt yrði bankinn að starfa eftir ólíkum meginreglum. Má vera, að svo megi segja, en þó fæ jeg ekki sjeð, að svo langt sje á milli stuttra og langra lána, að það ætti að vera nokkurri bankastjórn ofætlun, að annast hvorttveggja. Að minsta kosti heimtar aðstaða vor hjer miklu meiri fjölhæfni á ýmsum stöðum. Hversu margbreytt eru eigi störf bóndans? Hann er kanske í senn jarðyrkjumaður, fjárræktarmaður, kennari, læknir og enn fleira. Ástæður vorar og aðstaða heimtar langtum meiri fjölhæfni af hverjum einstakling hjer en annarsstaðar, þar sem verkaskifting er meiri. Ef þetta nægir eigi hv. frsm. meirihl. (SE), ætti hann að lita á sinn æfiferil, þau ýmsu störf, sem hann hefir fengist við.

Hv. frsm. (SE) gat eigi bent á þá minkun lánsfjármagnsins, sem getið er um í álitsskjali nefndarinnar. Ef hægt á að vera að sanna slíkt, verður að benda á eitthvert fje, sem hverfi úr veltunni, en slíkt hefir eigi verið gert.

Jeg verð að álíta, að í ákvæðum frv. þessa felist mjög sterkt aðhald til stjórnar og þings um að láta ríkið ekki verða upp á það komið að safna lausum skuldum. Jeg verð sömuleiðis að álíta, að slíkt aðhald sje mjög holt. Það knýr til þess, að gerðar sjeu í tíma ráðstafanir þær, sem nauðsynlegar eru til að rjetta við hag ríkissjóðsins, ef harðnar í ári fyrir honum. Fyrir utan reynslu sparisjóðs Eyrarbakka, benti hv. frsm. (SE) á það, þegar rifið var innistæðufjeð út úr Íslandsbanka, til stuðnings þeirri skoðun sinni, að varhugavert sje, að saman fari seðlaútgáfa og sparisjóður. Þetta skal líka viðurkent, og þessvegna er nú verið að stefna að því, að gera Landsbankann að seðlabanka, en losa hann fremur við sparisjóðinn. Eru í frv. nokkur ákvæði, sem tryggja bankann fyrir afleiðingum þess, að hafa sparisjóðsfje, og mætti sjálfsagt ganga nokkuð lengra í þá átt. Annars er um það dæmi að segja, sem hv. frsm. (SE) tók frá Íslandsbanka, að það hafði engin áhrif á bankann sem seðlabanka, nje heldur hafði það nokkur áhrif á gildi gjaldeyrisins. Það hefir vafalaust haft óþægileg áhrif á bankann sjálfan, en kom ekki fram á öðrum. Loks vil jeg biðja menn að yfirvega muninn, sem á því er, að sjerstakur banki hafi seðlaútgáfuna með höndum, eða Landsbankinn hafi hana, þegar „panik“ kemur og menn rífa út fje sitt. Hver getur munurinn orðið, þegar sami er eigandi beggja stofnananna? Annars legg jeg meiri áherslu á, að það er óeðlilegt, hvað Landsbankinn hefir mikið sparisjóðsfje, og finst mjer, að með tilliti til þess stefni frv. þetta inn á rjetta braut.

Þá vil jeg, áður en jeg lýk máli mínu, fara nokkrum orðum um undirbúning málsins. Skal jeg þá geta þess, að jeg byrjaði að setja mig inn í málið til að sjá, hvar helst væri sjerfróðrar aðstoðar að vænta. Komst jeg fljótt að þeirri niðurstöðu, að ekki mundi hlíta að leita í þessu skyni til „praktisks“ bankamanns, sem ekki væri lærdómsmaður í þessum greinum, því öll „praktiska“ hliðin er svo nátengd okkar ástæðum, að slíkir menn erlendis, sem ekki þektu til hjer heima, myndu ekkert geta gert. En það er ekkert leyndarmál, að í útlöndum hafa vísindamennirnir á þessu sviði altaf á þessum undangengnu vandatímum verið langt á undan „praktisku“ mönnunum í skilningi á því, sem hefir verið að gerast. Fræðimennirnir hafa tekið bankamennina á knje sjer, ef svo mætti segja, og kent þeim, hvaða ráð þeir ættu að taka. Er skamt að minnast þeirrar reynslu í Danmörku, er sá „praktiski“ bankamaður rjeði mestu um peningamálin, er naut trausts í svo ríkum mæli, að varla þótti ráð ráðið í Danmörku nje jafnvel erlendis, nema hann rjeði. En svo hrundi öll spilaborgin og maðurinn sjálfur raunar með. Reyndist þá alt rangt, sem hann hafði reiknað með og gengið út frá. Á sama tíma höfðu fræðimenn sagt fyrir, hvað væri að gerast. — Mjer sýndist því sjálfsagt að leita til fræðimanna í þessu efni, því jeg tel víst, að þeirra þekking eigi eins vel að geta komið að gagni hjá oss eins og annarsstaðar. Þeirra fræðilegu kenningar eru auðvitað algildar, en jafnframt eigum við að taka tillit til þess, sem við höfum lært af reynslunni. Niðurstaðan varð þá sú, að jeg sneri mjer til hr. Axel Nielsen prófessors í bankafræði við háskólann í Kaupmannahöfn, sem er nú að semja stóra kenslubók í námsgrein sinni. Er fyrra bindið þegar komið út, og er þar sögð saga bankamálanna. Auk þess á hann sæti í bankaráði þjóðbankans danska, og taldi jeg því, að málinu væri í hans höndum jafnvel borgið fræðilega sem ef Þjóðbankinn sjálfur hefði um það fjallað. En þegar skjölin, snertandi þetta mál, voru farin af stað, þá fjekk jeg að vita, að Landsbankinn hjer hefði leitað álits þessa sama manns um frv. frá í fyrra. Stöðvaði jeg því skjölin í bili, uns jeg sæi þetta álit hans, en komst þá strax að raun um, eins og reyndar mátti vita, að álit hans var algerlega hlutlaust og sneri mjer því til hans. Og þó einn bankastjóri Landsbankans hefði átt tal við hann, þá vissi jeg auðvitað, að þeir, sem ekki vilja gera Landsbankann að seðlabanka, myndu nota sjer þetta sem mótbáru, en mjer fanst, að þar sem fyrv. stjórn hefir líka haft málið með höndum, og hún tekið þann kost, að láta sjálfa stjórn Landsbankans búa frv. í hendur þingsins — að þá gæti varla talist ámælisvert, þó sá maður, sem nú hefir fjallað um frv., ljeti stjórn Landsbankans í ljósi álit sitt um þetta frv. Það getur að minsta kosti ekki verið neinn þyrnir í augum þeirra, sem vilja gera bankann að seðlabanka, og fyrv. stjórn ekki heldur, sem fór svo langt, að láta stjórn Landsbankans undirbúa frv. undir þingið í fyrra. Hinsvegar hefi jeg bent á, að tími gat ekki orðið langur til undirbúnings, því þar sem erlendur maður átti að fjalla um málið, þá taldi jeg nauðsynlegt, að fyrst yrði samið yfirlit yfir sögu þessara mála hjer á landi. Fjekk jeg til þess ungan hagfræðing, og lauk hann því verki á mánuði. Það eitt get jeg kannast við, að vantaði á undirbúninginn, að frv. sjálft gæti legið fyrir sjerfræðingnum til umsagnar, en það leyfði tíminn ekki. Hinsvegar kannast jeg alls ekki við, að nein deyfð hafi átt sjer stað í undirbúningi þessa máls, eftir að á honum varð byrjað. Og þyki hv. frsm. (SE) sem jeg hafi ætlað mjer að lifa og deyja í skjóli Landsbankans, eins og hann kom orðum að því, þá held jeg, að það eigi ekki síður við um hans eigin stjórn.

Þá mintist hv. frsm. (SE) á það, að ráðherrarnir væri ósammála og benti því til merkis á mál, sem stjórnin nú stæði ekki saman um. En mjer finst mjög eðlilegt, að það geti komið fyrir, að ráðherrarnir sjeu ekki allir á sömu skoðun um frv., sem þm. koma fram með, þegar þau eru ekki stefnumál flokks þeirra. Það mun líka vera viðurkend regla, að ráðherrarnir hafi rjett til að bera fram stjfrv., þó hinir ráðherrarnir sjeu ekki þeim fylgjandi. Jeg mun því heldur ekki víta hv. frsm.(SE), þó hann leggist móti frv., sem flutt var í hans tíð, en þó hygg jeg, að það hafi verið samkomulag við hann þá, að Landsbankinn undirbyggi frv. Hann endaði svo mál sitt á því, að jeg hafi slegið á framrjetta hönd hjer, en það er ekki rjett. Jeg hefi athugað málið eftir því sem hægt var, og vil láta ræða það málefnislega eftir málavöxtum, án þess að inn í það sje blandað að óþörfu nokkru stjetta- eða flokkahagsmunatogi.