27.04.1925
Efri deild: 61. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1301 í C-deild Alþingistíðinda. (3048)

26. mál, Landsbanki Íslands

Frsm. meirihl. (Sigurður Eggerz):

Seinast, þegar jeg talaði, skýrði jeg mjög greinilega frá því, hve gengið væri mjög háð þeim sveiflum, sem verða á viðskiftalífi þjóðarinnar. Hæstv. fjrh. (JÞ) sagði, að svo væri ekki, nema að nokkru leyti. Auðvitað er það rjett, að bankarnir geta haft nokkur áhrif í þessu efni, en þó sjerstaklega með vaxtabreytingum og lánatakmörkunum. En ef litið er á hitt, sem hæstv. fjrh. (JJ?) leggur mesta áherslu á, að seðlabankinn safni stórum sjóðum, sem geti orðið hemill á gengissveiflunum, þá er sýnilegt, að til þess þurfa sjóðirnir að verða afskaplega stórir. Öllum er það ljóst, að það sem gerði það að verkum, að ísl. kr. hækkaði svo mjög á síðasta ári, var hið óviðjafnanlega ár, sem forsjónin sendi þjóð vorri. Jeg má fullyrða, að mismunurinn á innfluttum og útfluttum vörum hafi numið meira en 20 miljónum kr., það er að segja, meiru en allar ríkisskuldirnar. Í þessum mikla útflutningi lágu ástæðurnar til hinnar miklu hækkunar krónunnar. En ef litið er á málið frá annari hlið og gert ráð fyrir, að þessi háa sveifla upp á við hefði verið niður á við, þá sjá allir, hvað stóran sjóð hefði þurft til að jafna þann halla.

Skoðanir í þessum gengismálum hafa yfirleitt verið mjög á reiki, en jafnan, þegar syndgað hefir verið gegn hinum almennu lögum viðskiftalífsins, þá hefir það hefnt sín. Þetta hefi jeg sjeð oftar en einu sinni í okkar stuttu gengissögu.

Jeg minnist þess 1923, byggingarárið, að þá ætlaði Landsbankinn að reyna að halda pundinu í kr. 26.90 eða kr. 27.00,— man það ekki fyrir víst nú, hver talan er rjett. Og í báðum bönkunum voru pundin seld fyrir þetta. En bankarnir höfðu svo lítið af gjaldeyri, að þeir gátu aðeins selt mjög takmarkað af pundum. Afleiðingin varð sú, að þeir, sem þurftu að halda á pundum og gátu ekki fengið þau í bönkunum, fóru til þeirra, sem seldu bönkunum gjaldeyrinn og buðu þeim hærra verð en bankarnir buðu. Gjaldeyrisverslunin fór því svo að segja öll fram fyrir utan bankana. Jeg minnist þess þá, að Íslandsbanki hjelt því fram, að eina ráðið væri að hækka pundin, og á það varð svo Landsbankinn að fallast að lokum. það var lögmál viðskiftanna, sem greip í strenginn. Það væri hreint ofverk fyrir Landsbankann að safna gjaldeyri í stórum stíl. Fyrir hvað ætti bankinn að kaupa erlendan gjaldeyri, nema sparisjóðsfje? Ef hæstv. fjrh. (JÞ) ætlar að ýta undir Landsbankann að „spekúlera“ með sparisjóðsfje, er það afar-óholl stefna. Hver yrði afleiðingin? Hugsum okkur, að Landsbankinn keypti fyrir margar miljónir sterlingspund, og gæfi kr. 27.00 fyrir hvert pund. Svo breytast tímarnir, og pundið fellur niður í t. d. 25 kr. — Ef um verulega stóran sjóð væri að ræða, þá gæti hjer verið um allálitlega fúlgu að ræða, sem tapaðist. Hvað þá heldur, ef pundið fjelli miklu meira.

Jeg mun ekki einn um það, að telja það óholt, að „spekúlera“ í gjaldeyri. Einn bankastjóri Íslandsbanka, Eggert Claessen, mintist á það 1923, þegar talað var um að skrá krónuna, við ýmsa menn ytra, meðal annara bankastjóra Privatbankans, sem er þektur fjármálamaður, hvort hann vildi ekki hjálpa til að halda uppi íslensku krónunni. Nei, sagði hann, minn banki fæst ekki við gjaldeyris-„spekúlationir“. Því fylgir of mikil áhætta, þegar það er of mikil áhætta fyrir Privatbankann, hvernig færi þá með okkar litlu banka?

Þá kom hæstv. fjrh. að því, að hann mundi ekki leggja á móti stofnun sjerstaks seðlabanka, ef hægt væri að tryggja honum nægilega mikið fjármagn. (Fjrh. JÞ: Jeg taldi það forsvaranlega lausn.) Í sambandi við þetta skýrði hann frá því, að Nationalbankinn í Kaupmannahöfn hefði annað fje en seðlafúlguna. Það getur verið. Jeg hefi ekki rannsakað þetta atriði.

Í sambandi við það, sem hv. 5. landsk. (JJ) sagði um að prófessor Nielsen væri spámaður, þá vil jeg benda á, að hann hefir alment sagt, að seðlabankinn væri bankanna banki, þó hann vilji ekki heimfæra þá kenningu upp á Landsbankann hjer.

Jeg vil aftur minnast á ummæli fjrh. um fjármagn það, sem Landsbankinn hefir. Fjármagnið er ekki mikið. Varasjóðurinn er lítill. Aðalhyrningarsteinninn yrði sparisjóðsfjeð, en á þeim hyrningarsteini má ekki byggja skipun seðlaútgáfunnar, eins og margoft hefir verið tekið fram. Vegna fjármagnsins er því ekki hægt að gera neinn verulegan mun á seðlabankanum nýja og Landsbankanum.

Hæstv. fjrh. (JÞ) sagðist, í ræðu sinni á laugardaginn, ekki skilja í þeirri hræðslu, sem talað væri um að gæti gripið sparifjáreigendur. Jeg hefi skýrt, meðal annars, frá því, hversu mikil áhætta það er, að binda fje sitt í gjaldeyris-„spekúlationum“. Það er lögmál órjúfanlegt, um peningamál, að eins og vatn streymir frá hærri stöðum á hina lægri, eins er fyrir mönnum, sem eiga innieign. Þeir flytja hana frá ótryggari staðnum á þann, sem þeir telja tryggari. Ef Landsbankinn verður dreginn inn í gjaldeyris-„spekúlationir“, er líklegt, að þeir varkáru menn færu að draga sig til baka með sparisjóðsfje sitt. Það gildir alveg sama lögmál um verslunarvörur og um gjaldeyri. Þegar mikið er um gjaldeyri, er eftirspurnin minni, en það hefir þau áhrif, að lækka gjaldeyrinn í verði. En þegar illa gengur og lítið er flutt út af vörum, er eftirspurnin mikil. Þá hækkar sterlingspundið, en krónan lækkar.

Bankarnir eiga nú svo mikinn gjaldeyri, að þeir gætu þolað þessvegna, að krónan hækkaði meir. En hvað þola atvinnuvegirnir? Ef of ört er farið upp með krónuna, þá bitnar það á þeim. Og því er sjálfsagt, ef við verður ráðið, að taka tillit til þeirra. En í sambandi við það minni jeg enn á, að við stóru sveiflumar er ekki hægt að ráða.

Svo jeg víki að því aftur, þá er viðurkent, að það fje, sem Landsbankinn ræður yfir, sje lítið annað en sparisjóðsfje. Landsbankinn þyrfti því að fá lán, ef hann tekur að sjer seðlaútgáfuna, og sama máli er að gegna um nýja seðlabankann, og því sje jeg ekki betur en að það liggi beint við, að halda sjer við veraldarreynsluna í þessu efni, og koma á fót seðlabanka, sem sje bankanna banki.

Jeg vil benda á, hversu mikill munur það er fyrir þá, sem eiga að stjórna bönkum, að taka við nýjum banka, eða taka við öllum gömlu syndunum frá fyrri árum. Þá eru þeir bundnir í báða skó, vegna fortíðarinnar. Þetta á sjer stað bæði í Íslandsbanka og Landsbankanum, En nýi bankinn yrði ekki bundinn af þessum gömlu syndum. Hann getur hagnýtt sjer hina dýrmætu reynslu fortíðarinnar, án þess að vera múlbundinn af syndum hennar.

Jeg vitnaði í sparisjóðinn í Árnessýslu því til sönnunar, hvað hættulegt gæti verið, ef ótrú skapaðist á banka, sem hefði miklar sparisjóðsinnieignir, sem út væru lánaðar. Hv. fjrh. benti á, að fjeð hefði verið dregið út þaðan af því, að menn hefðu talið öruggara að hafa það í útibúinu á Selfossi. Þetta er væntanlega ein af ástæðunum, og sýnir, hvað innieigendur sparisjóða eru viðkvæmir. Eins og fjeð var dregið út úr sparisjóðnum, þegar hræðslan greip menn, eins mundi fara, ef hræðsla gripi menn við Landsbankann, er hann væri orðinn seðlabanki. Og þar gæti skapast freisting til nýrrar seðlaútgáfu.

Hæstv. fjrh. (JÞ) telur ástæður sjóðsins eigi hafa verið eins illar og af var látið, og getur það vel verið, að svo sje, enda leit jeg altaf svo á, að hægt hefði verið, með góðri viðleitni, að bjarga honum.

Árið 1920 var dregið um 5 miljónir út af innieignum í Íslandsbanka, vegna hræðslu, sem sköpuð var við bankann. Hæstv. ráðh. (JÞ) segir, að þetta hafi ekki haft nein áhrif á gengismálið. Sannleikurinn var nú víst, að þá var ekkert gengismál á ferðinni. En allir hljóta nú að sjá, hve aðstaða bankans yfirleitt hefir hlotið að veikjast við svo stóra blóðtöku. Og hvað mikil freisting var ekki fyrir seðlabankann — en það var Íslandsbanki þá — til nýrrar seðlaútgáfu!

Að því er snertir athugasemdina um hina tvo þjóðbanka — ef stofnaður yrði nýr seðlabanki — þá nægir að vitna til þess, sem jeg hefi áður tekið fram, að stjórnin vill nú einmitt gera Landsbankann að hlutafjelagsbanka.

Hæstv. ráðh. (JÞ) tók það fram, að ríkissjóður væri ekki í frekari ábyrgð fyrir Landsbankann en með eignum sínum í bankanum. Jeg hefi ekki rannsakað þá lagalegu hlið þessa máls, en jeg er ekki í neinum vafa um, að svo yrði litið á, að ríkið bæri siðferðislega ábyrgð á bankanum, eins og honum er nú fyrir komið.

Hæstv. fjrh. kannaðist við, að samkvæmt eðli sínu ætti seðlabanki aðallega að veita stutt lán. En sparisjóðsinnieignirnar miklu benda í áttina til löngu lánanna. Ætli stríðið á milli holdsins og andans yrði ekki erfitt, þegar landbúnaðurinn fer að heimta löngu lánin?

Hæstv. fjrh. sagði, að bændur yrðu að sameina svo mörg störf og yrðu að hafa hjá sjer margfalda verkaskiftingu; þeir yrðu t. d. að sinna jarðrækt, kvikfjárrækt, garðyrkju o. s. frv., og hann fór mörgum orðum um, hversu landbúnaðurinn væri marghliða — og þetta er auðvitað rjett, og þetta á sjer stað víðar en hjer. En því verður hinsvegar ekki neitað, að því meiri sjerþekkingu sem vjer ráðum yfir í þessum málum, þess betur ættum vjer að geta komið ár vorri fyrir borð. Þessar staðhæfingar um verkaskiftinguna hjá bændum, er hálfveik vörn hjá hæstv. ráðh., og er alls ekki næg til að ýta frá sjer heilbrigðu fyrirkomulagi í bankamálum, með bankakerfi, sem mótað er af veraldarreynslunni.

Hæstv. fjrh. vjek aftur að spurningunni um fjármagnið. Hann spurði, hvort fjármagnið mundi minka við það, að Landsbankinn yrði gerður að seðlabanka. En þessu hefi jeg svarað skýrt á þá leið, að ef Landsbankinn á að liggja með stóra gengissjóði og draga inn seglin með lán, þó að fjármagnið í sjálfu sjer væri það sama, þá kemur það ekki atvinnuvegunum að gagni, þegar haldið er aftur af þeim.

Í þessu sambandi vjek jeg einnig að því, að Íslandsbanki yrði að draga inn seglin vegna lagafyrirmælanna um inndrátt seðlanna og hin óhægu „rediskonterings“-kjör. Þessi 1/2%, sem bankanum er ætluð, er ekki næg til þess, að hægt sje að veita áhættulán með slíkri „margine“. Varkárnin í fjármálum er auðvitað góð. En það getur verið eitur í viðskiftalífinu, ef of mikið er krept að því. Jeg rak mig nýlega á ummæli mjög merks bankafræðings um þetta atriði. Leggur hann sterka áherslu á, hvað nauðsynlegt sje að leggja ekki ýms fyrirtæki, sem eigi nægan lífskraft í sjer, á höggstokk varkárninnar. Sterkasta viðreisnin eftir krepputímann verður á þann hátt, að hlynna að því, sem ekki er orðið visið. — En þetta er ekki hægt að gera, ef þrengt er um of að bankastofnununum í landinu. Hjer verður því að viðhafa hina mestu varkárni. Og að því er atvinnuvegi vora snertir, sem mikið framtak er í, gera þeir stöðugt, eins og eðlilegt er, meiri og meiri kröfur til bankanna.

Jeg mintist hjer áður á lánin til ríkissjóðs. Ef frv. verður að lögum, má Landsbankinn aðeins veita ríkissjóði stutt lán. Íslandsbanki getur ekki veitt honum lán. Hæstv. ráðh. (JÞ) segist ekki ætlast til, að ríkissjóður þurfi að taka lán. Auðvitað ekki í þessu góðæri, sem nú er, þegar peningamar streyma inn í kassann. En ef mikið ætti að gera, og ef svo krepti að, þá gæti nú enn komið fyrir ríkissjóðinn að þurfa að taka lán. Svo sýnist reynslan vera annarsstaðar. Í sólskini má ekki gleyma skúrunum.

þá vjek hæstv. fjrh. að undirbúningi þessa máls. Hann kvaðst hafa gert grein fyrir því, að hann varð að fá mann til að rita sögu málsins áður en það yrði lagt undir dóm sjerfræðinga, og tók þetta nokkurn tíma, sem og eðlilegt var, en hann kveðst hafa komist að þeirri niðurstöðu við athugun þessa máls, að betra væri að láta fræðimenn („theoretikere“) athuga málið, heldur en þá menn, sem mestmegnis hefðu aðeins „praktiska“ þekkingu til að bera; því hann áleit, að „praktisku“ mennirnir hefðu vart næga þekkingu á því, hvernig hjer hagar til, og væri því álit þeirra að minna gagni hjer. En hið fyrsta, sem sá „praktiski“ maður mundi hafa spurt um, ef hans álits hefði verið leitað, hefði auðvitað verið það, hvernig hjer væri ástatt. Þeir menn, sem hafa alið aldur sinn í bankastarfseminni, mundu auðvitað manna best, af sinni eigin reynslu, vita, hvaða upplýsingar væru nauðsynlegar fyrir þá, til þess að geta svarað. Jeg held því, að það hafi verið mikill misskilningur hjá hæstv. ráðh., og síst meining þingsins, að sneiða fram hjá þeim „praktisku“ mönnum.

En þó jeg leggi svo mjög áherslu á að fá álit hinna „praktisku“ bankamanna um málið, þá geri jeg þó, eins og jeg hefi marglagt áherslu á, ekki lítið úr „theorium“ fræðimannanna. —„Theoriur“ fræðimannanna eru sprotnar af reynslu liðinna tíma. Og ef vjer lesum t. d. sögu Englandsbanka, er eftirtektarvert að sjá, hvernig menn hafa rekið sig þar á hvað eftir annað, áður en þeir komust að hinu rjetta. Þótt nefndir væru skipaðar og bentu á ráðin út úr ógöngunum, sem reynslan sýndi síðar að voru rjett, þá komust þær ráðleggingar ekki í framkvæmd fyr en löngu síðar. Jeg hefi því aldrei ráðist á fræðikenningar prófessors Nielsens, en aðeins bent á, að í ráðum sínum til vor breytti hann á móti kenningunum. Hann viðurkennir, að sparisjóður og seðlabanki fari hvergi saman annarsstaðar, og að seðlabankinn sje hvervetna bankanna banki. En þrátt fyrir aðvörun veraldarreynslunnar, vill hann þó gera Landsbanka vorn, með hinni miklu sparisjóðsstarfsemi, að seðlabanka. Ef hann hefði sagt: Þið skuluð fara svona að, af því það er í samræmi við veraldarreynsluna, þá horfði málið svolítið öðruvísi við.

Mjer finst varhugavert að hrinda þessu máli áfram, eins og nú standa sakir, án frekari rannsóknar. Jeg held, að þótt hæstv. fjrh. takist að koma máli þessu nú í gegnum þingið, þá myndi það reynast Pyrrusar-sigur.

Hæstv. fjrh. benti á einn „praktiskan“ bankamann, er hann taldi bera höfuð og herðar yfir aðra fjármálamenn. Þessi maður var Gluckstadt. Það mun satt vera, að þessi maður hafði Evrópuorð á sjer, og mun hafa verið fenginn til að hjálpa fjármálum Austurríkis við. En mjer virðist reynslan hafa sýnt, að honum var skipað óeðlilega hátt sæti, þar sem hann hafði stofnað til fjárglæfra, bæði fyrir sinn banka og sjálfan sig, og yfirleitt bar framkoma hans eigi ráðvendninnar stimpil. En sú ráðvendni, sem Gluckstadt skorti, er þó einmitt eitthvert fyrsta skilyrði hvers fjármálamanns. Þó hans ráðleggingar hafi því ekki komið að gagni, þá sannar það ekki neitt, eftir því sem síðar er orðið upplýst um hann.

Að því er aðstöðu fyrverandi stjórnar snertir, er það rjett hjá hæstv. fjrh., að fyrverandi fjrh. lagði þetta mál undir álit Landsbankans. Þetta er eigi ámælisvert, því að sjálfsagt var að gera það, og verður altaf að gera, er svo stendur á. Jeg hefi leitað mjer upplýsinga um þetta atriði hjá fyrverandi fjrh. Hann sagði, að langur tími hefði liðið, uns Landsbankinn skilaði málinu frá sjer, og hefði það eigi komið til stjórnarinnar aftur fyr en um það leyti, sem hún fór frá. Þótti þó sjálfsagt að leggja þetta mál fyrir fjárhagsnefnd þessarar háttv. deildar, til athugunar, enda þótt stjórninni hefði ekki unnist tími til þess að taka afstöðu til málsins.

Jeg get vel skilið það, að tími hafi eigi verið langur til undirbúnings málinu hjá núverandi hæstv. fjrh. (JÞ). En jeg treysti því, ef sú rökstudda dagskrá, er hjer liggur fyrir, verður samþykt, að eigi verði gengið fram hjá hinum „praktisku“ bankamönnum. Þegar fræðimaðurinn Nielsen segir berum orðum, að hann þekki eigi „de existerende ökonomiske Tilstande“, er varlega fylgjandi ráðum hans, og er hann, auk þessa, ráðleggur oss að breyta á móti veraldarreynslunni í þessum efnum, þá má því fremur gjalda varhug við ráðum hans.

Jeg hefi áður nokkuð vikið að skipun nefndar þeirrar, sem ætlast er til að skipuð verði í mál þetta, ef dagskráin verður samþykt. Jeg tel það fullkomlega eðlilegt, að jafnhliða skipun seðlaútgáfunnar verði einnig bankalöggjöfin í heild sinni athuguð. Jeg er sannfærður um það, að ef nefnd þessi verður vel skipuð, sem jeg eigi efast um, að við rannsókn þá, sem hún framkvæmir, muni bankamálin í heild skýrast, og tel jeg það skifta miklu.

Hv. frsm. minnihl. (JJós) sagði, að mál sem þetta ætti að vera fyrir utan allar flokkadeilur, og er jeg þar á sama máli. Hv. 2. þm. G.-K. (BK) tók og fram, að hann með afstöðu sinni hefði sýnt, að þetta væri ekki flokksmál stjórnarflokksins.

Það er rjett, sem hv. frsm. minnihl. sagði, að við á síðasta þingi lögðum áherslu á, að málinu yrði lokið á þessu þingi, jafnframt því sem við ýttum fast á, að málið yrði rannsakað. En nú er sú rannsókn, eftir minni skoðun, ekki fullnægjandi, og vil jeg því heldur, að málið dragist eitt ár enn og fái betri undirbúning en að því sje nú flaustrað af. Jeg held og, að það muni eigi koma að sök, þótt málið bíði þetta eina ár. Bankarnir munu reyna að ráða fram úr gjaldeyrismálinu þann tíma, eins og hingað til.

Hv. frsm. minnihl. hefir misskilið mig, þar sem hann segir, að jeg hafi sagt, að Íslandsbanki einn styddi sjávarútveginn. Jeg sagði einmitt, að Landsbankinn tæki og verulegan þátt í þeim stuðningi, og færði það sem rök gegn frv. stjórnarinnar, því að óheppilegt er, að seðlabankinn reki áhættuatvinnuveg. Það eru einmitt vinir Landsbankans, sem eru því mótfallnir, að þessari nýju ábyrgð sje bætt á hann.

Jeg skal eigi fara fleiri orðum um þetta. En jeg vona, að dagskráin verði samþykt, og jafnframt, að samkomulag náist um þáltill. þá, er kemur á eftir. En fari svo, að dagskráin verði feld, mun jeg óhikað greiða atkvæði gegn frv. Það er að vísu mildari dauðdagi, að vísa málum frá með dagskrá en að fella þau, og kysi jeg heldur, að svo færi hjer, en þó mun jeg eigi hlífast við, eftir mínum mætti, að fella frv., ef hin leiðin er ófær. Sumir kynnu að segja, að rjett væri að hleypa frv. til 3. umr. Jeg mun þó greiða atkv. gegn því nú þegar, ef dagskráin verður ekki samþykt, því ef sú leið verður farin, að skipa nefnd í málið, þá tekur nokkurn tíma að koma heimild til þeirrar nefndarskipunar gegnum þingið. Jeg teldi mjög illa farið, ef málið dagaði uppi að þessu sinni, án þess að rannsókn verði ákveðin. Ef málstaður stjórnarinnar er eins góður og hún segir, þarf hún eigi að óttast rannsókn. Ef svo er eigi, er þörf á rannsókn. Þetta mál er svo mikið stórmál, að mjer finst, að stjórnin geti eigi annað en hlustað á þær raddir úr öllum flokkum, sem heimta rannsókn. Jeg treysti því, að hv. Alþingi sýni ekkert hik í því, að láta frekari undirbúning og rannsókn fara fram í málinu.