28.04.1925
Efri deild: 62. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1322 í C-deild Alþingistíðinda. (3051)

26. mál, Landsbanki Íslands

Ingvar Pálmason:

Jeg þarf ekki mörgum að svara af skeytum þeim, sem beint hefir verið til okkar tveggja í meirihl. nefndarinnar, vegna þess, að hv. 5. landsk. (JJ) hefir svarað þeim flestum.

Í upphafi fyrstu ræðu sinnar gat hæstv. fjrh. (JÞ) þess, að þeir, sem vildu fresta málinu, vildu ekki, að Landsbankinn tæki við seðlaútgáfunni yfirleitt. Jeg veit ekki, á hverju þetta er bygt, sjeu það ekki getsakir, heldur skoðun, sem jeg ætla að sje. En sá hefir lítið af rökum, sem við slíkar skoðanir ætlar að styðjast.

Jeg hefi litið svo á, að Landsbankinn muni taka við seðlaútgáfunni, þegar fram líða stundir. Jeg hefi ekki djúpa þekkingu á þessum málum, en jeg hefi reynt að mynda mjer skoðun, og ef jeg á að fara eftir henni, þá verð jeg að leggja til, að málinu sje frestað og það sje rannsakað. Af því má ekki leiða það, að jeg vilji undir engum kringumstæðum, að Landsbankinn taki seðlaútgáfuna. Sje mín skoðun rjett, leiðir rannsókn það í ljós, en ef hún er röng, þá gæti fresturinn orðið til þess, að málið yrði samt betur undirbúið.

Jeg býst við, að fyrir okkur öllum vaki að leita þess, sem rjett er í þessu máli, og annars ekki, og í sambandi við það má geta þess, að það liggja fyrir mikil gögn um nauðsyn á ítarlegri rannsókn. Og jeg fæ ekki betur sjeð en að rannsókn á milli þinga, sú, er þegar hefir fram farið, hafi ekki orðið fullnægjandi. Frv., eins og það liggur nú fyrir, hefir ekki verið borið undir sjerfræðing, einmitt af því, að tími hefir ekki verið til þess. Hinsvegar ætti öllum að. vera ljúft, að þetta væri rannsakað sem best. Það er alveg ástæðulaust að segja, að fyrir þeim, sem frestinn vilja, vaki aðeins það eitt, að hindra frv. Jeg vildi minna á þetta, af því mjer finst það ekki hafa verið tekið nægilega fram.

Þá kem jeg að því, sem hæstv. fjrh. sagði um afstöðu mína, borna saman við þá í fyrra.

Hann vitnaði í orð í framsöguræðu minni í fyrra og gerði mjer þann heiður, að gera þau að sínum orðum nú. Það vildi hann ekki þá.

Vinningurinn við þá rannsókn, sem gefinn er kostur á, er sá, sem áður er tekið fram. En jeg leyfi mjer að gera mjer vonir um, að hæstv. fjrh. (JÞ) verði að fresti þeim loknum kominn ennþá nær mínum skoðunum.

Annars er ekki ástæða til fyrir mig að fara langt út í þetta. Því að hv. 5. landsk. (JJ) er þegar búinn að sýna fram á, að hjá okkur er um enga stefnubreytingu að ræða.

Í fyrra taldi jeg rjett, að málinu væri haldið áfram í þingi, en endað með því að fresta því til frekari rannsókna. Þá var það miklu fyr á ferð á þingtímanum. Nú er orðið svo áliðið, að það er ekki kostur að sökkva sjer ofan í málið. Það er viðurkent, að rannsókn milli tveggja þinga er naumast nægileg. Jeg tel því rjett að halda áfram á sömu braut og gert var í fyrra, en meðferð málsins sje á valdi sjerstakrar nefndar, en ekki hæstv. fjrh. (JÞ). Fresturinn milli þinga nægði honum til þess að kynna sjer málið. Hann er því búinn að taka fasta afstöðu til þess. En um aðalatriðið, hvernig koma eigi fyrir seðlaútgáfunni, þar skiftast skoðanir. Þó get jeg ekki falist á skoðun hv. 2. þm. G.-K. (BK), þó jeg viðurkenni, að það sje djarft af mjer og öðrum leikmönnum að dæma slíkt markleysu.

Það er ekki gott að segja, hvernig fer nú. Jeg geri ráð fyrir, að dagskrá.meirihl. verði samþ.— þingið skipi milliþinganefnd. Hæstv. fjrh. sagði í einni ræðunni, að dagskrá okkar væri óforsvananleg. Þetta getur verið, en jeg lít ekki þannig á. En hitt er óforsvaranlegt, að skilja við málið í greinarleysi. En það kalla jeg að skilja við málið í greinarleysi, ef engin skipun er um það gerð.

Þá kom hæstv. fjrh. inn á ýmsar aðfinslur, sem koma fram í sjernál. okkar. Jeg skal ekki jagast um það, en hinu þykir mjer lítil heimild fyrir, sem hv. þm. Vestm. (JJós) og hæstv. fjrh. halda fram, að við höfum í fyrra viljað samþykkja frv. breytingalítið. Það lítur að vísu svo út í nál., en er þó mjög óákveðið og aðeins til 3. umr. Þetta er orðhengilsháttur og ekki rök, og ef hægt er að gera sjer þetta að rökum, þá eru þau auðkeypt orðin.

Jeg veit, að hv. þm. Vestm. (JJós) kemur sem oftar með þingtíðindin til þess að lesa úr. Og jeg er ekki að saka hann um það, að hann kunni ekki að lesa. En hann vill stundum ekki lesa nema það, sem honum finst við eiga. En jeg held, að þessi orðhengilsháttur bjargi engum út úr málinu.

það var aðeins drepið á, að þetta ætti ekki að gera að flokksmáli. Jeg tek hiklaust undir það, og líka það, sem sagt hefir verið af meðnefndarmanni mínum, að til þess hefir heldur engin tilraun verið gerð af okkar hálfu. Það verður ekki borið á okkur með rjettum rökum. Jeg ætla ekki að standa og munnhöggvast um skoðanaskifti okkar hv. 5. lansk. (JJ). En við finnum okkur hvorugur sekan um skoðanaskifti og teljum annað sæmra en að nota óheyrilegan orðhengilshátt til þess að rökstyðja þá skoðun.

Jeg legg málið undir úrskurð hv. deildar. Verði dagskrá meirihl. samþ., höfum við lýst því yfir, að við munum koma með þáltill. Ef hún verður ekki samþ., verða þeir, sem fella hana, að ráða fram úr þessu máli. Þá verður einskis af okkur krafist.