28.04.1925
Efri deild: 62. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1325 í C-deild Alþingistíðinda. (3052)

26. mál, Landsbanki Íslands

Frsm. meirihl. (Sigurður Eggerz):

Jeg hefi fengið leyfi hæstv. forseta til þess að tala í 10 mínútur, og þakka jeg það hjer með.

Það stendur fast, sem jeg sagði, að gengissveiflurnar eiga svo föst ítök í viðskiftalífinu, að mjög örðugt er að ráða við þær. Dæmi hæstv. fjrh. (JÞ) um Finnland og Svíþjóð þarf ekki að sanna neitt. Viðleitni Finnlendinga mun hafa verið að halda finska markinu niðri. Hvergi hefir eins gott ástand verið og í Svíþjóð, af því að Svíar tóku eftir því á stríðstímunum, hvernig línurnar lágu.

Hvað viðvíkur kaupum á sterlingspundum, þá er sýnilegt, að slík kaup eru ekki hagstæð, þar sem gengi krónunnar fer hækkandi. Ef Íslandsbanki byði Landsbankanum kaup á innieign sinni erlendis, þá mundi Landsbankinn neita. En slík kaup væru hagstæð fyrir Íslandsbanka. Að kaupa núna pund til þess að borga enska lánið, eins og hæstv. fjrh. (JÞ) sagði, að gera mætti, væri hreinasta fjarstæða. Jeg hefi ekki sagt, að seðlabankinn eða Landsbankinn mætti ekki kaupa gjaldeyri, en jeg hefi haldið fram, að hann mætti ekki safna í stóran sjóð, því að það drægi of mikið fje frá atvinnuvegunum. Gömlu bankarnir verða að gjalda gamalla synda á ýmsan hátt. Nýr banki gæti haft reynsluna til viðvörunar. Hún yrði honum kjölfesta.

Hæstv. fjrh. (JÞ) talaði um árið 1920, sagði, að þá hefði krónan lækkað í verði. 1919–20 varð mesta tapið á síld og fiski. Þjóðirnar eru háðar sömu lögum og einstaklingurinn, að meðan tekjurnar eru meiri en útgjöldin, er alt vandræðalaust. En þegar tekjurnar bregðast, eru vandræðin fyrir dyrum. Því er altaf þörf á varkárni. Hvað lánaþörfinni viðvíkur, þá er það almannarómur, að bankarnir láni of lítið, og ekki sje hægt að draga úr dýrtíðinni, af því að ekki fáist lán til húsabygginga. — Hvað snertir nýjan banka, þá á slíkt frv. ekki að koma frá öðrum en stjórninni.

Þá talaði hæstv. fjrh. (JÞ) um, að nægt gæti það bankafyrirkomulag, sem verið hefði fyrir 80–90 árum. Það þykir mjer fremur broslegt. Er ekki sjálfsagt að hagnýta sjer þá reynslu, sem síðan er fengin. (JJ: Mitt er að yrkja, ykkar að skilja, sagði Gröndal!) Hv. 2. þm. S.-M. (IP) kallar það orðhengilshátt, að vera að vitna í ummæli hans og annara frá síðasta þingi. það er auðvitað þrautavörn hans, en breytir eigi að síður engu í málinu.