28.04.1925
Efri deild: 62. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1331 í C-deild Alþingistíðinda. (3055)

26. mál, Landsbanki Íslands

Jónas Jónsson:

Hæstv. fjrh. (JÞ) hefir nú gert málinu talsvert gagn með því að skýra þinginu frá, að hann virðist leggja mikla áherslu á það, að draga Landsbankann undan áhrifum ríkisvaldsins. En jeg skal ekki tala mikið um það nú, en vil aðeins benda á það, að þessi breyting er ákaflega stórfeld, og jeg get sagt hæstv. fjrh. (JÞ) það, að í hans eigin herbúðum út um land mælist þetta ákaflega illa fyrir, að vilja draga bankann undan ábyrgð ríkisvaldsins. Jeg get hugsað, að hann fái lítið þakklæti fyrir það úr ýmsum áttum. Hinsvegar hafa væntanlega einstöku kaupsýslumenn viljað komast í þann feita kjötpott, sem þetta fyrirkomulag hefði getað veitt þeim aðgang að. Hlutabrjefin gætu borgað sig tiltölulega mjög fljótt. Jeg vil því ekki draga í efa, að úr ýmsum áttum geti verið lögð mikil áhersla á þetta, en hitt er annað mál, hvort þær ýmsu áttir eru svo mjög hollar þjóðfjelaginu.

Þá sagði hv. þm. Vestm. (JJós), að jeg hefði verið gramur yfir þeirri ræðu, sem hann hefði haldið. En jeg er þvert á móti hryggur, þegar hv. þm. (JJós) heldur ljelegar ræður. Nú hefir hv. þm. (JJós), eins og hans flokkshöfuð, gengið inn á það, sem var aðalstefna okkar í fyrstu; þessvegna finst mjer það hálfgeri óþakklæti við okkur, sem höfum vísað veginn, að vera með nokkurn rembing, en jeg tek það ekkert illa upp og vil aðeins benda á og undirstrika það, að þessu er haldið fram í nál. okkar. Menn vilja ekki, að bankinn hætti að vera þjóðareign. Þessvegna held jeg, að hv. þm. gangi illa að sanna það. Þegar verið er að tala um hrein og bein eignaryfirráð bankans, þá fer málið að snerta nokkuð mikið æðstu yfirráðin, þá er verið að breyta um þann grundvöll, sem búið er að halda síðan 1885. Eignin er aðalatriðið, og eignir skapar stjórnina.