21.02.1925
Neðri deild: 13. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 5 í D-deild Alþingistíðinda. (3061)

36. mál, Danir krafðir um forngripi

Flm. (Bjarni Jónsson):

Jeg er alveg í efa um, hvort hv. þdm. muni heyra mál mitt, svo hás sem jeg er, en þótt erindi mitt verði nú ekki flutt svo skörulega sem skyldi, má enginn ætla, að málstaðurinn sje ekki jafngóður. Hygg jeg, að flestir muni mjer sammála um það, að fullilt sje til þess að vita, að margir dýrmætir hlutir og dýrmæt handrit eru horfin í önnur lönd með heimildum, sem ekki verða vjefengdar, þ. e. með gjöfum og kaupum. Er þetta að miklu leyti sjálfskaparvíti þjóðarinnar, því að hún hefir á undanförnum árum, og alt til þessa, verið svo ræktarlaus við sig og sitt, að hún hefir jafnvel viljað skafa hina goðbornu íslensku af vörum sínum, og ekki horft í að selja öðrum dýrmæta gripi til eignar sama og engu verði. Hún hefir látið þá gripi af hendi, sem ómögulegt er að vega upp með gulli nje öðrum gersemum, því þeir eru margir hverjir einstakir í sinni röð í heiminum og meira virði en nokkrir fjársjóðir, hve gildir sem eru. En þótt svo illa hafi til tekist, sýnist engin þörf á að bæta ofan á þetta tómlæti um að heimta aftur það, sem horfið er landinu á rangan hátt, og sækja heim aftur þá gripi, sem rænt hefir verið með þeim hætti, að þeir eru afturkræfir, því hjer þarf því eigi við að bæta, að leita eigi rjettar síns þar sem hann er. Nú tel jeg samt allra líklegast, að margur telji þessa tillögu mína ástæðulausa og telji víst, að þar sje alt með góðum heimildum, og sje það því aðeins einhver sjerviska eða kredda úr mjer að bera fram þáltill. um að krefjast aftur fornra íslenskra muna úr dönskum söfnum. Skal jeg ekki neita, að svo hefir mjer fundist sumir taka í þetta mál. En eins og menn vita, hefir á síðari þingum einum 4–5 sinnum verið óskað eftir því, að stjórnin gerði gangskör að því að ná aftur íslenskum handritum og skjölum, sem sannanlega eru ekki eign Dana. Og veit jeg ekki betur en að stjórnin nú hafi tekið vel í það mál. Sýndist mjer því rjett, að um leið yrði krafist gripa og muna, sem með jafnlitlum heimildum eru í dönskum söfnum. En þar eð jeg bjóst við, að hæstv. stjórn kynni illa við að taka þetta algerlega upp hjá sjálfri sjer, þá taldi jeg, að það væri til góðs eins, að þingið bæði hana að gera gangskör að því að krefjast aftur munanna um leið og skjalanna.

En þótt sumir líti svo á, að lítil ástæða sje til þess af minni hálfu að bera fram þessa þáltill., þá hefi jeg þá trú, að hv. þdm. muni ekki fylla þann flokk, og jeg er sannfærður um, að þeir muni sannfærast um þörf hennar, þegar jeg hefi flutt fram þau dæmi, er jeg hefi um málið. Og til þess að þagga niður andmæli, sem ókunnugir kynnu að koma með, vil jeg geta þess, að jeg bar till. fram fyrir orðastað ágæts fræðimanns, sem þekkir vel sögu vora, en fór síðan til þeirra manna, sem fróðastir eru um þessa hluti sjerstaklega, sögukennara háskólans og fornmenjavarðar. Með þeirra hjálp hefi jeg fljótlega fundið nægilega mörg og merk atriði til þess, að þingið láti rannsaka þetta mál og semja um að fá aftur muni vora. Segja allir þessir menn vert að rannsaka til hlítar, hve mikið af dýrgripum hafi hjeðan flust til annara landa, einkum Danmerkur.

Eftir skýrslu frá sagnfræðingunum verður ásælni konungs í dýrgripi hjeðan af landi þegar vart í upphafi siðskifta, á 16. öld, vafalaust þó ekki af listamannsáhuga, heldur af fjárþröng vegna herkostnaðar mikils. Kristján III. hjet á fyrirmenn landsins, einkum biskupa, að duga sjer eftir styrjöld þá, er hann hafði átt í, til þess að brjóta undir sig ríki á Norðurlöndum. Brugðust þeir allir sæmilega við því, bæði Skálholtsbiskupar (Ögmundur og Gissur) og Jón biskup Arason og enn aðrir síðar. Eru útgreiðslur þessar til konungs raktar nægilega í ritinu Menn og menntir siðskiptaaldar á Íslandi, I. bls. 246–7 og III. bls. 188–90. En um dýrgripi má geta þess, að þá fjekk konungur frá Skálholtskirkju gullkaleik, sem vá 4 merkur og 1 lóð (sbr. kvittun konungs sjálfs 6. ág. 1541 í konungsskjalabók: Register paa alle Landene 4, 10). Ægilegra miklu varð flóðið 1551, er þeir Kristófer Trondson og Axel Juul með tilstyrk Ólafs biskups Hjaltasonar rúðu Hólakirkju og þrjú klaustur í Hólabiskupsdæmi (Munkaþverár-, Möðruvalla- og Þingeyraklaustur); var það ógrynni fjár í gulli og silfri, sem þá barst konungi, eins og talið er upp í Menn og menntir III. bls. 189–90. En af dýrgripum má hjer nefna gullkaleikinn mikla frá Hólum, monstranziu með 8 glertöflum, 9 gylta kaleika með diskum, 3 krókstafi úr rostungstönn, silfurslegna, og „3 kalkonske Nödderbeslagne med Sölv og en beslagen med Kobber“. þetta alt má rekja eftir kvittun konungs sjálfs, dags. 17. okt. 1551, í konungsskjalabók: Register paa alle Landene 5, 126.

Næst má t. d. geta þess, að af listaáhuga ljet konungur Raben aðmírál, sem hjer var stiftamtmaður, safna hjeðan gripum og fornmenjum í listasafn sitt (Kunstkammeret). Mætti sjálfsagt ýmislegt tína saman um þá söfnun. Hjer skal þó aðeins á það mint, að í fornum úttektum Skálholtsstóls er meðal annars getið minnishorna (þ. e. drykkjarhorna) allmargra. Jón biskup Vídalín, sem ekki var jafnmikill hirðumaður sem kennimaður, sendi Raben með brjefi, dags. 25. ág. 1720, 17 þessara horna; eru nú 16 þeirra í þjóðmenjasafni Dana (Nationalmuseet); eru þetta hinir prýðilegustu gripir, skreyttir og útskornir. Í sama brjefi segist Jón biskup senda Raben öxina Rimmugýgi, sem talin er eign Skálholtsstóls í úttektum stólsins frá 1674, en þó virðist öxi þessi (hvernig sem til er komin) hverfa aftur til stólsins og glatast löngu síðar, þá í eign Gríms Thorkelíns.

Loks mætti geta þess, að þegar fornfræðafjelagið, Det kongel. nordiske Oldskriftsselskab, var stofnað, var lagt nokkurt kapp á það af forstöðumönnum þess að ná hjeðan fornmenjum til Danmerkur. Mun það t. d. af þeim rótum runnið, að Valþjófsstaðarhurðin fræga lenti í höndum Dana. Hurð þessi er einn hinn merkasti forngripur og listaverk, ekki yngri en frá ca. 1200–1250. Oldnordisk Museum í Kaupmannahöfn fjekk hurðina 1851 og ljet í skiftum nýja kirkjuhurð úr eik og tvo altarisstjaka, þegar Fornleifafjelagið íslenska var stofnað, gaf Oldnordisk Museum til fomgripasafnsins eftirlíking af hurðinni úr gipsi, í fullri stærð.

Sami maður upplýsir, að Norðmenn mættu gjarnan skila oss drykkjarhorni Eggerts lögmanns Hannessonar, hinum mesta dýrgrip. í Saurbæjarráninu mikla 1579, er Eggert var ræntur, hefir hann og mist hornið. Það er nú í Kunstindustrimuseet í Osló.

Þetta er um eldri tímann, en það, sem jeg hefi flest dæmi um, er tíminn eftir að fornmenjanefndin var skipuð, 22. maí 1807, sbr. Lovsaml. f. Isl. VII. bls. 131: Reskript til Overhofmarschal Hauch m. fl., ang. Oprettelse af en Commission for Oldsagers Opbevaring. Þar geta menn lesið, hvað nefndin átti að gera, því að þótt Ísland sje að vísu ekki nefnt við nefndarskipunina, þá er tekið fram, að sjerstaklega eigi að láta presta safna saman og gefa skýrslur um stórfeld minnismerki, sem ekki verði flutt, og varða, sem ekki verði hreyfðir. Var þó ekkert hafst að í málinu fyr en 1817, því að eins og menn muna, kom upp á sama tíma stríðið milli Dana og Englendinga, sem ekki lauk fyr en með Kielarfriðnum. Eftir það kemur frá þessari nefnd umburðarbrjef til ýmsra embættismanna á Íslandi um forngripi o. fl., dags. 5. apr. 1817, sbr. Lovsaml. f. Isl. VII. bls. 658, og fylgir brjefinu skrá um þœr fornaldarleifar, sem nefndin óskar skýrslna um. Vil jeg, með leyfi hæstv. forseta, lesa skrána upp, því ekki er víst, að öllum sje bókin kunn, þótt hv. þdm. hafi aðgöngu að henni í þingbókasafninu. Skráin hljóðar svo:

„FORNALDAR-LEIFAR, um hverjar hin konunglega nefnd til þeirra viðurhalds óskar sér tilhlýðilegrar skýrslu.

1) Haugar eður fornmannaleiði, sérílagi þeir, er hafa það sköpulag, er sýnir berlega, að þeir sé af mönnum gjörðir — eður að lík hafi verið í þeim skiplögð, ellegar þeir sem eru eður hafa verið umkringdir með settum steinum — svo og mannagrafir eður steinþrór, er finnast kynnu á víðavangi. [Aðgætandi er við opnun slíkra hauga, að gröfin ei sé gjörð beint frá toppnum, þar stórar hellur oftastnær liggja yfir bynginu sjálfu, heldur ættu menn þá helzt að grafa op á austur- eður suðurhlið haugsins]. — 2) Stórir steinar eður klettar, sem líklegt er að reistir sé af mönnum, eður önnur mannaverk sé á. Hér til heyra í Íslandi þau svokölluðu Grettistök. Nefndin æskir sér greinilegrar skýrslu um slíkra steina afstöðu, tölu, stærð og sköpulag, hvarvið og ætti að aðgætast, hvort þeir efri steinar, er liggja á undirstöðu klettum, ekki megi hrærast, ef fastlega er á þeim tekið, og þannig leiki á nokkurskonar völturum. Nokkrir slíkir klettar voru í heiðni kallaðir hörgar. Sérílagi óskast greinileg skýrsla um þá svokölluðu blótsteina á fornum hofeður þíngstöðum — og um aðrar heiðindómsins leifar, er ennþá kynnu meinast að vera til. — 3) Fornir þíngstaðir eður dómhríngar á víðavángi, er fyrrum hafa verið umkríngdir með steinum eður veböndum í hríng eður ferkant. Þessháttar leifar finnast líklega enn í dag á Þórsnesi í Snæfellssýslu. — 4) Rúnasteinar, eður steinar, á hverjum fornir rúnastafir eru eður hafa verið sjáanlegir, hvar helzt sem þeir finnast kunna, hvort sem steinarnir eru heilir eður brotnir. Flestir rúnastafir eru þannig útlítandi:

(Rúnaletur).

Stundum finnast slíkar ritgjörðir í hellrum og á stórum björgum. — 5) Sömuleiðis aðrar fornar, grafnar eður úthöggnar ritgjörðir með rúnum, höfðaletri eður öðrum lítt kunnum stöfum, í kirkjum, kirkjugörðum eður annarstaðar, á trjá- eður málmsmíði, klukkum, kaleikum, skírnarfötum o. s. frv. — eins þótt þær sé ofnar eður saumaðar á höklum, altarisklæðum, veggjatjöldum o. s. frv. — Höfða- eður múka letur er nokkurskonar settaskrift, snúin eður köntuð á undarlegan hátt. — 6) Gamlar myndir og bílæti, af hverju efni sem vera kunna, hvort heldur þau eru tálguð, grafin, úthöggvin eður útskorin, máluð, ofin eður saumuð. — 7) Allskyns leifar úr pápiskri öld, t. d. krossmörk, helgra manna myndir, reykelsis- eður vígsluvatns-ker, paxspjöld eður altarissteinar, pergamentsskjöl eður bækur, o. s. frv. — 8) Rústir eður leifar af fommannabyggingum, er á einhvern hátt kynnu að virðast merkilegar, sérílagi af virkjum, málm- eður rauðasmiðjum, undirgaungum, o. s. frv. — 9) Allt hvað upp er grafið eður héreptir kann að uppgrafast úr jörðu eður haugum, t. d. vopn úr steinum eður málmi, herklæði, hríngar, festir, nisti, verktól, drykkjar- eður blástrarhorn, bikarar, myntir eður peníngar, bílæti o. s. frv. — 10) Sögusagnir meðal almúgans um fommenn (aðrar en þær sem til eru í rituðum sögum), merkileg pláz, fornan átrúnan eður hjátrú á ýmsum hlutum, sérlega viðburði o. s. frv., einkum nær þær viðvíkja slíkum fomaldarleifum.

Um alla þessháttar hluti, hvar sem þeir eru, hvort heldur þeir geymast í Kirkjum, eður annarstaðar, og hverjum sem þeir kunna til að heyra, væntir hin fyrrtéða nefnd, að henni eptir konúnglegri fyrirskipan tilsendist þær eptiræsktu skýrslur, svo fljótt sem skeð getur, ritaðar á íslenzku, dönsku eður latínu, á viðlagt blað, í innsigluðum bréfum híngað til Kaupmannahafnar með þessari utanáskrift: „Til den kongelige Commission for Oldsagers Opbevaring i Kjöbenhavn“.

þessar skýrslur voru nú gefnar, og eftir fyrirskipun nefndarinnar var henni síðar sent m. a.:

1819: Kirkjutjald (refill) úr Hvammskirkju í Dalasýslu.

Altarisklæði úr Kálfafellskirkju. Korporalhús frá sama stað.

Altarisklæði úr Reykjahlíðarkirkju.

Altarisklæði úr Höfðakirkju.

1820: Altarisklæði úr Stafafellskirkju.

1822: Kaleikur og patína úr Eiðakirkju.

1823: Helgidómaskrá úr Keldnakirkju.

1826: Altarisd., brún og klæði frá Miklabæjarkirkju.

1828: Ýmsir kirkjugripir frá Hvammi í Norðurárdal.

1844: Legsteinar 4 með rúnum.

1850: Altarisklæði frá Hálsi.

1855: Altarisklæði frá Völlum.

1856: Kirkjugripir úr Hóladómkirkju.

Auk þessara gripa voru nefndinni sendir ýmsir aðrir dýrmætir kirkjugripir og forngripir, og eru þeir nú allir í þjóðmenjasafninu í Kaupmannahöfn (Nationalmuseet), flestir í 2. deild þess.

Þessi dæmi, sem jeg nú hefi talið eftir fróðra manna sögu, sýna ótvírætt, að vjer eigum marga dýrmœta gripi í dönskum söfnum, sem þangað hefir verið komið til geymslu.

Þetta er alt saman íslensk eign, íslenskir gripir. Konungur Íslands hefir ekki rjett til þess að gefa Danmörku þessa eign. Rjetturinn frá Íslands hálfu er ótvíræður.

Allir vita, sem lesið hafa um Kílarfriðinn, að þegar samið var milli Danmerkur og Svíþjóðar, voru gerð ákvæði um Noreg og Ísland, sem enga þýðingu eða gildi hafa fyrir þau ríki. Tvö óviðkomandi ríki geta ekki samið um þriðja ríki svo að gilt sje. Það liggur í augum uppi, að jeg get t. d. ekki samið við sessunaut minn um hús ráðherrans þarna, og er það þó engu fráleitara en hitt. þarf raunar ekki að rökstyðja þetta, það er svo augljós hlutur og viðurkent um allan heim. Má nefna sem dæmi frá Dönum sjálfum, að í friðarsamningunum milli þýskalands og Austurríkis voru ákvæði um Danmörk, sem alls ekki voru uppfylt. En Danir gátu einskis krafist, af því að þeir voru eigi samningsaðili. Eru auðvitað mörg fleiri dæmi til, þó að jeg nefni þetta, af því að það er kunnugt. Að alþjóðalögum er það, sem fram fer frá 1814–1918, óskuldbindandi fyrir Ísland. Segi jeg þetta sem athugasemd, en ekki af því, að mjer detti í hug, að slíku þurfi að beita í væntanlegum samningum. Jeg efa ekki, að gripum vorum verði skilað með góðu geði, þegar sýnt er með rannsókn, hvað oss ber. þetta er ekki nema sjálfsögð sanngirniskrafa, og mjer dettur ekki í hug, að Danir sýni oss neina tregðu í þessu máli. Þeir hafa ótilkvaddir skilað merkilegum grip til Finnlands, og vænti jeg þess, að þeir komi ekki ver fram gagnvart Íslandi.

Jeg bið háttv. þingmenn að minnast þess, að það, sem jeg hefi talið, eru aðeins nokkur dæmi frá fræðimönnum. Eflaust er hjer um að ræða miklu fleira, sem í ljós kemur við rannsókn málsins.

Jeg sje þá ekki ástæðu til, í byrjun, að fara fleiri orðum um þetta mál, það er svo sjálfsagður hlutur, að það nái fram að ganga. Vænti jeg þess, að þingið veiti stjórninni nauðsynlegan stuðning og stuðli þannig að því, að gripir þessir fái sitt rjetta heimilisfang. Hjer kemur ekki til greina neitt vanþakklæti við Dani, sem geymt hafa hlutina. þeir eiga að sjálfsögðu til engrar skuldar að telja þess vegna.

Jeg vona, að hv. þm. samþykki þáltill. og hvetji stjórnina, ef umræður verða, til þess að leggja áherslu á að fá sem flest af þessum dýrgripum heim aftur.