16.04.1925
Efri deild: 53. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 37 í D-deild Alþingistíðinda. (3077)

107. mál, viðbótarbygging við geðveikrahælið á Kleppi

Sigurður Eggerz:

Það er aðeins örstutt athugasemd. Jeg held, að það sje ekki rjett, sem hv. 6. landsk. (IHB) sagði, að áhuginn sje nú meiri en áður fyrir byggingu landsspítalans. Jeg held, að áhuginn hafi altaf verið jafnmikill, og er það að þakka því, hvernig kvenþjóðin hefir haldið á þessu máli frá öndverðu. Og að enn skuli ekki hafa verið byrjað á byggingu landsspítalans, stafar eingöngu af fjárhagsörðugleikum ríkissjóðs, eins og hæstv. forsrh. (JM) tók fram.

Jeg lofaði núverandi hæstv. forseta deildarinnar (HSteins), að byrjað skyldi á viðbótarbyggingu Klepps árið 1923. En því miður var mjer ekki unt að standa við það loforð, eins og jeg skýrði frá þegar á næsta þingi. Og ástæðurnar voru þær sömu og nú, fjárhagsörðugleikar ríkissjóðs. Og það var fleira á þeim árum, sem heimild var fyrir í lögum að láta gera og jeg hafði fullan áhuga á að framkvæma, en alt bar að sama brunni, ekkert var hægt að gera vegna hinna miklu fjárhagsvandræða.

En nú horfir alt öðruvísi við, og nú er alt bjartara framundan. Síðastliðið ár hefir verið svo hagstætt í alla staði, að langt mun síðan, að þjóðarbúskapurinn hafi gengið betur. Að vísu verður ekki með sannindum enn sem komið er sagt, hve mikið hefir græðst á rekstrinum, vegna þess að ýmsar skýrslur vantar enn. En líklegt er, að þjóðarhagurinn af ársbúskapnum muni nema um 24 miljónum króna, og er það meira en allar skuldir ríkissjóðs. Þetta mun einsdæmi, og ári vel áfram, sem engin ástæða er til að efa, eins og þetta ár byrjar, þá er síst að furða, þó að menn sjeu bjartsýnir, er þeim verður hugsað til slíkra framkvæmda, sem þáltill. þessi nefnir.

Í landsspítalamálinu hefir það tvent gerst nú um þessar mundir, er jeg tel mestu máli skifta. Í fyrsta lagi var það yfirlýsing hv. 6. landsk. (IHB) um það, að landsspítalasjóðsnefndin væri reiðubúin að leggja nú þegar fram á þessu ári alldrjúga upphæð, svo hefja mætti byggingu spítalans, og í öðru lagi hefir hv. Nd. samþ. allmyndarlega upphæð til byggingarinnar, sem jeg efast ekki um, að þessi hv. deild láti standa óbreytta í fjárlögum. Með þessu er því málið hafið, og engin hætta á, að kvenþjóðin og Alþingi beri ekki gæfa til að bera það fram til sigurs.

Hvað viðbótarbyggingu Klepps snertir, þá er nú ekki fært að fresta henni lengur.

Mjer þóttu rök hæstv. forseta okkar (HSteins) fyrir þáltill. svo veigamikil, að jeg minnist ekki að hafa heyrt mál þetta áður betur rökstutt.

Og þar sem landsspítalasjóðsstjórnin hefir nú lýst því yfir, að hún leggi fram fje þegar á þessu ári, og hv. Nd. er búin að samþ. allríflegan styrk til byggingarinnar, sem þessi hv. deild hlýtur að fallast á, þá sje jeg ekki betur en að mál þetta sje komið út úr umr. inn í framkvæmdimar. Og yfir slíkum málalokum hljóta allir að gleðjast.