02.03.1925
Neðri deild: 23. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1138 í B-deild Alþingistíðinda. (308)

4. mál, fjáraukalög 1924

Atvinnumálaráðherra (MG):

Í fjárlögum fyrir yfirstandandi ár eru veittar 3 þús. kr. til eftirlits með skipum og bátum og öryggi þeirra. Þegar þessi upphæð var veitt í fyrra, var gengið út frá því sem sjálfsögðu, að þennan kostnað þyrfti einnig að greiða árið 1924. Hjá því varð ekki komist, þar sem þetta er lögákveðinn kostnaður. Ástæðan til þess, að þessi upphæð er ekki í fjárlögum fyrir árið 1924, er sú, að lögin, sem fyrirskipa þessa greiðslu, eru tiltölulega ný, frá árinu 1922, og voru því varla komin til framkvæmda þegar þau fjárlög voru afgreidd. Þessi brtt. fer fram á, að sama upphæð verði veitt í þessu skyni árið 1924, sem veitt er í fjárlögum þeim, sem nú gilda, enda hefir hún þegar verið greidd úr ríkissjóði. Vænti jeg þess, að hv. deild samþykki þessa brtt., og sje jeg ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um hana.