22.04.1925
Efri deild: 58. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 40 í D-deild Alþingistíðinda. (3080)

107. mál, viðbótarbygging við geðveikrahælið á Kleppi

Jónas Jónsson:

*) Jeg talaði nokkur orð um brtt. mína við fyrri umræðu málsins. En vegna þess, að aðalefni brtt. 337 er fólgið í brtt. þeirri, er jeg flyt ásamt hv. 6. landsk. (IHB) og hv. þm. Snæf. (HSteins), hefi jeg ákveðið að taka brtt. 337 aftur.

Það mun öllum þykja sanngjarnt, að Reykjavíkurbær leggi til landsspítalans náttúrugæði sín, eftir því sem föng eru á, með því að bærinn mun eigi leggja annað til spítalans opinberlega, en hefir hinsvegar meiri not af spítalanum, er hann er kominn upp, en nokkur annar landshluti.

Borgarstjóri hefir gefið þær upplýsingar, að vatnsmagn Lauganna muni vera 5–8 sinnum meira en þörf er á til þess að hita upp barnaskólann. Er því óhætt að gera ráð fyrir, að hægt verði að nota Laugavatnið til upphitunar á báðum stöðum. En jafnvel þótt svo væri ekki, virðist þó sjálfsagt, af fjárhagslegum ástæðum, að láta landsspítalann sitja fyrir. Barnaskólinn þarf ekki upphitun nema 7 mánuði ársins, en landsspítalinn hinsvegar alt árið.

Sú teikning af landsspítala, sem báðar deildir hafa hallast að, er bygð á því, að heitt vatn verði notað til upphitunar. Fari svo, að samningar náist ekki um það atriði, breytist áætlunin bæði um stofnkostnað og rekstrarkostnað. Því höfum við flm. viljað skora á stjórnina að fylgja þessu máli fast eftir. Ef hjer væri um verkfræðilegan (tekniskan) ómöguleika að ræða, horfði málið öðruvísi við, en slíka skoðun hefir enginn verkfræðingur látið uppi.

*) Óyfirlesin ræða.