22.04.1925
Efri deild: 58. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 44 í D-deild Alþingistíðinda. (3083)

107. mál, viðbótarbygging við geðveikrahælið á Kleppi

Jónas Jónsson:

*) Jeg er glaður yfir þeim upplýsingum, sem hæstv. forsrh. (JM) hefir gefið í þessu máli. En hinsvegar álít jeg alls ekki, að þær upplýsingar geri till. okkar óþarfa, enda þótt jeg efist ekki um, að það sje rjett, sem hann hafði eftir borgarstjóra. En það svar mun hafa verið öllum ókunnugt nema hæstv. forsrh. (JM). Þó hygg jeg, að engin atkvgr. hafi enn farið fram um málið í bæjarstjórn.(JM: Nei).

Jeg held, að stjórninni ætti að geta verið styrkur í þessari till.

Hjer er vinsælt mál á ferðinni, og síður hætta á, að komið gæti fyrir, að bærinn gæfi neitandi svar, ef sýnt væri fram á, að stofnun landsspítalans gæti einmitt oltið á svari bæjarstjórnar.

Hinsvegar þarf ekki að skoða það sem tortrygni gagnvart bæjarstjórn, þótt þingið togi í skikann sín megin þar, sem hagsmunir bæjarins og ríkisins fara ekki saman. Auðvitað geta altaf hlaupið snurður á þar á milli. Frammistaða bæjarstjórnar í lóðamálinu gefur líka ástæðu til að hafa vaðið fyrir neðan sig. Mörgum hefir þótt það hart aðgöngu, að bæjarstjórnin skuli heimta endurgjald fyrir lóð undir landsspítalann suður í holtum.

*) Óyfirlesin ræða.