24.03.1925
Neðri deild: 41. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 203 í B-deild Alþingistíðinda. (31)

1. mál, fjárlög 1926

Bjarni Jónsson:

Þótt jeg hafi verið tekinn inn í stjórnina með nokkrum hætti hjer, býst jeg ekki við, að jeg fái sjerstök fríðindi þar að lútandi, nema þó tel jeg víst, að hæstv. forseti lofi mjer að vera ódauðlegum eins og hinum ráðherrunum, úr því að jeg á að sitja fyrir margra manna ákalsi. Jeg hugði nú, að hv. 3. þm. Reykv. (JakM) væri ekki svo mannýgur, að hann legði í mig, því að jeg sneiddi alveg hjá honum í minni ræðu. En hann rjeðist að mjer með allmiklum fors, og skal jeg svara honum örfáum orðum. Þó verður það ekki í áttina eins móðugt og hjá honum. Hann fann að því, sem jeg hafði sagt, að jeg hefði ekki sjeð nein sönnunargögn, sem jeg hefði getað stuðst við, sem satt er. Vildi hann því um kenna, að jeg væri blindur, sæi ekki neitt og vildi ekki sjá. Jeg hefi engin sönnunargögn sjeð, og það hefir heldur enginn boðið mjer að skoða þau. Hefði háttv. þm. komið með þau, hefði jeg verið fús til að lesa þau og taka til greina. Hann segir, að jeg sje blindur og sjái ekki neitt, en „sjálfum gott þótti“, hann sjer ekki neitt sjálfur. Eins og hann hefir tekið fram í sínum mörgu ræðum, er hann sannfærður um, að maðurinn hefir framið glæp; og úr því hann veit, að stjórnin hefir vanrækt skyldu sína, — hví kemur hann þá ekki með vantraust? Það væri rjetti vegurinn. Hann gæti líka sjeð til, hvort þingið vildi ekki fallast á, að stjórnin kæmi fyrir landsdóm fyrir þetta, því hvorttveggja getur átt sjer stað, ef hans staðhæfingar eru rjettar, svo sem hann er sjálfur sannfærður um. En þetta sjer hann ekki. Hann virðist heldur ekki sjá það, að það er ekki sjerstakur heiður fyrir Alþingi að hlaupa eftir blaðagreinum og lausu tali um viðburði. Það þarf að hafa bókstaflegar sannanir fyrir hendi, ef Alþingi ætti að taka nokkra ákvörðun um málið án þess að skemma sóma sinn.

Háttv. þm. talaði um skilningsleysi mitt, þar sem jeg sagði, að þetta væri sama sem að setja þingmenn í dómarasæti, þegar þeir ákveða, hvort höfðað skuli sakamál. Hann bygði á því, að till. færi fram á rannsókn á stjórnina. Háttv. flm. (TrÞ) tók það fram, — og hann talaði stillilega um málið þangað til hann fór að svara mjer —, að af rannsókn nefndarinnar gæti það leitt, að Alþingi höfðaði sakamál. Þá er ekki um annað að ræða en að þingið ætti að taka fram fyrir hendur dómsvaldsins. Ef hv. 3. þm. Reykv. (JakM) hefir ekki heyrt þessi orð flm. till. (TrÞ), hlýtur hann ekki eingöngu að vera sjónlaus, heldur líka heyrnarlaus, eða hann vilji þá ekki heyra nema það, sem honum þykir gott vera. Þá sagði háttv. þm., að dæmið úr Íslandssögunni hefði ekki átt við. Hann tók sitt dæmi til að sýna, hversu loflegt það væri, þegar stjórnin tæki á sig rögg og höfðaði rannsókn án þess að nokkur bæri sig upp. En dæmið sýnir líka þá hliðina, hversu illa hefir stundum farið, þegar ein stjórn sýnir svona röggsemi. Reyndar er jeg ekki svo hræddur um, að líkt geti farið á þessum dögum eins og á þeirri tíð, er Jón Arason var hálshöggvinn, en það getur þó ýmislegt leitt af því, að stjórnin sje of frökk að höfða sakamál. Mjer er sagt, að eftir kæru var höfðað sakamál við vinnustúlku fyrir það, að hún tók spil, jafnvel þó að húsbóndinn vildi ekkert hreyfa því. Menn muna, að vestur á fjörðum var maður nokkur tekinn fastur fyrir 25 aura reikningshalla, sem hann gat ekki gert grein fyrir. Það var ekki stjórnin, sem sótti þetta sakamál, en það voru þó menn í dómarastöðu. En þingið má vara sig á að ríða of mikið undir stjórnina; hún getur orðið of ólm í sakamálsrannsóknir.

Þá vildi hv. þm. færa rök fyrir því, að menn hefðu ekki þorað að fara í mál við verksmiðjuna, sem mundi vera af því, að það væri vafasamt, hvort það borgaði sig að fara í skaðabótamál, því að upphæðin væri ekki meiri en svo, að næmi málskostnaði. Ekki fæ jeg skilið, hvernig hann getur gert ráð fyrir vafasömu skaðabótamáli, eftir því, sem hann þykist hafa sannað, að rökin liggi í þessu máli. Veit hv. þm. ekki, að sá seki er dæmdur í málskostnað? En þótt hv. þm. hafi haft rjett fyrir sjer í þessu, að sumir hafi ekki þorað að eiga á hættu fjárhagslega um skaðabótamál, þá er þetta ekki nema einskisverður útúrdúr, sökum þess, að margir af viðskiftamönnunum voru svo sterkir á svellinu, að þeim hefði ekki hrosið hugur, þótt þeir hefðu orðið að borga málskostnað.

Þá kemur fram þessi sjóndepra hjá háttv. þm., er hann sjer ekki, að ef því er svo farið, að menn þyrðu ekki að fara í mál, þá hefði hann átt að koma með till. um, að þeir fengju gjafsókn og þyrftu því ekkert að borga, hvernig sem færi. Ein leið er enn, sem háttv. þm. sá ekki, að ef viðskiftamenn verksmiðjunnar eru eins sannfærðir um sök mannsins eins og hann er, háttv. þm., þá kostar það ekkert að kæra manninn og heimta rannsókn.

Úr því háttv. þm. ætlar að koma á eftir, ætla jeg að geyma mjer dálítinn lið sem athugasemd. (JakM: Við verðum þá báðir dauðir). Jeg verð líklega ódauðlegur fyrir tilstilli hv. þm. Jeg geymi þetta atriði, og hugleysi má hann kalla það, ef hann vill.

Þá er háttv. 2. þm. Reykv. (JBald), Hann atyrti mig ekki, en sagði þá sögu, að maður á Akureyri, sem ætlaði í skaðabótamál, hefði ekki getað fengið málafærslumann. En áreiðanlega hefðu viðskiftamenn í Reykjavík getað fengið nóga málafærslumenn. Enda þótt stjórnin fyndi ekki neina ástæðu til sakamálsrannsóknar, þá skil jeg ekki, hvernig það ætti að stöðva skaðabótamál. Jeg býst ekki við, að menn sjeu svo lítilsigldir, að þeir hagi sjer svo eftir skoðun eins manns, jafnvel þó að hann sje í stjórn, að þeir hafi ekki þorað að kæra, ef þeir hafa ætlað sjer það.

Hv. þm. Str. (TrÞ) þóttist vera mjög móðgaður af mínum orðum, og veit jeg ekki, hvernig á því stendur. Hann kallaði mig lífakkeri og heiðursfjelaga Jónaíhaldsins, sem jeg hefi kallað. Jeg ímynda mjer, að jeg hefði vel getað fengið að vera heiðursfjelagi í Jónasar-íhaldinu, og jeg get vel trúað, að hv. þm. sárni, að jeg skyldi ekki vilja það. (TrÞ: Hv. þm. vildi það. Það var boðið, en ekki þegið). Vildi verða það? Hvenær þá? (TrÞ: Í fyrra). Háttv. fyrverandi .... má ekki fara svona með sannleikann. Jeg hefi aldrei viljað það. Mjer hefir staðið það til boða, og jeg veit, að hv. þm. Str. (TrÞ) er, eins og margir aðrir, reiður út af því, að boðinu var hafnað.

Þá vildi hv. þm. kalla mig „renegat“, eða trúníðing, og vitnaði í kirkjusögu. Hvernig stendur á því, að hann, sem hefir verið til síðustu tíma svo eldheitur heimastjórnarmaður, að hann skuli hamast eins og hann gerir á móti heimastjórninni nú? Hann, sem er svo lærður í kirkjusögu, ætti að geta sjeð, af hverju hann er svona ólmur nú.

Hv. þm. talaði mikið um það, að góðu börnin í mótstöðu-íhaldinu hans hefðu verið svo spök og setið þegjandi, en hann sagði, að jeg hefði gengið fram fyrir skjöldu til þess að verja stjórnina. Veit hann ekki, að jeg er hjer að verja sjálfan mig? Þar sem menn ráðast á mig upp úr þurru og draga mig og mínar till. inn í þessar umræður, er ekki hægt að búast við, að jeg sitji þegjandi undir ákalsi þeirra. Jeg hygg, að hv. þm. Str. (TrÞ) muni seint hitta mig svo, að jeg reyni ekki að bera mjer hönd fyrir höfuð. Það eru ósannindi, að jeg hafi talað um útlendan mann. Jeg veit ekki annað en að það gangi sömu lög yfir innlenda menn og útlenda.

Þá þóttist hv. þm. standa á svo góðum grundvelli með sína till., sem sje þeim grundvelli, er nefndin var skipuð á hjer á árunum og hann mintist á. Hún var einmitt skipuð á þeim grundvelli að vera hin mesta árás á stjórnina. (TrÞ: Borin fram af stuðningsmönnum stjórnarinnar). Málið var flutt með miklu afli og látum hjer í þinginu. Þeirri nefnd var falið að rannsaka allar gerðir þáverandi stjórnar. Einnig mig og mínar gerðir. En í Nd. var svo skipuð nefnd, sem átti að vera til hlífðar ráðherranum, sem hafði fullkominn meiri hluta í þeirri deild. Þeirri nefnd var beint að bankastjórninni en ekki landsstjórninni. Það var svar við nefndarskipuninni í Ed. Á þessum grundvelli þykist hv. þm. standa, og er þó altaf að stagast á því, að till. sín eigi ekki að vera árás á stjórnina. Jeg get frætt hv. þm. um það, að þrátt fyrir góðan vilja þeirrar nefndar, sem æfður rannsóknardómari stóð fyrir — og nú er í hæstarjetti — þá varð öll niðurstaðan ekki neitt. Reyndar varð dálítil niðurstaða af rannsókninni á mjer og mínum gerðum, og hún var sú, að prentaðar voru nokkrar skýrslur, sem jeg hafði sent stjórninni. — Annað gátu þeir ekki gert við mig, sem ekki var von. Það vantaði ekki viljann til að draga mig eitthvað inn í þetta, en það tókst ekki betur en svo, að upp úr því hafðist bara kostnaður við að prenta þessar skýrslur. Þær fylgja Alþt., svo hægt er að sjá, að jeg fer með rjett mál.

Fyrst sú nefnd, sem svona vel var skipuð, kom engu til leiðar, hvaða niðurstaða skyldi þá verða af því, að skipa nefnd til að rannsaka mál, sem á sínar rætur langt í burtu frá þessum bæ, og þyrfti því að fara þangað, ef menn ætluðu eitthvað að rannsaka.

Svo vill hv. þm. sanna það, að jeg hafi greitt atkvæði með þessari nefndarskipun í Nd., með því, að jeg hafi alls ekki setið mig úr færi að kjósa núverandi hœstv. forseta þessarar deildar (BSv) í nefndina. Jeg get frætt hv. þm. um það, að jeg gat vel verið á móti nefndarskipuninni og kosið samt þennan mann í nefndina, þegar búið var að samþykkja, að hún skyldi skipuð.

Þá kom hv. þm. Str. (TrÞ) að því, að forseti Fiskifjelagsins hefði verið kallaður ósannindamaður í Noregi, og telur sjálfsagt, að Alþingi blandi sjer inn í þœr deilur og fari í mál vegna forsetans. Jeg hafði nú haldið Kristján Bergsson þann mann, að hann mundi bera hönd fyrir höfuð sjer, ef honum fyndist mikið við liggja um æru sína og mannorð; að hann hefir ekki gert það, sannar best, að honum þykja meiðyrði þessi ekki miklu máli skifta.

Svo segir sami hv. þm., að nú sje að koma fram það, sem felast ætti í dagskrártill. minni. Og hvernig segist honum frá um það? Jú, hann kveðst nú vita um einhvern mann, eða máske menn, fyrir norðan, sem ætli að fara í skaðabótamál út af viðskiftunum við Krossanesverksmiðjuna. Hjer sýnir hann lögkænsku sína, eins og fyrri, og hversu vanur hann er að grauta saman því, sem ekki saman á.

Þá var hv. 2. þm. Eyf. (BSt) eitthvað að minnast á hinar mörgu þingmálafundatill., er samþyktar hefðu verið víða um land í þessu Krossanesmáli og allar væru á sömu lund. En honum gleymdist að geta þess, hvaðan till. þessar væru komnar. Jeg er vitanlega ekki kunnugur í öllum þeim kjördæmum, sem slíkar till. hafa samþykt. En þó veit jeg með fullri vissu, að í mitt kjördæmi, í Dölum vestra, eru þær komnar beina leið frá háttv. þm. Str. (TrÞ) og öðrum fleirum, sem hjálpa honum að stjórna Framsóknaríhaldinu. Það voru andstæðingar mínir og þeir, sem best hafa stutt hv. þm. Str., þegar hann hefir verið á ferð þar um Dalina, sem komu till. þessum á framfæri. Þeir hafa áður fengið ýmsar lífsreglur frá Jónasaríhaldinu, og hv. þm. Str. hefir stundum núna síðustu árin þurft að bregða sjer skyndiferðir í Dalina, þótt annan árangur hafi borið en hann gerði sjer vonir um.

Þess vegna er skiljanlegt, þótt slíkar till. verði landfleygar, sem þann veg eru sendar af 2–3 mönnum í Reykjavík á flesta eða alla þingmálafundi á landinu, en ef rekja skal til rótarinnar, sjá menn fljótt, að lítt er á rökum bygt skraf þeirra manna um þjóðarvilja, sem bygður er á slíkum till.

Hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) sagði eitthvað á þá leið, að till. sú, er jeg bar fram í Krossanesmálinu, hefði ekki átt að heita rökstudd dagskrá, heldur einhverju öðru nafni, er hann kunni þó ekki að nefna, sem er og heldur varla von, því að till. er borin fram samkvæmt þingsköpum Alþingis, og þau heimila ekkert annað „skráarheiti“ í þessu efni. Annars má hann tala um stjórnarskrá fyrir mjer, eða framsóknarskrá, íhaldsskrá eða hverja aðra skrá, er honum hugsast að nefna, en gæta skyldi hann þá að því, að skráargatið yrði honum ekki ofvaxið.

Hann var annars rogginn af þingsályktunartillögu Framsóknaríhaldsins, en gætti þess síður, að í allri hrifninni blandaði hann saman skaðabótamáli og sakamálsrannsókn. Er því síst furða, þó að berist á hann kviðurinn aftur, er hann ruglar saman dómsvaldi og löggjafarvaldi. Það þarf ekki rannsókn til að hefja skaðabótamál, en það er dómsvaldið, sem ákveður, hvort sakamálsrannsókn skuli hafin eða ekki. Sýnir þetta best lögkænsku hv. þm., er hann kann ekki að greina í sundur löggjafarvald og dómsvald.

Þá vildi hann, þessi sami hv. þm. (ÁÁ), rjúfa þing til þess að fá hreinan meiri hluta, er ráða skyldi svo, hvað gert yrði í þessu máli. Það kemur mjer ekki við, það er stjórnarinnar að úrskurða eða ákveða um, hvort þing skuli leyst upp eða ekki. En annars þykir mjer þm. þessi fullungur og lítt reyndur á þingi til þess að sendast svona umsvifalaust og að órannsökuðu máli í opinn dauðann Auk þess eru alþingiskosningar dýrar og landi og einstaklingum kostnaðarsamar í hvert sinn, og óþarfi að stofna til þeirra svo að segja að raunalausu. Það mundi líka sýna sig, að sömu mennirnir koma aftur; að vísu gæti skift um þm. í einum eða tveim þingsætum. en líklega yrði það sinn úr hvorum flokki. Við þessir sex sjálfstæðismenn, sem kítum nú. mundum allir koma og fylgjast að málum.

Hann taldi líka, þessi þm., hæfileika slíkrar þingnefndar ábyggilega til þess að komast að þeirri niðurstöðu í rannsókn sinni, er byggja mætti á, en í svari mínu til hv. þm. Str. (TrÞ) benti jeg á nefnd, sem miklu betur var skipuð en hjer getur verið um að ræða, en ekki hefði þó komist að neinni niðurstöðu. Hvað mundi þá verða um nefnd, sem kosin væri af þessum tveim aðalandstöðuflokkum þingsins?

Báðir þessir háttv. þm. eru í Jónasaríhaldinu og segja, að jeg sje reiðubúinn að styðja hvaða stjórn sem er, og hafi enda staðið nærri þeirra flokki um skeið. Það er satt, að í fyrra vildu sumir þeirra fá stuðning minn. (TrÞ: Við vildum ekki þiggja!). Nei, Jónasaríhaldið vildi ekki stuðning minn; flokkurinn þóttist svo sterkur, að hann taldi sig geta bjargast hjálparlaust. En raunin varð þó önnur.

Þegar svo við borð lá, að landið yrði stjórnlaust, og Jónasaríhaldið að gefast upp, sneri jeg mjer til hins íhaldsins og bauð því stuðning minn. Það má hver lá mjer þetta, sem vill. Jeg gerði það vegna vandræða þeirra, sein framundan voru, og stjórnleysis þess, er Jónasaríhaldið hafði leitt yfir landið, en ekki vegna þess, að mjer væri það ljúft. Annars er það algengt og víðar en hjer, að stjórn er studd af fleiri en sínum flokksmönnum, þegar enginn einn flokkur er svo sterkur, að hann geti bjargast á eigin stoðum. Og við því er ekkert að segja. Læt jeg svo máli mínu lokið að sinni, en vænti, að hæstv. forseti geri mig ódauðlegan, ef ræður hv. andstæðinga minna verða á þann veg, að jeg þurfi að kveðja mjer hljóðs af nýju.