02.05.1925
Neðri deild: 70. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 49 í D-deild Alþingistíðinda. (3101)

113. mál, frestun embættisveitinga og sýslana

Jakob Möller:

það er eitt atriði í þessari brtt. sem mjer finst ekki hafa verið athugað, þar sem eingöngu er talað um þau embætti, sem stjórnin telur unt að komast af án. Mjer skilst, að það muni ekki ná þeim tilgangi, sem í aðaltill. felst. Því ef hugsað er um að sameina embætti, þá ætti það sama að ganga yfir þau embætti eins og hin, sem hægt er að komast af án. Það þarf að koma í ljós, að þetta eigi við, hvort sem um er að ræða að leggja niður eða sameina. Í upptalningunni í till. hv. þm. Str. (TrÞ) er t. d. talið sýslumannsembætti í Strandasýslu og Dalasýslu, sem oft hefir verið talað um að sameina. Það má þá líta svo á, að hægt sje að komast af án sýslumanns í Dalasýslu, en ekki í Strandasýslu, og þess vegna verði Strandasýsla veitt, þó Dalasýsla sje ekki veitt. (ÁF: þetta er orðaleikur). Það er ekki orðaleikur; því hv. flm. hefði verið ofurauðvelt að orða þetta á aðra leið: „sem hún telur hægt að komast af án eða að rjett sje að sameina við önnur embætti“. Það hefði verið nóg.