08.05.1925
Efri deild: 71. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 60 í D-deild Alþingistíðinda. (3115)

126. mál, landhelgisgæsla fyrir Austurland

Flm. (Ingvar Pálmason):

Jeg þakka hæstv. forsrh. (JM) fyrir undirtektir hans í þessu máli, enda bjóst jeg varla við, að meiru gæti orðið ágengt að sinni, og sætti jeg mig því fullkomlega við loforð hæstv. stjórnar um meira og betra eftirlit fyrir Austurlandi. Tilgangur minn með þessari till. til þál. var sá að beina athygli stjórnarinnar meir en áður að nauðsyn landhelgisgæslu fyrir Austurlandi. Það má vel vera, að nú sje ekki sem stendur hægt að láta nein varðskip, innlend eða erlend, hafa bækistöð á Austurlandi, en jeg vænti þess þá, að það verði gert síðar, er betur hægist um og varðskipastóll ríkisins hefir aukist. Jeg get í þessu sambandi upplýst það, að það væri þýðingarlítið að setja á fót landhelgisgæslu fyrir Austurlandi með smábátum einum saman. Sjávarútvegsnefndin ræddi þetta atriði á fundum sínum og gerði tillögur um málið til hæstv. stjórnar. Jeg bar fram fyrir nefndina vandræði okkar austanmanna vegna ónógra landhelgisvarna, og virtist nefndin fús á að taka tillit til þessa og jafnvel láta veita fje til þess, að haldið yrði úti strandvarnarbáti á þessu svæði. En jeg sýndi skýrt fram á það, að þetta væri lítt vinnandi vegur, þar eð smábátur kæmi ekki að notum nema að litlu leyti, og væri því mestu af því fje, sem til bátsins yrði varið, á glæ kastað. Því það er augljóst, að smábátar þola eigi þær útivistir, sem strandvarnarskip þurfa að hafa fyrir Austurlandi. Að öðru leyti skal jeg ekki orðlengja þetta, en þakka hæstv. stjórn undirtektir hennar í málinu, og vænti jeg því, að till. beri góðan árangur.