13.05.1925
Efri deild: 76. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 62 í D-deild Alþingistíðinda. (3126)

133. mál, skattskýrslur

Flm. (Jónas Jónsson):

*) Jeg hefi borið fram þessa till. eftir óbeinum tilmælum eins hins elsta lögfræðisembættismanns hjer í bæ, og skal í mjög stuttu máli skýra, hvað í henni liggur. Eins og öllum er kunnugt, hafa ekki verið prentaðar skýrslurnar um eignar- og tekjuskattinn, heldur eru þær látnar liggja frammi stutta stund hjer í bæjarþingsstofunni. Nú er það þannig, að það kemur ekki fram í þessari skýrslu, hvað er eignarskattur og hvað er tekjuskattur, og hefir þetta komið sjer dálítið illa, sjerstaklega þegar menn hafa verið óánægðir með skattinn og hafa ætlað að kæra yfir honum, því að þá hafa þeir ekki getað haft jafngott yfirlit um aðra, til samanburðar, eins og ef skattarnir hefðu verið aðgreindir. Það, sem hjer er farið fram á, er eingöngu það, að skattstofan í Reykjavík sje hjer eftir látin tilfæra skattinn í tvennu lagi, eins og skattanefndir úti um land hafa gert og gera. Það er einnig dálítil hagskýrsla fólgin í því, að þessu sje þannig fyrir komið.