13.05.1925
Efri deild: 76. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 64 í D-deild Alþingistíðinda. (3130)

138. mál, hressingarhæli fyrir berklaveikt fólk

Flm. (Jónas Jónsson):

*) Jeg ætla aðeins að láta fáein orð fylgja þessari till. Hún er framhald af þáltill., sem mentmn. bar fram á síðasta þingi og þá var samþ. í þessari hv. deild. Þar var farið fram á að láta húsameistara ríkisins og landlækni athuga, hvort heppilegt væri að reisa einskonar framhaldsverustað að lokinni heilsuhælisvist. Þeir gerðu þetta og komust að þeirri niðurstöðu, að einna hentugasti staðurinn fyrir slíkt hressingarhæli og starfsstöð mundi vera Reykir í Ölfusi. En þar sem búist er við, að ekki verði að sinni neinar verklegar framkvæmdir í málinu, kemur sú hlið málsins ekki til greina enn sem komið er. Okkur í mentmn. fanst það skylda okkar að halda málinu vakandi, og þar sem hæstv. stjórn veit, hvað þessir ráðunautar álíta um heppilegan stað, þá er sjálfsagt, að þeir haldi áfram að athuga málið, og annað stigið er þá ekki annað en það að gera frumdrætti að byggingu og fyrirkomulagi slíks hælis. Þar sem hjer er um að ræða fólk, sem er í afturbata og margt að hálfu leyti fært til vinnu, þarf tilhögun öll í þessu hæli að vera við það miðuð, en fyrirkomulagið ekki að vera með sama hætti sem á öðrum heilsuhælum.

Eins og jeg hefi tekið fram áður, er það óþarft, á þessu stigi málsins, að gera nákvæma kostnaðaráætlun, en hinsvegar gott að fá þessa menn til að segja álit sitt um það, hvernig þessu hæli yrði best fyrir komið, og svo vitanlega að gera meira fyrir þetta mál síðar, ef eitthvað yrði farið að hefjast handa í því. Það er ekki gert ráð fyrir því af nefndarinnar hálfu, að þetta verði nein veruleg vinna, frekar en það, sem þeir gerðu að tilmælum síðasta þings; en þeir gætu þó ýtt málinu vel áfram, án þess að það tefði þá nokkuð verulega frá störfum þeirra.