15.05.1925
Efri deild: 79. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 70 í D-deild Alþingistíðinda. (3140)

139. mál, verndun frægra sögustaða

Ingvar Pálmason:

Jeg ætla ekki að gefa tilefni til neinnar togstreitu, því brtt. mína ber aðeins að skoða sem bendingu um, hvað jeg vildi sjerstaklega leggja áherslu á. Jeg benti og á, að jeg teldi æskilegt, að ríkið fargaði ekki úr eigu sinni stöðum, sem nefndir eru í fornum sögum og frægir eru síðan, og eins hitt, ef tækifæri byðist, að ríkið reyndi að eignast slíka staði. Jeg skildi svo ræðu hv. 1. þm. Rang. (EP), að það væri í ráði að endurbyggja staðinn að Bergþórshvoli. Væntanlega verður þá tekið tillit til þess, er bærinn verður bygður, að þetta er forn og frægur sögustaður. Ef brtt. mín verður skilin svo, að hún gefi tilefni til togstreitu eða verði til að spilla fyrir þessu máli, tek jeg hana heldur aftur, því jeg vil ekki verða valdur að því, að málið strandi hennar vegna.