15.05.1925
Efri deild: 79. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 71 í D-deild Alþingistíðinda. (3142)

139. mál, verndun frægra sögustaða

Jónas Jónsson:

*) Jeg vil svara hæstv. forsrh. (JM) því, að það yrði nefnd sagnfróðra manna, sem úr því yrði látin skera, hvað væri forn stíll. Fræðimenn vita vel, hvernig hýst var á söguöldinni á Hlíðarenda og á Bergþórshvoli. Það er svo sem auðvitað, að bærinn á Flugumýri var öðruvísi en bæir voru á söguöldinni. Fornaldarfróðir menn mundu t. d. miða við lýsingar Njálu, því menn koma auðvitað að Hlíðarenda til að sjá staðinn þar sem Gunnar bjó. Jeg er yfir höfuð ánægður með þær undirtektir, sem þessi till. mín hefir fengið hjá deildinni, og vil jeg skjóta því til hv. 1. þm. Rang. (EP), að hann undirbúi það, að landið taki Hlíðarenda undir sína vernd í náinni framtíð. Það er ekki eingöngu, að æskilegt væri, að þar risi bær í fornum stíl, heldur er þar og að öðru leyti mikil þörf gistihúss, sjerstaklega handa erlendum ferðamönnum.

Óyfirlesin ræða.