13.05.1925
Neðri deild: 79. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 72 í D-deild Alþingistíðinda. (3147)

130. mál, útvegaskýrslur um kjör útvegsmanna

Flm. (Jón Baldvinsson):

Þessi till. er fram borin vegna þess, að það þykir brenna við í ýmsum verstöðvum hjer á landi, að útvegsmenn sæti verri kjörum heldur en ástæða er til. Hjer er ekki farið fram á annað, með þessari till., en að skora á stjórnina, í samráði við stjórn Fiskifjelags Íslands, að útvega upplýsingar viðvíkjandi búðaleigu og öðrum kvöðum á báta þar, er sjerstaklega geta verið athugaverðar, svo sem þær kvaðir, sem lagðar eru á sölu sjávaraflans, þar sem slíkar stöðvar eru eignir einstakra manna. Jeg hefi sjeð einn eða tvo samninga um þetta, og það er sannast að segja, að þar eru ýms ákvæði, sem menn varla geta ímyndað sjer að nokkur væri svo heimskur að skrifa undir, en menn eru neyddir til þess, vegna þess, að í nánd við verstöðvamar liggja fiskimið, sem menn verða að sækja til, og eru menn því neyddir til þess að skrifa undir alt það, sem eigendurnir setja upp. Þar er t. d. áskilinn kauprjettur á öllum fiski, allri lifur, hrognum og öðru, sem aflast. Alt er þetta skuldbinding, sem gerir það að verkum, að ekki er frjálst að bjóða út og selja afla sinn öðrum. Þessir menn fá því oft lægra verð en þeir annars myndu fá. Í þessum samningum, sem jeg hefi sjeð, er lagt á bátana ljósagjald, þar sem rafmagnsljós eru. Jeg á hjer við Sandgerði. Þar eiga þeir að borga alt ljósagjald, samkvæmt reikningi stöðvarinnar, sem miðast við þóknun til stöðvarinnar sjálfrar, viðhald á tækjunum og kannske fleira; það getur verið óákveðið, og svo og svo hátt, ef svo vill verða. Þetta er svo mikilsvert mál, hvernig kjörum þessir menn sæta, að það er ekki rjett að láta það alveg afskiftalaust, heldur ætti hið opinbera að hafa hönd í bagga þar um. Þetta eru ástæður okkar flutningsmanna fyrir till., en þó er ekki farið fram á meira en að stjórnin útvegi skýrslur um þetta og geri svo tillögur um að ráða bót á því, sem henni þykir aflaga fara. Jeg vænti, að háttv. deildarmenn fallist á þessa till., og vona, að hæstv. stjórn framkvæmi það, sem hjer er farið fram á.