08.05.1925
Neðri deild: 75. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 78 í D-deild Alþingistíðinda. (3154)

128. mál, seðlaútgáfa og önnur bankalöggjöf

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg get vel fallist á að láta umræður um þetta mál frá minni hálfu bíða til síðari umr., sem jeg þá leyfi mjer að vænta, að verði ekki fyr en á mánudag, ef við eigum að sitja nú langt fram eftir kvöldinu. Get jeg því í raun og veru látið bíða mínar athugasemdir við ræðu hv. flm. (JakM). En þó verð jeg að segja það, að mjer þykir það frá upphafi vera nokkur lýti á flutningi þessarar tillögu, að hv. flm. skuli finna sig til knúðan í framsöguræðu sinni að taka afstöðu til þess atriðis, sem nefndin á að rannsaka, en það gerði hann með ummælum sínum um nál. hv. 2. þm. G.-K. (BK) og með ummælum sínum um álitsskjal Axels Nielsens prófessors.