14.05.1925
Efri deild: 77. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 84 í D-deild Alþingistíðinda. (3166)

128. mál, seðlaútgáfa og önnur bankalöggjöf

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg vildi einungis gera stutta grein fyrir því, hvernig jeg hefi látið í ljós afstöðu mína til þessarar þáltill. við 2. umr. í hv. Nd. Till. fer fram á það, að Alþingi kjósi 5 manna milliþinganefnd í sameinuðu þingi til þess að gera tillögur um, hvernig seðlaútgáfu ríkisins skuli fyrir komið, og einnig að öðru leyti að undirbúa endurskoðun á bankalöggjöf landsins. Eins og kunnugt er, var frv. um seðlabanka lagt fyrir þetta þing, en hefir ekki orðið útrætt og verður því að bíða næsta þings. Þó að jeg telji, að stjórninni hefði verið vel kleift að annast það, sem nauðsynlegt er í þessu máli milli þinga, þá get jeg frá mínu sjónarmiði ekki haft neitt á móti því, að kosin sje sjerstök nefnd til þess að hafa á hendi frekari undirbúning málsins. Er þá ætlast til þess, að nefndin skili tillögum sínum til stjórnarinnar í tæka tíð, til þess að þær verði athugaðar af stjórninni áður en endanlegar tillögur hennar koma fram fyrir þingið. En hvað snertir hina hlið verkefnis hennar, að undirbúa bankalöggjöf landsins, þá vil jeg biðja hv. þm. að gera sjer grein fyrir því, að eins og bankamálum okkar er nú komið, að hjer starfa einungis bankar eftir sjerstakri löggjöf, sem veitir þeim mjög mikil rjettindi, þá mun þýðingarlítið að fara að undirbúa almenna bankalöggjöf, því að það hefir sýnt sig hvað eftir annað, að á meðan þessi sjerrjettindi haldast, sem nú eru, treysta engir sjer til þess að stofna aðra banka, nema með því að fá hliðstæð forrjettindi, en þau verða ekki veitt með almennri bankalöggjöf, heldur með sjerstakri löggjöf í hvert sinn. Jeg sje því ekki, að það liggi sjerstaklega mikið á því nú að undirbúa almenna bankalöggjöf, þótt hún þurfi að vera tilbúin áður en sjerleyfi Íslandsbanka er á enda. Þó er það eitt, sem þarf að vera tilbúið fyrir næsta þing. Það eru ákvæði um tilhögun veðlána, því að þá verður 4. flokkur veðdeildar Landsbankans uppseldur, og því getur ekki beðið lengur en til næsta þings að ákveða um það, hvort stofna eigi nýjan flokk við veðdeildina og breyta löggjöf hennar að meira eða minna leyti, eða þá að setja á stofn sjerstakan banka í því skyni. Þetta þarf að undirbúa, og þó að jeg telji einnig þar, að stjórninni sje ekki ofvaxið að gera það, er gera þarf í því máli, þá get jeg vitanlega ekki haft á móti því, ef Alþingi kýs heldur að ljetta verkinu af stjórninni, með því að fela það sjerstakri nefnd. Þess vegna er afstaða mín sú, að jeg finn enga ástæðu til að hafa á móti nefndarskipuninni, ef það er gert með því fororði, að þetta tvent eigi sjerstaklega að vera verkefni nefndarinnar, að undirbúa þessi tvö mál undir næsta þing, en að þingið sje svo algerlega óbundið um það, hvort nefndin haldi áfram störfum eftir að þingi er lokið, og í hv. Nd. skildist mjer svo, að flutningsmenn, eða aðalflm., sem þar hafði orð fyrir þeim, fjellist á þennan skilning, sem jeg vildi leggja í till.