11.05.1925
Sameinað þing: 5. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 121 í D-deild Alþingistíðinda. (3177)

131. mál, steinolíuverslunin

Sveinn Ólafsson:

það er síst tími til nú að hefja langar umræður, því að ræður eins og þær, er hv. aðalflm. (SigurjJ) og hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) hafa haldið hjer, hafa teygt tímann úr hófi fram. Jeg vil yfirleitt vona, að flestir eða allir hv. þm. sjeu fyrir löngu búnir að gera sjer ljóst, hvílíkt nytjafyrirtæki Landsverslunin er og hvílík fásinna er að leggja hana niður. Sje borið saman á rjettan hátt ástandið, eins og það var áður, og ástandið nú, og það ætti að vera mjög auðvelt fyrir þá, sem urðu fyrir barðinu á svonefnda íslenska steinolíufjelaginu, þá þarf ekki lengra að leita um árangur Landsverslunar. Það er að minsta kosti auðvelt fyrir þá að gera þennan samanburð, sem búa á strjálbygðum ströndum landsins, langt frá höfuðstaðnum. Jeg er viss um það, að þeim er ekki úr minni liðið, hvernig viðskiftakjörin voru, þegar við áttum við þá. Jeg man að minsta kosti ósköp vel þrælatökin, sem þeir reyndu að hafa á okkur, og get sagt ýmsar ófagrar sögur frá þeim tíma, en jeg get ógnar vel skilið það, að þeir, sem ýmist hafa tröllatrú á frjálsri og opinni samkepni, að ekkert geti við hana jafnast, eða sem stundum víla ekki fyrir sjer að fara erindi þeirra, sem halda slíku fram, þegar svo stendur á, geti sætt sig við að víkja til hliðar þeim almennings-hagsmunum, sem tengdir eru við olíuna. Þetta má auðvitað segja að ekki sje vingjarnleg ætlun í garð þeirra, sem flytja þessa till., en þegar þess er gætt, hverju landsmenn hafa átt að venjast af þeim, sem sífelt hafa barist við Landsverslunina og reynt að hlaða henni, þá finst manni ekki ástæða til að gera sjer hærri vonir um tilgang þessara manna, og mjer finst í raun og veru ræða hv. flm. (SigurjJ) benda á einkennilega málafærslu af því tæi, sem bæði blöð og almannarómur kannast við frá undanförnum árum. Mjer kom í hug, meðan jeg hlýddi á hana, gamall og heldur ófagur leikur, sem ósiðlegir menn ljeku hjer áður og nefndur var skítkast. Jeg kann ekki annað sambærilegra að líkja við þetta. Hv. þm. (Sigurj J) bar hreint og beint stórsakir á framkvæmdarstjóra Landsverslunarinnar, bar honum það á brýn, og sagðist koma fram með þá ásökun hjer, að hann hefði lagt beinlínis óhæfilegt gjald á landsbúa og með því hreint og beint brotið lög, lögin um einkasölu á steinolíu. Jeg veit ekki, hvort hv. þm. (SigurjJ) hefir athugað það, þegar hann bar fram þessa sök á hendur forstjóranum, að þá yrði hæstv. atvrh. (MG) fyrir þessu hnútukasti, því að hann er vissulega yfirmaður Landsverslunarinnar, og jeg geri ekki ráð fyrir, að framkvæmdarstjórinn leyfi sjer að fara út fyrir það, sem hæstv. atvrh. (MG) leggur fyrir. Það er sýnt, að með þessu átti þó, jafnframt því að fyrirtækinu var komið á knje sjálfu, að reyna að sverta þann mann, sem fyrir Landsversluninni stendur. En nokkuð líkt má reyndar segja um ræðu hv. þm. N.-Ísf. (JAJ), því að mjög var hún í sama móti steypt og ræða hv. flm. (SigurjJ), en þó virtist hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) nokkuð vilja draga úr því, sem allra mest var öfgakent hjá hv. flm. (SigurjJ). Hv. flm. ljet það skína í gegn, að verðmunurinn á olíu hjá Landsversluninni, borinn saman við það verð, sem er í frjálsri verslun, væri frá 15 kr., og í einu tilfelli þóttist hann hafa l undið dæmi þess, að það munaði jafnvel 25 kr. á fati. Aftur vildi hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) helst gefa í skyn, að það mundi vera um 5 kr. á fati. (JAJ: Jeg sagði ekkert um það). Jú, hv. þm. (JAJ) gerði tvisvar ráð fyrir því; þeim ber því talsvert á milli, hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) og hv. flm. (SigurjJ). (SigurjJ: Hv. þm. (SvÓ) hefir ekki skilið hvað jeg sagði). Og sei, sei, jú, jeg skildi það mjög vel. (SigurjJ: Og sei, sei, nei.). En það var líka annað, sem sýndi, að það átti að reyna að sverta manninn, sem fyrir versluninni stendur, og að gera hana sem tortryggilegasta.

Hv. flm. (SigurjJ) var að tala um rýrnun þá á olíunni, sem Landsverslunin reiknar með, sagði að hún reiknaði með 15%, en hvorki hann nje hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) þóttust þekkja dæmi til annars eins og 15% rýrnunar á olíu. Það er þá verið að segja það, að þarna sje verið að fara með rangt mál, og að Landsverslunin, til þess að færa fram verðið á olíunni, gefi upp alt annað en það sem er.

Í þriðja lagi ljetu þessir hv. þm. skína í það, að Landsverslunin myndi gefa rangar, virkilega blekkjandi skýrslur um olíusöluna; það var þess vegna í meðallagi hæverskleg aðdróttun um skjalafölsun. Með þessu er reynt að sverta manninn, sem fyrir versluninni stendur, og þá um leið að gera stofnunina tortryggilega.

Hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) tók það fram, eins og tilgang fyrir þeim með framkomu till., að þeir vildu útvega mótorbátaútveginum ódýrari olíu og þannig undirbyggja hann. Nú mun það vera alment álit utan Reykjavíkur, að sá útvegur hafi einmitt síðustu árin getað blómgast vegna þess, að Landsverslunin hefir sjeð fyrir þörfum hans, og það er víst, að í flestöllum hjeruðum lítur allur fjöldi útgerðarmanna svo á, að það sje undir því komið, að Landsverslunin sjái um að útvega þeim olíuna, að útvegur þeirra geti blómgast og stöðugur staðið.

Jeg vil ekki tefja tímann með því að taka orði til orðs þær einstöku fullyrðingar, sem þessir tveir hv. þm. hafa leyft sjer að bera fram um þennan mann.

Vil jeg þá hverfa aftur að till. sjálfri og benda á eitt atriði í henni. Það er það atriði, sem lýtur að því að láta Landsverslunina halda áfram starfi sínu í opinni samkepni við aðra, eða til þess, eins og hv. flm. (SigurjJ) sagði, að tryggja sæmilegt verð á olíunni og sæmilegar birgðir. Hvernig stendur á, að þessi maður, sem ekki treystir Landsversluninni og lýsir hana óalandi og óferjandi, getur trúað þessari stofnun til þess að birgja landið og halda niðri verðinu? Stofnun, sem þeir segja að hafi lagt svo mikið á olíuna og gabbað landsmenn í viðskiftum sínum. Ósamræmið í þessu er það, að í öðru orðinu er verið að lýsa vantrausti á henni, en í hinu orðinu óbifanlegu trausti til að birgja landið og halda verðinu niðri. Jeg veit ekki, hvernig á að skilja þetta, því að jeg býst ekki við, að þeir láti Landsverslunina fara að keppa við danska fjelagið; jeg geri ekki ráð fyrir, að þeir vilji láta hana fara að reyna sig við það, heldur að hún fái að sjá um flutning á olíu meðfram ströndum, þar sem hinir vilja ekki líta við versluninni. Jeg get því ekki skilið, hvernig þeir fara að því að koma með tvær svo allsendis ólíkar till. í málinu. Mjer fyndist það rjettara, að þeir legðu það til, að Landsverslunin hætti starfi sínu með öllu, og ljetu kaupmenn sjá fyrir því að birgja landið og sjá um skaplegt verð.

Jeg veit, að það eru margir, sem bíða eftir því að taka til máls, og vil jeg ekki taka frá þeim tímann, og ætla þess vegna að fella niður þær athugasemdir, sem jeg hafði skrifað niður út af ræðum þessara tveggja hv. þm., að öðru leyti en því, sem jeg hefi þegar athugað þær.