11.05.1925
Sameinað þing: 5. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 141 í D-deild Alþingistíðinda. (3182)

131. mál, steinolíuverslunin

Benedikt Sveinsson:

Jeg hefi komið nokkuð við sögu þessa máls fyrrum, enda hefi jeg heyrt, að ýmsir hv. þm. hafa í dag vitað til orða minna um þetta mál, bæði fyr og síðar. Skildist mjer þær tilvitnanir vera á þann veg, að af þeim kynni að mega draga, að jeg hafi verið hvikull í málinu.

Þess vegna þykir mjer hlýða, um leið og jeg greiði atkv. um þál., að gera nokkra grein fyrir afstöðu minni til þessa máls á liðnum tímum.

það er rjett, að jeg var á móti stjfrv., sem fram var borið á þingi 1912, um að heimila ráðherra að gera samning um einkasölu á olíu um tiltekið árabil.

Var svo til ætlast, að stjórnin semdi við erlent fjelag, eða einstaka menn, um að taka að sjer söluna, og var heimild stjórnarinnar mjög víðtæk skv. frv.

Annars var frv. þetta liður í víðtæku einkasölukerfi, sem jeg var mótfallinn og er enn. Átti t. d. að stofnsetja einkasölu á kolum o. fl. vöruteg., sem jeg hefi altaf verið andvígur að seldar væru í einkasölu.

En aðallega var jeg þó á móti þessu frv. vegna þess, að jeg þóttist ekki sjá fyrir, að við losnuðum úr klóm þess einokunarfjelags, sem minst lof hefir hlotið hjer í dag, að verðleikum. Meira að segja ljek grunur á, að stjórnin ætlaði sjer einmitt að semja við D. D. P. A. og fela því einkasöluna um 20 ára skeið, og má nærri geta, að jeg hafi ekki verið ginnkeyptur fyrir að veita slíka heimild þeirri stjórn, sem jeg var andvígur.

þetta frv. var nú felt, sem von var.

En á sama þingi báru þeir Jón Ólafsson o. fl. hv. þm. fram frv. þess efnis að fela stjórninni að taka einkasölu á steinolíu, með það fyrst og fremst fyrir augum að brjóta vald Rockefellershringsins hjer á landi á bak aftur.

Angi hringsins, sem þá starfaði hjer, hafði náð svo föstum tökum á olíuversluninni, að engum tjáði við að keppa, þó að verslunin væri frjáls að nafninu til.

þessu frv. greiddi jeg atkv. úr Nd., en í hv. Ed. var því breytt á þann hátt að heimila stjórninni að fela sjerstöku fjelagi einkasölu á olíu um 5 ára bil.

Þetta þótti mjer og mörgum öðrum, þar á meðal Jóni Ólafssyni, aðalfkn. frv., svo mikill ágalli, að við greiddum atkvæði á móti frv., þegar þingið afgreiddi það sem lög. — Aldrei varð þó úr því, að þessi heimildarlög væru notuð.

Á aukaþingi sem haldið var um áramótin 1916–17, flutti jeg, ásamt núverandi hv. 2. þm. Árn. (JörB) frv. um að heimila stjórninni að taka einkasölu á steinolíu. Það frv. var flutt í þeim tilgangi einum, að afla landsmönnum olíunnar á sem ódýrastan hátt, en alls ekki til að afla ríkissjóði tekna. Þetta frv. dagaði uppi á því þingi, en síðar á árinu 1917 var háð reglulegt þing, og þá voru heimildarlögin samþykt, sem stjórnin síðan notaði til þess að taka einkasölu á steinolíu í sínar hendur.

Jeg minnist þess, að „Tíminn“ prentaði í fyrra kafla úr ræðu, sem jeg hjelt um þetta mál á þingi 1917. Virtist mjer það gert í þeim tilgangi að sýna fram á, að jeg væri ekki nú svo hollur í málinu sem skyldi (TrÞ: Nei, nei!). Það er gott, að hv. þm. Str. (TrÞ) neitar þessu, enda stend jeg við alt, sem jeg hefi sagt og gert í þessu máli frá fyrstu tíð.

Jeg hefi átt tal við fjölda manna um þetta mál, og skiftir dómum þeirra mjög í tvö horn. Sumir hafa lofað þetta fyrirkomulag mjög, aðrir lastað niður fyrir allar hellur. Og jeg hefi orðið litlu nær við þessar umr. Það er nokkuð hæft í því, að það er naumast hægt að átta sig á tölum þeim, sem kastað er fram í umr. um svona mál. Jeg veit, að svo hefir fleirum farið en mjer.

Mjer virðist besta úrlausnin, að stjórnin ljeti Landsverslunina standa fyrst um sinn, uns annað er viðurkent betra, en heimila jafnframt notendum að kaupa olíu, þeim er þess kynnu að óska. Yrði umsókn um það að koma fram með hæfilegum fyrirvara, svo að Landsverslun þyrfti ekki að birgja sig upp að óþörfu. Skil jeg ekki annað en að gremjan við Landsverslunina myndi þverra, ef horfið væri að þessu. Gætu þá þeir, er vildu, skift við Landsverslunina, en hinir leitað fyrir sjer um annað. Með þessu virðist best mega ná takmarkinu, að útvega landsmönnum sem ódýrasta olíu.

Fyrir mjer er Landsverslunin ekkert „princip“-mál, þótt sumir líti á öll þessi einkasölumál eins og einhver heilög trúarbrögð. Jeg á hjer engin önnur trúarbrögð en þau að tryggja landsmönnum sem ódýrast þessa nauðsynjavöru.

En mjer virðist það óskynsamlegt að taka verslunina alveg úr höndum ríkisins. Mætti þá fara svo, að erlent fjelag gerðist hjer ofjarl að nýju. Annars er ástæðulaust að sækja þetta mál af ofurkappi og eigna flm., að þeir berjist fyrir eiginhagsmunum einum.

Mjer fellur vel það, sem hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) hefir sagt í málinu, og er jeg líkrar skoðunar og hann. Jeg verð því að greiða atkv. gegn till., en beini því til stjórnarinnar að veita undanþágur með þeim hætti, sem lýst er.