12.05.1925
Sameinað þing: 6. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 188 í D-deild Alþingistíðinda. (3191)

131. mál, steinolíuverslunin

Jörundur Brynjólfsson:

Mjer finst jeg varla geta leitt þessar umr. hjá mjer, þar sem jeg var dálítið við málið riðinn um það leyti, sem því var komið í það horf, sem við höfum búið við um hríð. Jeg skal þó reyna að vera stuttorður, til þess að þreyta ekki hv. þingheim að óþörfu, en skal aðeins drepa á fáein atriði í þessu máli, sem mestu máli skifta og lítt hafa verið rædd í þessum umræðum.

Hið fyrsta, sem jeg vil athuga, er það, að mjer finst bæði till. sjálf og allur flutningur málsins vera fljótfærnislegur og ekki gerður að nógu vel yfirlögðu ráði. Mjer virðist sem þessi till. til þál. komi mjög við fjárreiður ríkisins og það hefir ekki verið venjan til þessa, og er beint á móti lögum, að afgreiða slíkar till. með einni umr. í Sþ. Það hefði átt að ræða aðra eins till. og þessa í tveim umr. í hvorri deild þingsins. Þetta er allmikið fjárhagsatriði fyrir ríkið, hvernig þessum málum reiðir af, og almenningur mun framvegis gera kröfur til stjórnar ríkisins um, að haldið verði áfram steinolíueinkasölunni, jafnvel þó að þessi till verði samþ.

Þessi till. er þannig orðuð, að það orkar tvímælis, hvernig beri að skilja hana. Í öðru orðinu er talað um að gefa steinolíuverslunina frjálsa, en í hinu um, að aðrir en stjórnin megi ekki reka verslun með þessa vöru, nema leyfi stjórnarinnar komi til. Það gæti því hugsast, ef till. yrði samþ., að stjórnin teldi henni fullnægt með því að veita einstökum mönnum undanþágur til innflutnings í sínar þarfir. Jeg óska því, að hæstv. forseti felli úrskurð um þessa till., hvernig beri að skilja hana, hvort hann telji flutning hennar samkvæmt þingsköpum og öðrum þingvenjum.

Þegar þetta mál var fyrst flutt, var það gert til að reyna að afla landsmönnum nægrar og ódýrari olíu en áður; tímarnir voru þá allískyggilegir og verslunarástandið með þessa vöru alveg óviðunandi. Árin 1920–21 var olíuverslunin í höndum D. D. P. A., og var þá steinolíutunnan seld á kr. 145 í Rvík, en úti um land á kr. 160–170 pr. tn. Þá hafði nefnd þetta mál til athugunar, og leitaði hún upplýsinga um það, hvort olíuverðið þyrfti endilega að vera svona hátt. Fjelagið svaraði því, að það treysti sjer ekki til að lækka verðið nema það skaðaðist af. Nefndin leitaði tilboða um olíu annarsstaðar að, og þau sýndu, að það var hægt að selja olíuna talsvert lægra verði en þetta. En þegar svar fjelagsins barst nefndinni og hún sá, hversu D. D. P. A. var stirt í samningum, pantaði nefndin, með samþykki landsstjórnarinnar, olíufarm, og var tunnan af þeirri olíu seld á 100 kr. þegar þessi olíufarmur kom til landsins, sendi D. D. P. A. menn út um allar hafnir landsins, með sömu skipum og þessi olía ríkisstjórnarinnar var flutt á, og áttu þeir, auk annars, að lækka verð á olíubirgðum D. D. P. A. niður í sama verð og olía ríkisstjórnarinnar var seld fyrir. Þá sýndi fjelagið í verki, að það gat sjer að skaðlausu selt olíuna við vægara verði en það hafði gert. Þessi aðferð fjelagsins mæltist hvarvetna illa fyrir, sem von var, og varð til þess, að ríkið tók alla olíuverslunina í sínar hendur og kom á fót einkasölu þeirri með steinolíu, sem stendur enn. Það kann að vera, að fjelagið hafi síðar tekið upp aðra stefnu í þessu atriði, en allir vita, að það hefir ærið fjármagn til þess að ná allri olíuverslun landsins undir sig fyrirhafnarlítið, ef það vill þegar verslunin er frjáls aftur, og þarf þá varla að vænta þess, að það verði landsmönnum þægari ljár í þúfu en það var fyrrum, ef það nær undirtökunum á okkur í annað sinn. Þetta er aðalatriðið. Fyrir mjer er málið hagsmunamál eingöngu. Mjer er alveg sama, hvort verslunin er frjáls eða það er einokun eða einkasala, ef það er aðeins trygt, svo ekki verði um vilst, að almenningur fái næga og góða vöru með eins vægu verði og unt er.

Um þann samanburð á olíuverði á ýmsum stöðum erlendis, sem hjer hefir verið rætt um, skal jeg játa, að jeg er ekki maður til að dæma. En Landsverslunin hefir gefið út skýrslu um olíuverð sitt og olíuverð í Khöfn og hefir með því sýnt, að hún hefir selt við vægara verði en í Khöfn, og nemur sá mismunur ca. 200 þús. kr. í vasa landsmanna. Upplýsingarnar um olíuverð í Khöfn eru fengnar gegnum sendiráðið íslenska í Khöfn, svo að það ætti ekki að vera hægt að rengja þessa skýrslu Landsverslunarinnar.

Hv. flm. till. og aðrir stuðningsmenn hennar segja, að olíuverðið erlendis sje lægra en hjá Landsversluninni hjer. Hv. aðalflm. (SigurjJ) sagði, að olía frá Hamborg, hingað komin, yrði ódýrari en sú olía, sem hjer fæst, og nefndi hann ýmsar tölur því til sönnunar. Jeg treysti mjer ekki til að dæma um þetta, hvort það sje rjett. Jeg væni ekki hv. þm. Ísaf. um að fara vísvitandi með rangar tölur, en mjer dettur heldur ekki í hug annað en að skýrsla Landsverslunarinnar, sem stjórn hennar ber ábyrgð á, sje í alla staði rjett og ábyggileg. Þess vegna horfir þetta mál þann veg fyrir mjer, að nú ætti annaðhvort ríkisstjórnin eða Alþingi að skipa 3–5 manna nefnd til að rannsaka olíuverð erlendis sem allra víðast og bera það saman við verð Landsverslunarinnar. Þegar skýrsla þeirrar nefndar væri komin fram, verður fyrst hægt að mynda sjer rjetta skoðun á þessu máli, en fyr ekki. Þá væri hægt að kveða upp dóma, bygða á rjettum forsendum, en nú er það ekki hægt, og því tel jeg það ganga fjörráðum næst við fjárhag landsins og við þá menn, sem olíunnar þarfnast, að samþykkja þessa till, að jafnlítið rannsökuðu máli. Jeg álít alt annað en þetta alveg óforsvaranlegt; ef það sýndi sig að rannsökuðu máli, að Landsverslunin seldi betur en hægt væri að gera í frjálsri samkepni, greiði jeg viðstöðulaust atkvæði með því, að einkasölunni verði haldið áfram, en ef hitt yrði aftur á móti ofan á, að Landsverslunin væri ekki fær um að uppfylla sanngjarnar kröfur til hennar um verð og vörugæði, mun jeg ekki heldur hika við að greiða atkvæði með því, að hún verði lögð niður.

Þegar Landsverslunin var stofnuð, var upphaflega til þess ætlast að byggja hjer olíugeyma á stærstu höfnunum við landið, og að olían yrði flutt hingað í svokölluðum „tank“-skipum. Þetta mundi hafa orðið langódýrasta aðferðin, er frá leið, en úr þessu hefir þó ekki orðið enn, og verður varla gert hjeðan af, ef verslunin verður gefin frjáls. Ef upplýsingar væntanlegrar nefndar sýndu það, að Landsverslunin ætti tilverurjett framvegis, þá á að hraða því að koma olíuinnflutningnum í þetta horf. Þegar þetta var ráðgert í fyrstu, var miðað við olíuinnflutning, sem var miklu minni en hann er nú, og þó þótti þetta sjálfsagt þá. Þess vegna ætti að vera búið að koma þessu í það horf, að olían væri flutt inn og seld úr „tank“.

Hv. flm. vilja, segja þeir, breyta skipulaginu í þá átt, að olíuinnflutningur verði frjáls, en þó ætlast þeir til, að Landsversluninni verði haldið áfram, og segja þeir, að það sje gert með það fyrir augum að tryggja nægan innflutning og gott verð. Þetta er auðvitað gott og blessað hjá öðru verra, en í þessu liggur þó játning um, að þeir sjeu ekki of sterkir í trúnni á blessun frjálsrar verslunar, að þeir þora ekki að eiga alt undir verslunarfrelsinu, innflutning og verðlag. Mjer sýnist því, er sjálfir flm. till. eru ekki trúaðri en þetta á umbætur þær, sem hún fer fram á, að þeir mættu vel una við að fallast á það, sem jeg nú hefi stungið upp á, að stjórnin láti rannsaka málið ítarlega og hafi tilbúnar skýrslur um það í byrjun næsta þings. Þá ætti að vera hægt að taka fullnaðarákvörðun um það, hvort landið eigi að fást við steinolíuverslun eða ekki. Mjer finst þetta vera miklu betri leið en flm. till. vilja fara.

Hv. þm. N.-þ. (BSv), minn gamli og góði samverkamaður í þessu máli, stakk upp á því að vísa þessu máli til stjórnarinnar á þann hátt, að hún gæfi innflutninginn frjálsan, en annaðist fyrst um sinn um sölu á vörunni innanlands. Hann lýsti því ítarlega á árunum 1916 –17, hvaða kjör það voru, sem landsmenn þá áttu við að búa að því er olíuverslunina snerti. Mjer þykir hann nú gerast helst til gleyminn, er hann vill ekki láta rannsaka málið lítið eitt betur, áður en Landsversluninni er varpað fyrir borð. Ef það reyndist, að Landsverslunin væri hagfeldasta fyrirkomulagið fyrir almenning, þá eru þessi vinnubrögð, sem hjer á að framkvæma, alveg óforsvaranleg. Jeg hjelt, að hann (BSv) mundi þegar fallast á mína skoðun og vildi leyfa sem ítarlegasta rannsókn í málinu áður en fullnaðarákvörðun yrði tekin, en nú sje jeg, að svo er ekki, er hann gengur fram fyrir skjöldu og vegur að Landsversluninni úr flokki fjandmanna hennar.

Menn hafa oft, þegar talið berst að þáverandi steinolíuverslun, talið mikla áhættu fylgja versluninni, vegna vörurýrnunar o. s. frv., og það ekki að ástæðulausu, enda er reynsla okkar ekki glæsileg í þeim efnum. Að minsta kosti get jeg búist við, að þeir hv. þm., sem búsettir eru í Reykjavík og vissu deili á, hvernig verslunin gafst, þegar Fiskifjelagið gerði sín innkaup á olíu, sællar minningar, kannist við þetta.

Menn minnast þess, að Fiskifjelagið keypti inn olíu, sem það seldi vægara verði en Steinolíufjelagið seldi á sama tíma. En undir eins og Fiskifjelagið hafði fengið sína olíu, lækkaði verð Steinolíufjelagsins og jafnframt batt það, eins og það hafði oft gert áður, viðskiftamenn sína á þann klafa, að versla ekki við annan olíuinnflytjanda, en olía Fiskifjelagsins var látin leka niður þar, sem henni hafði verið skipað upp. Menn skyldu ætla, að útvegsmenn og aðrir, sem einkum nota olíu, hefðu sjeð sjer leik á borði, þegar Fiskifjelagið lækkaði olíuverðið, og orðið manna fyrstir til að gera innkaup sín hjá því fjelagi. En því miður varð ekki sú raunin á. Þeir sneru sjer flestir til Steinolíufjelagsins og keyptu þar olíu sína, e. t v. með eitthvað lægra verði en Fiskifjelagið krafðist, meðan olía þess var til. Þeir sögðu, að ekki væri nema gott og blessað að hafa olíubirgðir í landinu, til að halda niðri verði Steinolíufjelagsins, en gættu þess ekki, hvernig þeir með viðskiftum sínum höfðu fje af ríkissjóði og komu öllum tilraunum til að hnekkja valdi Steinolíufjelagsins fyrir kattarnef.

Mjer þykir þeir hv. þm. vera meira en lítið brjóstheilir, sem telja sig fyrst og fremst forsvarsmenn sjávarútvegsins, ef þeir vilja, að svo lítt rannsökuðu máli, hverfa frá því fyrirkomulagi, sem nú er á olíuversluninni og reynst hefir mjög vel. Mjer dytti ekki í hug að lá þessum hv. þm. afstöðu þeirra til einkasölunnar, ef sannanir lægju fyrir um það, að öllum landslýð væri fyrir bestu, að hún yrði lögð niður. En það er síður en svo, að þær ástæður sjeu fyrir hendi, og þar sem úrslit þessa máls geta varðað þjóðarheildina hundruðum þúsunda, eða jafnvel miljónum króna, þá finst mjer ekki mega minna vera en heimtað sje af hv. þm., að þeir færi full rök fyrir máli sínu, áður en þeir fella dauðadóm yfir steinolíueinkasölunni. En þau rök brestur enn. Þessari ályktun minni til stuðnings vil jeg benda á, að það er næsta ólíklegt, að hæstv. stjórn hafi ekki fylgst betur en svo með starfrækslu Landsverslunarinnar, að hún hafi látið óátalið, ef verslunin hefir selt olíuna óhæfilega háu verði. En mjer vitanlega hefir ekki heyrst eitt orð frá hæstv. stjóra þess efnis, að einkasalan hafi verið svo óhöndulega rekin, að hagkvæmari viðskifti hefði mátt fá á annan hátt.

Hjer í umr. hefir vissulega verið horfið allmjög frá sjálfu málefninu, eins og sumir hv. þm. hafa kvartað yfir. Jeg hefi jafnvel heyrt einn hv. þm. segja, að spillingin, sem af steinolíueinkasölunni leiddi, væri orðin svo mikil, að starfsmenn hennar væru meira að segja farnir að tala opinberlega 1. maí. Jeg verð nú að játa, að þessar röksemdir hafa ekki mikil áhrif á afstöðu mína til þessa máls, þó að þær kunni að vera veigamiklar í augum sumra hv. þm. því, eins og jeg gat um í upphafi, fyrir mjer vakir ekki annað en það, að landsmenn fái notið sem bestra kjara í steinolíuverslun sinni. Það er aðalatriðið í mínum augum. En slíkt hið sama geta þeir ekki sagt, sem nú leggja til, að hæstv. stjórn gefi olíuverslunina frjálsa, án þess að færa betri rök fyrir málstað sínum en enn eru fram komin.