12.05.1925
Sameinað þing: 6. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 209 í D-deild Alþingistíðinda. (3195)

131. mál, steinolíuverslunin

Benedikt Sveinsson:

Jeg tek hjer til máls einkum út af ræðu hv. 2. þm. Árn. (JörB), sem var mjer ærið undrunarefni. Hann sagði fyrst, að sjer væri um það eitt hugað í þessu efni, að landsmenn fengju góða og ódýra olíu, en rjett á eftir fer hann að áfellast mig fyrir það, að jeg sje horfinn frá minni gömlu stefnu í málinu og vilji eyðileggja Landsverslunina. Jeg er hræddur um, að hv. 2. þm. Árn. (JörB) hafi heyrt illa, ef ekki er öðru lakara til að dreifa.

Jeg sagði einmitt, að jeg vildi alls ekki leggja landsverslun með steinolíu niður, en hinsvegar vildi jeg, að notendum olíunnar væri gefinn kostur á undanþágum frá einkasölunni, í því skyni að eyða kala til hennar. (JörB: Gátu notendur ekki pantað áður?) Nei. Ummæli hv. þm. (JörB) út af þeirri skoðun, er jeg ljet í ljós um þetta mál, eru rangfærslur einar. Og ef hann vildi vera sinni fyrri trúarjátningu samkvæmur, ætti hann að vera á mínu máli. (JörB: Jeg mun svara þessu síðar).

Mjer þykir varlegra að afnema eigi einkasöluna fyrst um sinn, vegna þeirrar hættu, að útlend ofríkisfjelög nái aftur tökum á steinolíuversluninni. Hins vegar vil jeg gefa notendum olíunnar kost á að útvega sjer hana sjálfum, ef þeir telja sjer það hagkvæmara. Ef þeir græða á því í samanburði við að kaupa hana í Landsversluninni, þá er því takmarki náð, sem fyrir mjer vakir og hv. þm. segir, að fyrir sjer vaki, en ef þeir hinsvegar tapa á þessari verslun sinni, munu þeir hverfa aftur til einkasölunnar og hætta steinolíukaupum upp á eigin spýtur. Annars heyrðist mjer á seinni hluta ræðu hv. þm. (JörB), að hann væri alveg fallinn frá sínum fyrri ummælum, að sig skifti litlu um fyrirkomulagið, ef olían fengist ódýr, því að það kom berlega fram, að hann vildi af öllum mætti halda í ákveðna tilhögun á versluninni.

Hæstv. fjrh. (JÞ) sagði, að undanþágur kæmu notendum að engu gagni vegna þess, að steinolíufjelögin myndu ekki fást til að flytja olíuna inn í landið, meðan Landsverslunin starfar, og sú olía, sem fengist, væri komin gegnum þrjá eða fjóra milliliði. Þetta kann svo að vera, en jeg sje ekkert á móti því, að mönnum væri leyft að flytja inn olíuna, ef þeir telja það sjer til hagsmuna, jafnvel þótt um einhverja „milliliði“ væri að ræða.

Jeg hefi aldrei haldið því fram, að olíusamningurinn væri eins og hann ætti að vera, eða að tilhögun þessarar stofnunar væri að öllu leyti í æskilegasta lagi. Jeg hefi engan dóm á það lagt, enda þekki það ekki til hlítar.

Ef lögin frá 1917 eru svo úr garði gerð, að ekki megi breyta fyrirkomulaginu á versluninni til bóta, þá ætti vandinn ekki að vera annar en sá, að breyta lögunum sjálfum. Þótt þingið yrði lengt um viku vegna þeirrar breytingar, ættu menn ekki að láta sjer það í augum vaxa, ef það nægði til að koma steinolíuversluninni í betra horf.