12.05.1925
Sameinað þing: 6. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 246 í D-deild Alþingistíðinda. (3208)

131. mál, steinolíuverslunin

Sigurður Eggerz:

Jeg er í engum vafa um, að þetta mál verður ekki afgreitt á rjettan hátt með slíkri þáltill. Ef nú á að stofnsetja slíka steinolíuverslun, sem stungið er upp á í þáltill., þá verður það að gerast með nýrri lagaheimild. Það er eina örugga formið.

Að vísu má segja, að nái þessi þáltill. samþykki, þá felist í því yfirlýsing meiri hl. þingsins, þess efnis, að hann muni ekki draga hæstv. stjórn til ábyrgðar, þó að hún láti reka samkepnisverslun með steinolíu, án frekari heimildar en felst í sjálfri þáltill. En úr því að hæstv. stjórn og hv. stjórnarflokkur hefir áformað að fara þessa leið, þá finst mjer rjettara, að frumvarp yrði borið fram hjer í þinginu, sem færi þá í sömu átt og þáltill.

Jeg veitti þeirri stjórn forstöðu, sem tók ríkiseinkasölu á steinolíu samkv. heimildarlögum frá 1917.

Ástæður stjórnarinnar fyrir þessari ráðabreytni hefi jeg oft skýrt. Þá var um það tvent að velja, hvort ríkiseinkasala eða því nær einvaldur steinolíuhringur ætti að fara með verslunina. Um frjálsa verslun var ekki að ræða. Stjórnin tók því ríkiseinkasölu fram yfir einokun útlends hrings.

Jeg hefi enn engar sannanir fyrir því, að verslunin lendi ekki aftur í höndum einokunarfjelags, ef einkasölunni sleppir.

Þetta þarf að rannsaka og sú rannsókn ætti að fara fram undir löglegri meðferð málsins hjer á þingi. Vildi jeg því skjóta því til hæstv. stjórnar, hvort hún sæi ekki fært að lengja þingtímann eitthvað og bera nú þegar fram frv. í þessa átt, heldur en að hrapa svo að málinu, sem nú lítur út fyrir að gert verði.

Jeg get ekki sætt mig við þessa afgreiðslu málsins og mun hiklaust greiða atkv. á móti þáltill., ef hrapað verður þannig að málinu, þó að jeg annars vilji stuðla að frjálsri samkepnisverslun á öllum sviðum, eins og hv. þm. má vera kunnugt.