20.03.1925
Neðri deild: 38. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 257 í D-deild Alþingistíðinda. (3219)

98. mál, Krossanesmálið

Flm. (Tryggvi Þórhallsson):

Jeg heyrði það utan að mjer um daginn, er mál þetta kom fyrst á dagskrá, að menn bjuggust við miklum hvelli út af því. Og jeg sje líka nú, að menn hafa búist við hinu sama, og þess vegna er líklega svo margt um manninn á þingpöllum og í hliðarherbergjum. En jeg vil taka það fram þegar, að það verða vonbrigði fyrir menn, sem það vona. Frá minni hálfu verður ekki gerður neinn hvellur út úr málinu nú, hvað sem síðar kann að verða.

Mál þetta hefir vakið mikið umtal og árásir miklar verið hafnar út af því á hæstv. atvrh. (MG), og er jeg einn í tölu þeirra manna, sem um það hafa ritað. En um mig er að því leyti öðru máli að gegna en aðra, að jeg hefi ekki ráðist á hæstv. atvrh. sjerstaklega.

Þetta er ekki flokksmál. Öll blöð hafa um það rætt, og sum, sem stjórninni eru handgengin, hafa áfelst hana. En það hefir ekki eingöngu verið rætt í íslenskum blöðum, heldur einnig norskum. Og það er eðlilegt, vegna þess, að annar málsaðilinn er norskur stórþingsmaður, og þar í landi hefir farið fram opinber skýrslugerð um málið. Og það er einmitt vegna þess, sem gerst hefir í Noregi, að jeg vil ekki efna til hvells um málið. Vil jeg heldur, að það sje athugað hyggilega í nefnd og að á þessu stigi sjeu engar deilur um það hafnar. Og vegna þess, að þetta er orðið utanríkismál, álít jeg, að við eigum ekki að berjast um það innbyrðis Íslendingar, a. m. k. ekki fyr en öll gögn eru komin á borðið.

Að svo mæltu vil jeg rifja upp í stórum dráttum, hvað í málinu hefir gerst. Það, sem hleypti því fyrst af stað, er það, að íslenskur embættismaður kemur því upp, að mæliker Krossanesverksmiðjunnar sjeu of stór, svo að oft munar miklu, og ljóst er, að um svik hefir verið að ræða. Atvinnumálaráðherra gengur í málið og leggur á það úrskurð, að minsta kosti í bili. Og af afskiftum þessara opinberu starfsmanna er það opinberlega sannað, að notuð hafa verið röng mál. Að vísu eru ekki til nein lagafyrirmæli um það, hvað síldarmæliker eigi að vera stór, en á það er komin hefð, að þau skuli vera 150 lítra. Að röng mæliker hafi verið notuð, er sannað með yfirlýsingu Þorkels Þorkelssonar, forstjóra mælitækjastofunnar, og eins af framkomu hæstv. atvrh., því að hann löggilti mælikerin, sem notuð höfðu verið, með hærra máli, en ekki sem 150 lítra mál, eins og um hafði verið samið milli verksmiðjunnar og þeirra, sem seldu henni síld.

Af þessu er líka sannað, að íslenskir viðskiftamenn verksmiðjunnar hafa beðið mikinn halla, hve mikinn, veit enginn, þótt margar ágiskanir hafi komið fram um það.

Þriðji opinberi aðilinn í þessu máli er forseti Fiskifjelags Íslands. Hann hefir sagt opinberlega, að það væri hart, að norskum stórþingsmanni skyldi líðast að svíkja Íslendinga. Þetta er það, sem aðallega hefir gerst í málinu hjer, og svo umræður manna í milli og í blöðum.

En hvað hefir svo gerst í Noregi? Jeg skal ekki fjölyrða um það, heldur lýsa því í stórum dráttum. Sá maður, er umræðurnar vekur þar, er norskur að ætt, en íslenskur ríkisborgari. Þessum manni hefir eflaust gengið það til að gera gott úr málinu. Afstaða hans var þannig, að hann hafði orðið fyrir barðinu á þessari verksmiðju, selt henni síld, er mæld var í þessum stóru mælikerum, en hætti svo viðskiftunum, er alt komst upp um svikin. Fyrir honum hefir sjálfsagt vakað, að ekki hlytist ilt af þessu máli milli Íslendinga og Norðmanna. Hann hefir ekki viljað, að Íslendingar hjeldu, að Norðmenn gerðu kröfu til þess, að þeir mættu haga sjer þannig á Íslandi. Hann ritar blaðagrein um málið í Noregi, sem fer um öll norsk blöð, og allur almenningur þar fordæmir framferði verksmiðjunnar.

En málið fær meiri afleiðingar í Noregi. Forstjóri verksmiðjunnar er Sem sagt norskur stórþingsmaður, og hvorki hann nje flokkur hans gat verið þektur fyrir, að þetta sannaðist. Hann hefir því sent skýrslu um málið til utanríkisráðuneytisins norska. Veit jeg ekki, hvort hann hefir gert það af sjálfsdáðum, eða flokkur hans knúið hann til þess, eða þess hefir beinlínis verið krafist af utanríkismálaráðuneytinu. Því miður hefi jeg ekki þessa skýrslu í höndum, en hefi sjeð útdrátt úr henni í norsku blaði. Hvort þar er alt rjett hermt veit jeg ekki, en blaðið er talið áreiðanlegt. Og þessi skýrsla norska blaðsins er mynd af því, hvernig málið horfir við almenningi í Noregi.

Hvað kemur nú fram í þessari skýrslu? Málið er nálega gert hlægilegt og settur á það sá sakleysisblær, eins og ekkert athugavert hafi átt sjer stað. Allir íslenskir menn, sem minst er á, eru gerðir hlægilegir eða beinlínis ósannindamenn. Forstjórinn segir, að verksmiðjan hafi beðið um rannsókn. En það hefir nú verið birt í Tímanum opinber yfirlýsing frá Þorkeli Þorkelssyni um, að þetta sje ekki rjett og að fleira, sem í skýrslunni stendur, sje rangt. Þá er og sagt í skýrslunni, að alt sje rangt, sem sagt hefir verið af Íslendinga hálfu um röng mæliker. Segir skýrslan, að tvennskonar ker hafi verið notuð, og að löggilt mæliker hafi altaf staðið á bryggju og iðulega notuð, en um þetta er upplýst, að það er rangt.

Þriðja atriðið, sem kemur fram í skýrslunni, er það, að forstjórinn segir hiklaust, að úrskurður ráðherra hafi sannað það, að mælikerin hafi verið rjett. En það vita allir, að það er þveröfugt við sannleikann, því að ráðherrann löggilti ekki sem 150 lítra ker, heldur stærri.

Afleiðingarnar af þessari skýrslugerð forstjóra Krossanesverksmiðjunnar eru þær, að öll þau íslensk blöð og þeir Íslendingar, sem undan þessu hafa kvartað, hafa farið með rangt mál, og forseti Fiskifjelagsins er opinberlega stimplaður sem ósannindamaður.

Vegna þessarar hliðar málsins, að það er orðið utanríkismál, vil jeg ekki á þessum fundi stofna til neinnar deilu um það. Þetta er stórmál, sem sambúð Norðmanna og Íslendinga getur stafað mikil hætta af, og þarf því að skýrast rækilega, ekki á rifrildisfundi, heldur í nefnd. Og jeg vil síst verða til þess að vekja deilur, er gætu orðið til þess að spilla sambúð þessara þjóða.

Jeg get ekki gengið út frá öðru en að hæstv. stjórn og flokkur hennar sje mjer sammála, og jeg býst líka við því, að stjórnin hafi viljað gefa þinginu skýrslu um málið sjálfs sín vegna, hvernig svo sem hún kann að líta á það. Og mjer finst, að með slíkri nefndarskipun, sem hjer er farið fram á, sje henni gefið heppilegt tækifæri til þess. Vil jeg að svo stöddu ekki gera ráð fyrir öðru en góðu samkomulagi, og frá minni hálfu og þess flokks, er fól mjer framsögu málsins, er tilgangurinn enginn annar en sá, að fá það rannsakað alvarlega og tryggilega án allra deilna.

Þá eru það enn tvö atriði, sem jeg vil benda á, sem að vísu standa ekki í beinu sambandi við kjarna málsins, enda þótt þau snerti það óbeinlínis, sem jeg álít að væntanleg nefnd ætti að taka til athugunar jafnframt.

Hið fyrra er það, að eins og mönnum er kunnugt, var það ákveðið á síðasta þingi og varð að framkvæmd nú við síðustu áramót, að löggildingarstofan á vogar- og mælitækjum var lögð niður. Jeg ætla ekki að lýsa neinu yfir um það, hvort þetta hafi verið rjett eða rangt, en mjer finst fylsta ástæða vera til þess, að væntanleg nefnd taki það til alvarlegrar íhugunar, hvort ástæður sjeu ekki til þess að breyta eitthvað til í þessu efni og taka upp aftur tryggilegra opinbert eftirlit með mæli- og vogartækjum, til þess að verslunarástandið og viðskifti öll verði tryggilegri eftirleiðis.

Hitt atriðið varðar líka þáltill. óbeinlínis, því að einnig á öðru sviði kom Krossanesverksmiðjan einkennilega fram gagnvart Íslendingum. Það er um rjettindi innlendra verkamanna. Það hefir að vísu verið minna um það deilt, en er þó ekki þýðingarlítið atriði. Það er rjett, að nefndin athugi það, hvort ekki þurfi að gera frekari ráðstafanir en nú eru í gildandi lögum, til þess að tryggja það, að íslenskir verkamenn verði ekki fyrir of mikilli samkepni frá erlendum verkamönnum, sem flytjast til landsins.

En aðalstarf væntanlegrar nefndar á að vera það að draga saman og viða að sjer hvaðanæva skýrslum og upplýsingum um meginatriði málsins, frá ráðherrunum, forsætis- (dómsmála-)ráðherranum og atvinnumálaráðherranum, frá lögreglustjóra Akureyrar, frá Fiskifjelagi Íslands, sem bornar eru á þungar sakir í skýrslunni til norska utanríkismálaráðuneytisins, frá útgerðarmönnum, sem átt hafa viðskifti við Krossanesverksmiðjuna o. s. frv. Þetta ætti að vera fljótgert, og ætti nefndin því að geta orðið fljót að ljúka störfum sínum. Jeg tel það sjálfsagt, að ráðherrarnir hafi skýrslur sínar á reiðum höndum, og til Akureyrar er auðvelt að ná í símanum, en margir af viðskiftamönnum verksmiðjunnar eru búsettir hjer í bæ.

Á þessum grundvelli tel jeg víst, að málið geti orðið upplýst til fullnustu. Og jeg ætlast til þess, að á þessum grundvelli beri nefndin fram till. sínar um það, hvað gera skuli í þessu máli, hvort höfða skuli mál gegn verksmiðjunni til skaðabóta, og svo eins um hitt, sem jeg hefi gengið framhjá enn þá, að ef nefndin álítur stjórnina vera vítaverða fyrir afskifti sín af þessu máli, þá skal hún koma fram með tillögur sínar um, hvernig þingið þá eigi að snúast við því máli.

Það, sem nefndin á að gera, er að búa málið í hendurnar á þinginu. Mjer finst þessi leið vera sjálfsögð endalykt á þessu máli í bili. Jeg vil ekki trúa því, að stjórnin hafi á móti því, að þetta verði gert. Jeg hefi að vísu heyrt utan að mjer, að stjórnin muni ætla að rísa öndverð gegn því, að þessi leið verði farin, en jeg trúi því ekki. Þetta liggur svo beint við. En málið er merkilegt mál, einkum út á við, og snertir, mjög viðskifti okkar við útlendinga. Stjórninni ætti að vera það ljúft að láta þingið rannsaka allar sínar gerðir, enda ber stjórnin hvort sem er ábyrgð gagnvart þinginu. Að lokum endurtek jeg það, sem jeg sagði í upphafi ræðu minnar, að jeg ætla engan hvell að gera að stjórninni út af þessu máli, því jeg tel það best, að þetta fari sem friðsamlegast fram, og mun það einnig vera farsælast fyrir starfshætti þingsins.