20.03.1925
Neðri deild: 38. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 264 í D-deild Alþingistíðinda. (3220)

98. mál, Krossanesmálið

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg verð að segja það, að mig undraði nokkuð, er jeg heyrði, hvernig hv. þm. Str. (TrÞ) tók upp þetta mál og flutti í ræðu sinni. Hann sýndi meira hóf í öllu nú en áður, er hann hefir verið að skrifa í blað sitt, Tímann, um þetta mál. Þar hefir hann skrifað margt og mikið og kveðið upp þunga áfellisdóma yfir mjer og stjórninni fyrir afskifti hennar af þessu máli. Hann er búinn að skrifa svo mikið um þetta og á þann veg, sem jeg lýsti, að jeg held, að menn verði að virða mjer til vorkunnar, þó að jeg byggist ekki við öðru af honum en að hann myndi nota tækifærið til þess að árjetta enn þá einu sinni áfellisdóma sína yfir mjer og stjórninni. En nú bregður svo undarlega við, að hann vill láta fara fram rannsókn, eftir það að hann hefir kveðið upp þessa ströngu dóma. Jeg veit ekki hvað það er, sem veldur því, að hann er nú svo spakur, eftir öll umbrot sín áður, og hvers vegna hann óskar nú rannsóknar á málinu, eftir að hann hefir kveðið upp í því þunga áfellisdóma. Það liggur nærri að ætla, að hann hafi orðið var við það á einhvern hátt, að dómar hans hafi ekki verið bygðir á sem rjettustum forsendum. Getur það ekki annað en glatt mig, að hann virðist nú hafa horfið frá fyrri villu sinni, því að vitaskuld getur hann ekki, eftir að hann hefir kveðið upp dóm í málinu, beðið um rannsókn á því, nema hann viti eða hafi grun um, að dómurinn sje rangur. Hvað myndi sagt verða um dómara, sem feldi fyrst dóm í máli og ætlaði sjer síðan að rannsaka það? En þessa aðferð ætlar nú hv. þm. Str. (TrÞ) að viðhafa í þessu máli, og ann jeg honum sæmdarinnar af því.

En áður en jeg sný mjer að aðalatriðum málsins ætla jeg að segja höfuðdrættina í sögu þess til skýringar.

Það er upphaf þessa máls, að í maímán. síðastl. kom til mín forstöðumaður löggildingarstofunnar, til þess að ráðgast um það við mig, hvort farið skyldi það sumar í eftirlitsferð til þess að líta eftir mælitækjum og vogaráhöldum. Hann var þess hvetjandi, að farið skyldi í þessa eftirlitsferð, en hann væri í vafa um, hvort jeg vildi það, þar sem lögákveðið var að leggja löggildingarstofuna niður frá 1. jan. þ. á. En hann mælti með því, að þessi eftirlitsferð yrði farin, og sjerstaklega gat hann þess, að nauðsyn myndi á því að athuga síldarmæliker þau, sem notuð væru norðanlands um síldveiðitímann, því að engin slík mæliker hefðu til þessa verið löggilt, enda áleit hann, að þau mundu ekki vera löggildingarskyld eftir gildandi lögum.

Jeg tók því vel þessari málaleitun forstöðumannsins og samþykti þegar í stað, að þessi eftirlitsferð skyldi farin, ekki síst vegna síldarmœlikeranna, sem jeg taldi rjett að væru löggilt. Eftirlitsferðinni var svo hagað þannig, að eftirlitsmaðurinn gæti komið á síldarstöðvar um síldveiðitímann og athugað þau mæliker, sem í notkun væru, og löggilt þau, er hann hjeldi til þess hæf.

Svo gerist ekkert nýtt í þessu máli fyr en um miðjan júlí í sumar, að lögreglustjóranum á Akureyri berst kæra frá Verkamannafjelagi Akureyrar yfir því, að framkvæmdarstjóri verksmiðjunnar „Ægis“ í Krossanesi hafi flutt inn um 50 norska verkamenn, sem ættu að vinna við verksmiðjuna. Bæjarfógetinn á Akureyri bar þessa kæru undir landsstjórnina, en upplýsti samtímis, að árið áður (sumarið 1923) hefði verksmiðja þessi óátalið haft 70 norska verkamenn. Með hliðsjón af þessu þótti auðsætt, að þar sem engin breyting hafði orðið á löggjöfinni um notkun erlends vinnukrafts hjer á landi síðan 1923, myndi ekki geta komið til mála að reka menn þessa úr landi nú, fremur en 1923. En þá stóð svo á, að jeg átti ýms erindi til Norðurlands, og ætlaði jeg því um leið að kynna mjer nánar þetta verkamannamál, sjerstaklega vegna þess, að verksmiðja þessi hafði sótt um og fengið leyfi til að hafa 15 erlenda verkamenn.

Jeg hafði ákveðið að fara hjeðan þ. 31. júlí, en sama daginn, áður en jeg steig á skipsfjöl, kom til mín á ný forstöðumaður löggildingarstofunnar og tjáði mjer, að talsvert athugavert myndi vera við mælikerin í Krossanesverksmiðjunni, og því mundi jafnvel ekki veita af, að eftirlitsmaður löggildingarstofunnar fengi, er til löggildingar kæmi, einhverja aðstoð yfirvaldanna þar nyrðra til að koma þessu í lag. Jeg sendi því samdægurs svohljóðandi símskeyti til bæjarfógetans á Akureyri:

„Forstöðumaður löggildingarstofunnar hefir skýrt ráðuneytinu frá því, að síldarolíuverksmiðjan Ægir, Krossanesi, noti ólögleg síldarmál, sem sjeu meira og minna röng, svo að miklu nemi. Er yður hjer með falið að taka mál þetta tafarlaust til rannsóknar og sjá um, að verksmiðjan fylgi afdráttarlaust gildandi lögum í þessu efni.

Atvinnumálaráðuneytið“.

Þetta skeyti var sent sama daginn og skip það fór hjeðan, sem jeg tók mjer fari á til Norðurlands. Bæjarfógetinn hafði því rannsakað málið þegar jeg kom til Akureyrar, og var þá að því komið, að löggilda skyldi mæliker verksmiðju þessarar, enda kom eftirlitsmaður löggildingarstofunnar til Akureyrar um svipað leyti og jeg. Hafði hann komist að raun um, að síldarmælikerin í Krossanesi væru talsvert mismunandi að stærð, og mun hann hafa verið í vafa um, hvaða stærð hann ætti að löggilda, hvort hann skyldi miða við 150 lítra stærð, eða hvort hann ætti að taka meðalstærð þeirra kera, sem í notkun voru, og löggilda hana. Jeg sagði honum, að hann skyldi ráðgast um þetta við forstöðumann löggildingarstofunnar, og gerði hann það, en jafnframt tók jeg það fram, að jeg hefði ekkert við það að athuga, að mæliker með 170 lítra stærð væru löggilt, en vitaskuld datt mjer ekki í hug að taka í þessu efni fram fyrir hendur forstöðumanns löggildingarstofunnar, því að lögum er það hann einn, sem þessu á að ráða. Það varð svo úr, að mælikerin voru löggilt með 170 lítra stærð, og leiddi það til þess, að sum málin urðu of lítil og voru ekki löggilt, en þau, sem stærri voru en 170 lítra, voru minkuð. Löggildingarstofan auglýsti síðan, að síldarmælikerin í Krossanesi tækju 170 lítra, og með þessu voru allir viðskiftamenn verksmiðjunnar fullkomlega trygðir, eins og allir munu sjá, án tillits til, um hversu stór síldarmál þeir höfðu samið við verksmiðjuna. Er það svo einfalt reikningsdæmi, að ekki þarfnast skýringar.

Meðan jeg stóð við á Akureyri gerði jeg orð framkvæmdarstjóra verksmiðjunnar í Krossanesi, hr. Holdö stórþingsmanni, og bað hann að koma til viðtals við mig á skrifstofu bæjarfógetans á Akureyri, og áttum við tal við hann þar, jeg og bæjarfógeti, bæði um síldarmælikerin og um verkamannainnflutninginn. Út af síldarmælikerunum var framkvæmdarstjórinn óánægðastur yfir því, að minni kerin hefðu verið ónýtt fyrir sjer með löggildingu 170 lítra keranna. En jeg tjáði honum, að ekki gæti komið til mála annað en að öll kerin væru jafnstór, og þessa yrði að krefjast vegna viðskiftamanna hans, því ella hlytist af rjettaróvissa og glundroði í öllum viðskiftum við hann. Jeg sagði honum, að hann mætti búast við málssókn út af þessum viðskiftum hans, en hann kvaðst hvergi hræddur um úrslit þeirra málaferla, þótt hafin yrðu, og taldi sig vissan um það, að hann hefði ekki fengið meiri síld en hann átti að fá samkvæmt samningum. Hann hjelt því jafnframt fram, að hann hefði fengið minni síld en hann hefði átt kröfu til að fá.

Annars kvaðst hann hafa í hyggju að vega síldina, en mæla hana ekki, og þess vegna hefði hann keypt 2 eða 3 vandaðar og dýrar amerískar vogir og flutt að Krossanesi, en þær væru sjer ónothæfar, af því að hann kynni ekki að setja þær saman. Kvaðst hann hafa ætlað að haga þessu þannig, af því að mæling á síld væri ónákvæm og hann teldi sig hafa haft halla undanfarið á málunum, og auk þess væru mælikerin dýr, því þau eyðilegðust tiltölulega fljótt við notkun; þau brotnuðu stundum jafnvel fyrsta eða annan daginn, sem þau væru í notkun. Kvaðst hann langhelst vilja hafa sterka járnslegna kassa til þess að skipa upp í síldinni, en um mælikerin væri það að segja, að þau kæmu oft alls ekki vel full upp úr skipunum; það vildi hristast úr þeim, enda þótt þau hefðu í byrjun verið látin full. En auk þess væri oft óvandlega í þau látið af seljendunum, enda væri í ösinni og annríkinu við afgreiðslu skipanna, er mikil síld bærist að, gersamlega ómögulegt að mæla nákvæmlega. Ennfremur kæmi oft fyrir, að mælikerin slægjust við skipin eða við bryggjurnar, og hristist þá úr þeim talsvert af síld. Mörg skip biðu stundum eftir afgreiðslu og krefðust að losna sem fyrst, til þess að komast út á veiðar, ef síldarvon væri.

Þegar jeg benti honum á, að hann gæti ef til vildi átt von á málssókn frá einhverjum af viðskiftamönnum sínum, kvaðst hann óhræddur um það og kvað sig albúinn að sýna það með reikningum verksmiðjunnar, að hann hefði fengið minna af mjöli og olíu úr hverju keyptu síldarmáli en í verksmiðjum í Noregi, þar sem notaðar væru samskonar vjelar, enda væri hann sannfærður um, að hann hefði tapað, en ekki grætt á því að mæla síldina, og þess vegna hefði hann ætlað sjer að fara að vega síldina framvegis. Flestir, sem jeg talaði við þar nyrðra, ljetu vel yfir viðskiftum við hr. Holdö og báru honum gott orð. Virtist mjer það álit flestra, að mæling á síldinni yfirleitt væri ekki sem nákvæmust, hvorki af hálfu seljanda eða kaupanda, og að Krossanes mundi ekki vera nein undantekning í því efni. Þar væri þetta ekki verra en annarsstaðar, enda höfðu engir til þessa tíma notað löggilt mál.

Jeg talaði ennfremur við hr. Holdö um innflutning þessara 50 verkamanna, og skýrði honum frá því, að mjer kæmi það undarlega fyrir, að hann hefði beðið um og fengið leyfi til að hafa 15 erlenda verkamenn, en kæmi svo með ca. 50.

Hann brást ókunnuglega við þessu. Hann kvaðst aldrei hafa beðið um neina undanþágu um innflutning verkamanna og því enga undanþágu fengið. Hann kvaðst í fyrra hafa spurt Pjetur Ólafsson konsúl, sem þá var í Noregi, vegna kjöttollsmálsins, hvort nokkur breyting hefði orðið á síðasta þingi á lögum um innflutning verkafólks, en konsúllinn hefði neitað því, og þess vegna hefði sjer sýnst óhætt að hafa hingað út með sjer 50 menn í ár, er hann hefði í fyrra haft óátalið 70 erlenda verkamenn í Krossanesi.

Jeg skýrði honum frá, að hæstarjettarmálaflm. Lárus Fjeldsteð hefði sótt um leyfið fyrir hans hönd, og hefði honum verið svarað því, að leyfið yrði veitt. Framkvstj. kannaðist alls ekki við þennan málaflm. og kvaðst hvorki hafa staðið í neinu viðskiftasambandi við hann nje beðið hann um að útvega sjer þetta leyfi. Síðar hefi jeg fengið vitneskju um, að þessu muni þann veg farið, að hr. Holdö hafi beðið hr. Eggert Stefánsson á Akureyri að útvega sjer undanþágu, ef þess þyrfti með vegna breyttrar löggjafar um þessi efni. Eggert sneri sjer til Fjeldsteðs og bað hann að útvega leyfið. Það var því sent Fjeldsteð, sem aftur afhenti það Eggert Stefánssyni, en Holdö kvaðst aldrei hafa fengið það.

Eftir þessu fæ jeg ekki annað sjeð en að Holdö hafi ekki vitað betur en að sjer væri heimilt að flytja inn verkamennina, þar sem Pjetur Ólafsson hafði sagt honum, að löggjöfin væri óbreytt í þessum efnum, enda var það rjett.

Jeg tjáði hr. Holdö, að jeg óskaði, að hann hefði sem minst af útlendum mönnum í verksmiðju sinni, og tók hann því vel, enda væri það í samræmi við eiginhagsmuni hans, af því að norskir verkamenn yrðu sjer dýrari en íslenskir, þar sem hann yrði að greiða þeim kaup frá brottför í Noregi til heimkomu þangað. Hann kvað það með öllu ósatt, að hann flytti inn hingað norska verkamenn til þess að koma niður kaupi Íslendinga, og kvaðst geta sannað það með vinnubókum sínum.

Jeg spurði hann, hvort jeg gæti fengið að sjá þær bækur, og kvað hann það velkomið. En til þess yrði jeg að koma í verksmiðjuna, þar væru þær notaðar daglega, og væri því ekki hægt að hafa þær þaðan á burt. Jeg ákvað því að fara þangað ásamt bæjarfógetanum á Akureyri daginn eftir, til að skoða vinnuskrárnar, enda þótti mjer fróðlegt að sjá þessa margumræddu verksmiðju.

Þessa ferð til Krossaness fór jeg svo á tilsettum tíma ásamt bæjarfógetanum á Akureyri (og þriðja manni, sem jeg bjó hjá þar). Jeg leit á vinnuskrárnar og skoðaði verksmiðjuna. Af vinnuskránum sannfærðist jeg um það, að ákæran um að hafa sett niður kaupið fyrir innlendum verkamönnum var ekki á rökum bygð. Þar sá jeg einnig vogimar góðu frá Ameríku.

Annars er þessi ferð mín til Krossaness fræg orðin af blaðaumtali. Blað hv. þm. Str. (TrÞ) hefir látið á sjer skilja, að jeg hafi setið veislur í Krossanesi, og gefið í skyn, að jeg hafi látið múta mjer með því, og svipuð ummæli hefir „Verkamaðurinn“ á Akureyri viðhaft. Ennfremur sagði eitthvert Akureyrarblaðið, jeg held „Verkamaðurinn“, að Ragnar Ólafsson, konsúll á Akureyri, hefði verið með mjer í þessari för og ekið mjer í bifreið, en sannleikurinn er, að jeg fór á bát, og konsúllinn var ekki með. Jeg get þessa til þess að sýna ósannindin, sem hefir verið þyrlað upp um þetta mál, ekki síst þar sem þetta hefir síðan, eftir því sem jeg hefi sjeð í Akureyrarblöðunum, verið notað til árásar á Ragnar Ólafsson í tilefni af bæjarstjórnarkosningum. Og um mútuveislumar er það að segja, að jeg hefi engar veislur þegið í Krossanesi, en kaffi drakk jeg hjá framkvæmdarstjóranum, og má hr. þm. Str. (TrÞ) kalla það veislu eða veislur, ef hann vill, og gefa í skyn, að mjer hafi verið mútað með kaffinu. Hirði jeg ekki að ræða um það frekar, enda munu fáir trúa.

Þegar jeg kom að Krossanesi og athugaði vinnubækurnar, sá jeg, eins og jeg tók fram áðan, að það var ekki á rökum bygt, að kaupið hefði verið sett niður fyrir venjulegan kauptaxta, sem þá var á Akureyri, því að þótt þar mætti finna fullvinnandi menn með lægra kaupi en alment gerðist, þá voru ávalt einhverjar sjerstakar ástæður fyrir því. T. d. var þar fullvinnandi maður ásamt liðljettum bróður sínum, og höfðu báðir jafnt kaup gegn því, að hann sæi að öllu leyti um þennan bróður sinn. Þá var þar og annar maður, sem hafði með sjer 15 ára gamlan dreng, og tóku þeir báðir jafnt kaup.

Var þetta aðeins gert af því, að samið var í einu lagi um vinnu fullvinnandi og ófullvinnandi manns, og kaupið jafnað af því, að kaup beggja átti að renna til sama manns.

Vegna árása þeirra, sem stjórnin hefir orðið fyrir út af þessu máli, og vegna framsöguræðu hv. þm. Str. (TrÞ), verð jeg enn að fara nokkrum orðum um málið, til þess að sýna, að í öllum efnum hefir verið farið fyllilega löglega með málið og að hinar gífurlegu blaðaskammir út af málinu eru ekki annað en frekleg ósannindi, til þess eins gerð að þyrla upp pólitísku ryki og ófrægja stjórnina.

Jeg hefi nú sagt sögu þessa máls eins óhlutdrægt og mjer er unt, og geta nú hv. deildarmenn sjálfir gert sjer grein fyrir því, hvort þeim finst hún hæfilega skýr.

Um lögmæti löggildingarinnar er fyrst að athuga, hver fyrirmæli gilda um það efni að íslenskum lögum. Mjer vitanlega eru engin önnur íslensk lagaboð til um löggildingu mælikera en þau, sem er að finna í tilsk. 12. febr. 1919, um mælitæki og vogaráhöld. Alt, sem máli skiftir í lögum nr. 84, 14. nóv. 1917, um þessi efni, er tekið upp í tilsk., enda er hún bygð á þeim lögum.

Í tilsk. þessari eru aðeins tvær greinar, sem ræða um löggildingu mælitækja, sem sje 10. og 16. gr., og til þess að ekkert fari á milli mála, skal jeg, með leyfi hæstv. forseta, leyfa mjer að lesa upp þessar greinar.

10. gr. hljóðar svo:

„Mæliker löggildast í þessum stærðum: 2 lítrar, 1 lítri, 2 desilítrar og 1 desilítri.

Mælikerin skulu vera úr blikki, aluminium eða öðru efni, sem löggildingarstofan álítur jafnheppilegt, og svo sterk, að eigi sje hætt við, að þau breyti lögun eða stærð með gætilegri meðferð.

Mælikerin skulu vera sívöl og jafnvíð að ofan og neðan. Hlutfallið milli þvermáls og hæðar að innanmáli skal vera því sem næst eins og 2:3.

Þegar mælikerin standa á borði, skulu barmar keranna liggja í fleti samhliða borðfletinum, en hliðarnar vera hornrjett á hann. Mælikerin mega hafa handarhald.

Á hverju keri skal standa með skýru og óafmáanlegu letri í tölum með einingarnafninu lítri eða 1., desilítri eða dl. á eftir, hvað kerið tekur barmasljett, og löggildingin nær aðeins til þess, að það rúmtak sje rjett“.

Allir sjá nú, að ekki getur þessi grein átt við síldarmæliker, því seint mundi sækjast að mæla síld í kerum, sem geta stærst orðið 2 lítrar. Þessi grein kemur þess vegna málinu ekkert við. Þá er að athuga, hvað 16. gr. segir. Hún er styttri og hljóðar svo:

„Löggildingarstofan getur, þegar hún telur þörf á því, löggilt mælitæki og vogaráhöld, sem að efni, stærð eða gerð eru frábrugðin því, sem fyrir er sagt í 8.–15. grein, ef þau að hennar dómi eru til þess hæf“.

Hjer er kveðið á um það, að ef mæliker eru stærri en 2 lítrar, þá ræður löggildingarstofan, hvort hún löggildir þau og hversu stór mæliker hún löggildir. Henni er það alveg í sjálfsvald sett, enda er það rangt, sem hv. flm. (TrÞ) segir, að ekki hafi verið löggilt áður nema ein stærð síldarmælikera.

Síðastliðið sumar voru löggilt 50, 100, 150 og 170 lítra síldarmæliker, enda er enginn vafi á því, að fyllilega er heimilt að löggilda hvaða stærð sem er. Það er og augljóst, að markmið löggildingarinnar er fyrst og fremst að vernda viðskiftamenn þeirra, sem kerin nota, og enginn þeirra mun vera svo heimskur, að honum megi ekki á sama standa, hvort hann margfaldar með 50, 100, 150 eða 170. Aðalatriðið og eina atriðið er að vita með vissu, hversu stór kerin eru, og þá vissu á löggildingin að veita mönnum, enda stærðin letruð á hvert ker.

Það er því fjarri öllum sanni, sem sumir halda fram, að það hafi verið ólöglegt að löggilda þessi 170 lítra mæliker. 16. gr. áðurnefndrar tilsk. sýnir ljóslega, að það var heimilt og enda sjálfsagt, eins og sakir stóðu.

Þegar hv. þm. Str. (TrÞ) heldur því t. d. fram í Tímanum, að þarna hafi verið löggilt svikin mæliker, þá má með jafnmiklum rjetti segja, að löggilding sje í mörgum tilfellum í raun og veru í því fólgin að löggilda þau tæki, sem áður voru svikin. Altaf þegar skekkja er á vog eða mæli, þá segir löggildingin, hversu mikið mælirinn tekur eða vogin vegur, ef hún annars telst nothæf.

Jeg býst við því, að enginn ágreiningur sje lengur um, að ekki hafi verið rjett að reka norsku verkamennina úr landi, úr því að þeir voru hingað komnir, og hefi jeg áður skýrt frá, með hverjum hætti það varð. Ef þeir hefðu verið reknir úr landi, sem reyndar brast heimild til, þá hefði afleiðingin orðið sú, að verksmiðjan hefði orðið að fá verkafólk frá Akureyri og grend, það sem eftir var sumarsins. Hygg jeg, að þeir muni færri nú, sem telja, að slíkt hefði orðið þjóðfjelagsheildinni til hagsbóta, eins og þá stóðu sakir, þar sem nóg var handa fólki að gera um hábjargræðistímann og hinn aukni vinnukraftur verksmiðjunnar mundi því aðallega hafa verið tekinn frá bændum um sláttinn. Mun jeg því ekki fara fleiri orðum um þetta atriði nema sjerstakt tilefni gefist.

Þá kem jeg að því, sem hv. flm. (TrÞ) taldi veigamesta atriðið, hvort rjett hefði verið að höfða sakamál gegn framkvæmdarstjóra Krossanesverksmiðjunnar, og skal jeg nú skýra fyrir hv. deild, hvers vegna jeg fyrir mitt leyti sá ekki ástæðu til þess. En út af því, sem hann sagði, að þingið ætti að rannsaka, hvort ástæða hefði verið til að höfða skaðabótamál gegn forstjóranum, þá er þess að geta, að hjer ruglar hv. þm. Str. (TrÞ) saman ólíkum hugtökum, og það getur hann auðvitað leyft sjer, af því að hann er ekki lögfræðingur. Þó mætti nú ætla, að hann vissi, að málshöfðun til skaðabóta er yfirleitt ekki í verkahring hins opinbera ákæruvalds. Það getur látið hefja sakamálsrannsókn og síðan sakamál, ef rannsóknin gefur tilefni til þess.

En einstakir menn, sem krefjast vilja skaðabóta með málssókn, fara í einkamál.

Þó kemur fyrir, að gerðar eru skaðabótakröfur í sakamálum, en þær eru því aðeins teknar til greina í þeim málum, að alveg sje augljóst, að skaðabótaskylda sje fyrir hendi.

Eins og jeg hefi áður skýrt frá, var með símskeyti 31. júlí s. l. lagt fyrir bæjarfógetann á Akureyri að rannsaka þetta mál, og hafði hann framkvæmt þá rannsókn þegar jeg kom norður skömmu síðar. Hann lýsti þá þegar yfir því, að hann teldi ekki ástæðu til að hafast frekar að í málinu af hálfu hins opinbera. Hafði hann þá rannsakað, hvernig afhending síldar gengur yfirleitt til þar nyrðra, og gengið úr skugga um, að í því efni er ekki farið eftir neinum ákveðnum reglum.

Og það má öllum vera ljóst, að uppskipun og mæling á síld gengur öðruvísi mikið til en þegar í búðarholu er veginn brjóstssykur fyrir 10 aura.

Þegar mikið berst að af síldinni, eru svo mikil læti í fólkinu að flýta afgreiðslu hvers skips, að lítið mun um það hugsað að fylla alveg hvert einasta mæliker. Þar að auki slást kerin bæði við skipið og bryggjuna, og er síldinni síðan venjulega ekið upp að stíu, þar sem hún bíður bræðslu.

Reyndar fer það eftir samningi, hvar síldin er keypt. Stundum er hún keypt úr skipi, en stundum komin í stíu. Hvort algengara er veit jeg ekki, en hitt er víst, að þegar síld er keypt komin í stíu, þá á seljandinn að bera allan halla af því, sem forgörðum fer á leið þangað. En jeg hefi ekki sjeð nema einn samning um sölu á síld til verksmiðjunnar og skal því ekkert um það segja, hvernig síldin er seld yfirleitt, en samkvæmt þeim samningi var hún seld komin í stíu.

Þá má ekki ganga fram hjá því atriði, að þetta var ekki einasta verksmiðjan, sem notaði önnur síldarmál en þau, sem tóku 150 lítra.

Málin voru mæld víðar og reyndust víðast hvar of stór. Hjá Goos á Siglufirði voru t. d. mæld 4 ker, sem tóku 148, 151, 162 og 172 lítra, og meira að segja mældi hann síld eins seljandans í kassa, sem síðar var ónýttur og því ekki mældur. Veit því enginn, hversu mikið hann hefir tekið. Hjá Hendriksen á Siglufirði voru prófuð 10 mæliker, og rúmuðu 8 þeirra 98–108 lítra, en hin tvö 167 og 163 lítra. Hjá síldarverksmiðjunni á Dagverðareyri reyndust kerin frá 154–162 lítr., en sú verksmiðja var naumast tekin til starfa, þegar kerin voru prófuð.

Nú kynnu ýmsir að segja: Hvers vegna var ekki höfðað sakamál gegn öllum þessum síldarkaupendum, úr því að þeir notuðu svona stór mæliker?

Til þess að svara þessari spurningu verður að athuga þær reglur, sem hingað til hefir verið fylgt í þessum málum, og fara eftir þeim. Nú vill svo vel til, að á þessu sviði hefir myndast föst og ákveðin venja síðan löggildingarstofan tók til starfa. Þetta er nefnilega ekki í fyrsta skifti, sem farið hefir fram skoðun á mæli- og vogartækjum hjer á landi.

Jeg hefi í höndum brjef frá löggildingarstofunni, dags. 6. mars 1923, sem jeg veit að hv. 2. þm. Rang. (KIJ) mun kannast við, þar sem hann sem atvrh. notaði brjef þetta í svari við fyrirspurn um löggildingarstofuna, sem beint var til hans á þinginu 1923. Getur því enginn vænt mig þess, að jeg hafi látið búa brjef þetta til, með sjerstöku tilliti til þessa máls.

Samkv. þessu brjefi reyndist ónothæft við fyrsta eftirlit löggildingarstofunnar á árunum 1919–21: Járnlóð 63%, koparlóð 26%, kvarðar 48% og mæliker 68%. Þessi skýrsla sýnir, að meira en helmingur allra járnlóða, nærri helmingur allra kvarða og um 70% allra mælikera, sem hjer voru notuð árin 1919–21, voru í raun og veru ónothæf sökum skekkju. Nú vil jeg spyrja: Hefir sakamál verið höfðað gegn eigendum þessara tækja? Mjer vitanlega hefir ekki verið farið í mál við einn einasta þeirra öll þessi ár. Og löggildingarstofan hefir heldur ekki kært einn einasta mann fyrir þessar sakir. Forstjóri hennar hefir sagt við mig í sambandi við Krossaneskerin, að hann vildi ekki kæra forstjóra verksmiðjunnar, vegna þess að ómögulegt væri að segja, hvort það hafi verið í glæpsamlegum tilgangi, að kerin voru svona stór. Þessari venju hefir löggildingarstofan altaf fylgt, að kæra menn ekki, þó að þeir hafi notað röng mæli- og vogartæki, nema víst sje, að um glæpsamlegan tilgang sje að ræða. Samkvæmt þessari venju er það, að löggildingarstofan hefir ekki kært Krossanesverksmiðjuna.

Ef stjórnin hefði umsvifalaust látið höfða sakamálsrannsókn gegn forstjóra Krossanesverksmiðjunnar, þá hefði hann verið tekinn öðrum tökum en allir aðrir.

Auk þess gat hann bent á eitt atriði, sem að mínu viti sýnir allgreinilega, að hann ætlaði ekki að mæla síldina síðastl. sumar, heldur vega hana, og þá hefir ekki verið ásetningur hans að svíkja á máli.

Jeg er viss um, að ef til sakamáls kæmi, þá yrði það þungt lóð á metunum, forstjóranum til málsbóta, að hann hafði keypt þessar dýra amerísku vogir, sem kostað munu hafa nálega 4000 kr., þó að hann gæti ekki notað þær, er til kom, þar sem enginn kunni að setja þær saman.

Jeg hefði annars gaman af að lesa dálítinn kafla úr brjefi forstjóra löggildingarstofunnar 6. mars 1923. Þar segir svo:

„Tækin, sem talan nær yfir, vora löggildingarskyld áður en löggildingarstofan tók til starfa, og eru þess vegna sambærileg. öðru máli er að gegna með vogirnar, það var engin skylda að hafa þær löggiltar áður. Menn máttu kaupa þær hvar sem menn vildu, og ekkert eftirlit virðist hafa verið með því, þótt menn fengju sjer og notuðu við verslanir alls óhæfar vogir. Jeg á hjer einkanlega við eina gerð borðvoga, sem viktuðu oft 1/4–1/2 pd. skakt á 5 pundum, þegar þær fóra að slitna, og jafnvel nýjar vógu meira eða minna skakt, ef þær vora eigi vel gerðar, sem oft vildi við brenna. Verst við þessar vogir var það, að sá, sem vog á þær, gat ráðið því, að þær vægju ætíð honum í hag, hvort heldur hann seldi eða keypti“. Þeir, sem slíkar vogir notuðu, voru alls ekki kærðir. Þeim var aðeins bannað að nota vogirnar, og þar við látið sitja.

Enn segir forstjórinn:

„Margar aðrar vogir, sem vora þó af brúkanlegri gerð, voru svo stirðar, vegna slits, ryðs eða skemda, að þær gátu naumast talist vogartæki. Með slíkum vogartækjum gat ekki verið að tala um mikla nákvæmni í viðskiftum, og á það bættist, að þau vora flest vilhöll. En þeir, sem notuðu þessi vogartæki, munu flestir hafa látið sjer lynda, að vigtunin varð handahófsverk, þótt það sje reyndar undarlegt að reikna þá verðið upp á eyri, þar sem útkoman mundi verða alt önnur, ef rjett hefði verið vegið. En yfirleitt munu þessar vogir ekki hafa verið húsbóndahollar þegar um útvigt var að ræða, en við innlagningu hafa þær oftast litið á hag húsbóndans“.

Ennfremur lýsir forstjórinn því, að mælitækin á bensíngeymunum hjer í Reykjavík hafi sum verið gölluð. Þó var enginn kærður. Þá segir hann, að mjólk hafi mikið verið seld eftir pottmálum, en ekki lítramálum, hjer í Reykjavík. Og enn var enginn kærður. Jeg vil vona, að hv. þm. Str. (TrÞ) hafi þó ekki syndgað á þennan hátt í mjólkursölu sinni.

þessi skýrsla löggildingarstofunnar liggur fyrir þinginu 1923. Jeg man vel, þegar hæstv. þáverandi atvrh., sem nú er hv. 2. þm. Rang. (KIJ), las hana upp hjer í hv. Nd.

Jeg verð því að líta svo á, að þetta þing hafi ekki gert sjer svo mikið far um að efla eftirlit með mæli- og vogartæjum, að vel sitji á því að rísa nú upp í heilagri vandlætingu yfir því, að útlendur maður hefir notað mismunandi mæliker. Í þessu verða sömu lög að ganga yfir innlenda og útlenda, ef vjer eigum að teljast siðuð þjóð.

Hitt hefði verið skiljanlegra, að hv. þm. hefðu risið upp 1923, er þeir fengu þessa skýrslu hjá þáverandi atvrh., og krafist þess, að löggildingarstofan yrði ekki lögð niður, heldur aukið eftirlit með mæli- og vogartækjum.

En það er nú ekki því að heilsa. Það eru einmitt sömu mennirnir, sem nú hrópa hæst, er í fyrra vildu afnema þessa þörfu stofnun, sem jeg fyrir mitt leyti hefi altaf viljað láta starfa áfram, enda er jeg viss um, að ekki líður á löngu áður en hún verður endurreist í einhverri mynd.

Þetta, sem jeg hjer hefi sagt, lýtur að því, hvort rjett hafi verið, samkv. fastri venju, að höfða sakamálsrannsókn á hendur forstjóra Krossanesverksmiðjunnar.

Jeg segi, að slíkt hefði verið skýrt brot á þeirri venju, sem fylgt hefir verið í svipuðum tilfellum, síðan löggildingarstofan tók til starfa.

það er þó langt frá því, að jeg vilji halda því fram, að ekki megi brjóta skakkar venjur, ef ástæða er til. Síður en svo. Það út af fyrir sig er ekki nema sjálfsagt.

En það er ætíð siður, þegar höfða skal sakamál, og þó ekki sje nema sakamálsrannsókn, að athuga nákvæmlega, hverjar líkur sjeu fyrir því, að hlutaðeigandi verði dómfeldur, því menn verða að athuga, að sakamálshöfðun er alvarlegur hlutur fyrir þann, sem fyrir sök er hafður, hver sem dómsúrslit kunna að verða.

Sakamálsrannsókn á því og má ekki fyrirskipa nema fullar og ótvíræðar ástæður sjeu til þess.

Í þessu máli fæ jeg ekki sjeð, að annað geti orðið forstjóra verksmiðjunnar til dómsáfellingar í sakamáli en að hann viðurkenni að hafa notað of stór mál í sviksamlegum tilgangi.

Því það er ekki nóg, að sannað verði, að hann hafi í raun og veru fengið meiri síld en honum bar. Til þess að hann verði dæmdur í sakamáli þarf að sanna, að hann hafi vísvitandi og á sviksamlegan hátt tekið meira en honum bar.

Og þetta held jeg að muni aldrei sannast.

Hitt er annað mál, að ef hann hefir fengið meiri síld en honum bar, þá getur hann orðið skaðabótaskyldur samkv. almennum reglum.

Nú er það svo, að enginn, sem skifti hefir átt við verksmiðjuna, hefir kœrt út af þessum mælikerum, og ekki veit jeg heldur til, að neinn hafi höfðað skaðabótamál gegn henni.

Þó vita allir, að hægara er að fá mann dæmdan til skaðabóta í einkamáli en til refsingar í sakamáli.

Eins og jeg hefi áður sagt, átti jeg auðvitað tal við bæjarfógetann á Akureyri um þetta mál, og hann áleit ekki ástæðu til að fara lengra með það, og þar sem hvorki löggildingarstofan nje nokkur viðskiftamaður verksmiðjunnar hafði kært, þá sá jeg ekki ástæðu til að fara fram á það við dómsmálaráðherra, að hann ljeti höfða sakamálsrannsókn gegn forstjóra verksmiðjunnar.

Hitt er satt, að hefði dómsmálaráðherra fundið ástæðu til að fyrirskipa rannsókn, þótt jeg kærði ekki málið fyrir honum, gat hann gert það, en óvanalegt mun það, ef ekki berst nokkur kæra frá neinum, eins og hjer hefir átt sjer stað.

Jeg minnist þess, að jeg sagði eitt sinn í viðtali við ritstjóra einn, að jeg væri ekki dómsmálaráðherra. Með þessum orðum vildi jeg leiða athygli allra þeirra, sem þetta mál varða, að því, að jeg hefði ekki æðsta úrskurðarvald um þetta mál, og ef einhver væri óánægður með mínar aðgerðir í því, gæti hann snúið sjer til dómsmálaráðherrans, en það hefir enginn gert, þótt hann vitaskuld hafi æðsta úrskurðarvald um sakamálarannsóknir.

Hv. þm. Str. (TrÞ) hefir haldið þessum orðum, um að jeg væri ekki dómsmálaráðherra, mjög á lofti í blaði sínu. (TrÞ: Og fleiri). Já og fleiri. Þessi orð mín hafa eflaust hitt vel naglann á höfuðið, fyrst margir hafa orðið til þess að halda þeim á lofti. En þegar hv. þm. Str. (TrÞ) þykir það undarlegt, að íhaldsmenn taka undir þessi orð mín, þá er það næsta merkilegt, því að honum á að vera það kunnugt, að allir íhaldsmenn, nema einn, geta tekið undir þessi orð mín.

Jeg vona, að hv. þm. sjái nú, hvað felst í þessum einföldu orðum, og skilji, að hjer er um enga sneið til hæstv. forsætisráðherra (JM) að ræða.

Með því, sem jeg þegar hefi sagt, hefi jeg sýnt fram á, að það hefði verið þverbrot á venju undanfarinna ára að hefja sakamálsrannsókn út af þessu máli. Jeg hefi ennfremur sýnt fram á, að engar líkur eru til, að framkvæmdarstjórinn hefði hlotið áfellisdóm, þótt sakamál hefði verið hafið. Einnig hefi jeg bent á, að afhending síldarinnar fer þannig fram, að kunnugra manna sögn, að fremur lítillar nákvæmni er gætt. Enginn hefir kært manninn, og enginn hefir höfðað einkamál gegn honum. Og hví skyldi þá dómsmálaráðherra elta hann með mannorðsskemmandi sakamálsrannsókn? Í þessu sambandi má minna á, að sá maður, sem hjer er hafður fyrir sök, er norskur þingmaður. Þetta sýnir, að hann er vel metinn í sínu föðurlandi, en hjer ætti að setja hann á glæpamannabekk út af svipuðum athöfnum, sem eru látnar óátaldar hjá öðrum. Hver getur talið það rjettlátt?

Hv. þm. Str. (TrÞ) hefir haldið því fram í blaði sínu, að þingmaður þessi hafi haft af Íslendingum um 100 þús. kr. á ári vegna mælikeranna. Ef þetta væri rjett, sem mjer dettur ekki í hug að halda, þá er næsta undarlegt að áfella mig fyrir að hafa firt landsmenn þessu tapi framvegis með löggildingunni. Það má ef til vill deila um, hvort síldarmæliker sjeu löggildingarskyld, en um það er ekki hægt að deila, að jeg var fyrsti atvinnumálaráðherra á þessu landi, sem ljet löggilda þau, og það er samboðið rjettsýni hv. þm. Str. (TrÞ) í minn garð að átelja mig fyrir það og önnur afskifti mín af málinu.

Mjer heyrðist á hv. þm. Str., að helsta tilefnið til rannsóknar væri skýrsla um þetta mál, sem út væri komin í Noregi og hann hefði sjeð útdrátt úr í blöðum þaðan. Jeg get nú ekkert um þessa skýrslu sagt, meðan jeg hefi ekki sjeð hana sjálfur, en jeg sje ekki, að það þurfi að vera tilefni til rannsókna, þótt einhver útlendingur eða Íslendingur skrifi um þetta mál í útlend blöð. Það verður ekki utanríkismál fyrir það, og þótt svo væri, þá er það hæstv. forsætisráðherra (JM), en ekki jeg, sem fer með slík mál, og mun hann þess vegna svara því. Jeg býst ekki við, að þessi skýrsla varði mig á nokkum hátt. Jeg sje ekki heldur ástæðu til að stökkva upp og heimta rannsókn, þótt eitthvert blað einhversstaðar í heiminum flytji einhverja skýrslu í óhag stjórnmálaandstæðingi, og ætti hv. þm. Str. (TrÞ) að skilja það manna best.

Um tillögu þá, sem hjer liggur fyrir, skal jeg annars segja það, að jeg tel vafasamt, að hjer umrædd rannsókn geti fallið undir 35. gr. stjórnarskrárinnar. En þótt svo væri, þá er auðsætt, að slík rannsókn, framkvæmd af þingnefnd, getur ekki orðið nema málamyndakák, því að rannsóknin á að vera búin fyrir þinglok, og á þeim tíma er ómögulegt að ná til þess manns sem hjer er hafður fyrir sök, því að hann situr nú á þingi í Osló. Og hvernig ætti að rannsaka þetta mál án þess að yfirheyra hann, er mjer gersamlega óskiljanlegt, og jeg fullyrði, að það væri beint brot á öllum rjettarfarsreglum, ef kveða ætti upp nokkurn dóm í málinu eða láta uppi álit um það án þess að hann sje yfirheyrður.

En það er annað, sem mun vaka fyrir hv. flm. (TrÞ), og það er rannsókn á stjórnina, þótt hann sje ekki svo hreinskilinn að viðurkenna það. Til slíkrar rannsóknar þarf ekki þessa tillögu, því að hvaða þingmaður sem er getur fengið þær upplýsingar um málið, sem hann óskar, og getur svo flutt vantraustsyfirlýsingu, ef hann vill, en grímuklædda vantraustsyfirlýsingu á stjórnina er undarlegt að flytja.

Ef nokkur rannsókn að gagni á að fara fram í þessu máli í heild, þá verður það að vera sakamálsrannsókn, og ef þingið ætlar að fyrirskipa hana, verður það pólitísk sakamálsrannsókn, sem er hrein óhæfa, því að það er ekki á valdsviði þingsins að fást við slík mál. Það vald er hjá dómsmálaráðherra og dómstólum og engum öðrum. Hv. þm. Str. (TrÞ) ætlar hjer að taka sjer þetta vald í heimildarleysi, og hlýt jeg því að minna hann á, að hann er ekki dómsmálaráðherra. Ef hann vill koma stjórninni fyrir kattarnef, sem jeg ekki efa, þá verður hann að fara aðra leið, sem jeg hefi þegar bent á, og það er sú leið að bera fram vantraustsyfirlýsingu.

Að síðustu tek jeg það fram, að enginn, sem hefir athugað þetta mál grandæfilega og vit hefir á þeim hlutum, hefir talið ástæðu til sakamálsrannsóknar, en þó sýnist hv. þm. Str. (TrÞ) vilja láta fara þessa leið. En jeg vil skjóta því að honum, að hann mundi fyrstur manna hafa ráðist á stjórnina, ef sakamál hefði verið hafið. Þá mundi hann hafa haldið fram og það með rjettu, að það væri óviturlega gert. Því má sem sje ekki gleyma, að þessi norski þingmaður hefir aðstöðu til þess að spilla málum vorum í Noregi, og það veit hv. þm. Str. (TrÞ), að kjöttollssamningar vorir standa ekki svo traustum fótum þar, að örugt sje. Og hver hefði getað láð honum, þótt hann snerist í því máli á móti oss, ef vjer hefðum elt hann með sakamálsrannsókn án þess að kæra lægi fyrir og án þess að öðrum, sem svipað stóð á um, væru gerð sömu skil.

Nú vil jeg gjarnan heyra, hvernig hv. þm. Str. (TrÞ) tekur í málið, að fengnum þessum upplýsingum. Jeg veit, að í þessari ræðu minni hefir hann fengið ýmislegt að vita, sem hann vissi ekki áður, og jeg vil vita, hvernig hann tekur því, en seinna mun jeg svo draga ályktanir mínar þar af, enda hefi jeg það á tilfinningunni, að jeg hafi gleymt einhverju, sem jeg ætlaði að segja, og hefi jeg því sennilega ástæðu til þess að standa upp aftur.