20.03.1925
Neðri deild: 38. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 311 í D-deild Alþingistíðinda. (3225)

98. mál, Krossanesmálið

Atvinnumálaráðherra (MG):

Það hafa svo margir talað fyrir till., að jeg tel rjettast að athuga nokkuð þeirra orð áður lengra líður og meira verður sagt.

Þá er fyrst hv. þm. Str. (TrÞ), sem jeg hefi þó litlu að svara, því hann var svo mjúkur og kurteis, að það var öllu heldur, að hann vildi gera sem allra minst úr málavöxtum, en hitt. Hann sagði, að hjer væri aðeins um það að ræða, hvort ætti að skipa nefnd eða ekki. En hv. þm. verður að láta sjer skiljast það, að sú ákvörðun, að skipa nefnd eða ekki skipa nefnd, verður að byggjast á því áliti, hvort nefndin hafi eitthvert verkefni. Þess vegna verður ekki rætt um nefndarskipunina eina út af fyrir sig. Enda hefir það sýnt sig, að þó hv. þm. Str. (TrÞ) vildi hafa þann ramma um umræðumar, þá hefir það ekki tekist. Hv. þm. ljet í ljós, að sjer hefði þótt miður, að jeg hefði varið heilum klukkutíma til þess að segja sögu málsins. Hvernig í ósköpunum má það verða mjer til ámælis, þó jeg skýri málið? Hv. þm. kvartaði um, að hann þekti ekki málið, og getur það því ekki verið nema gott fyrir hann að fræðast. Þegar hann talaði um, að jeg hefði aðeins gefið munnlega skýringu, getur það ekki verið nema í gamni, því það veit hann, að það er skrifað, sem við tölum hjer. En að hv. þm. vill ekki ræða málið nú, eftir að hann er áður búinn að kveða upp sinn Stóradóm, virðist ekki geta bent á annað en það, að hann álíti, að hann hafi kveðið upp þann dóm, sem ekki standist.

Hv. þm. sagði þetta mál vera orðið stórmál í Noregi. Skal jeg ekkert þar um segja, en jeg veit ekki um neitt, sem bendir á það. Hitt veit jeg, að hv. þm. Str. (TrÞ) hefir verið hjer með úrklippur úr einhverjum norskum blöðum. Og mjer dettur ekki í hug að efast um, að á hælum þessa norska þingmanns sjeu einhverjir pólitískir andstæðingar, sem vilja honum ilt gera. Það er ekki nema það, sem altaf skeður.

Jeg ætlaði að prófa dálítið sanngirnina hjá hv. þm. Str. (TrÞ) með því að segja honum áðan, að jeg ætlaði að vita, hvernig hann tæki upplýsingum mínum. Hann tók þeim þannig, að nú kveðst hann álíta miklu meiri ástæðu til að fá rannsókn eftir en áður. Jeg vissi þetta fyrirfram, að hv. þm. Str. mundi ekki láta sjer sæma að taka sönsum vegna þess, sem jeg segði um málið. Það mætti líka heita einkennilegur stjórnarandstæðingur, sem segði já og amen við skýringum stjórnarinnar.

Jeg er hv. þm. (TrÞ) þakklátur fyrir loforðið um kaffið, ef jeg kem að líta á mjólkurmálin hans. Skal jeg það þiggja, þegar þar að kemur, en með því skilyrði þó, að hv. þm. Str. (TrÞ) segi ekki á eftir, að hann hafi mútað mjer með veisluhöldum til þess, að jeg löggilti skökk mjólkurmál hjá honum.

Hv. þm. sagði, að það væri ekki um „einhvern mann“ að ræða í Noregi, það væri stórþingsmaður. Alveg rjett. En finst hv. þm. Str. meiri ástæða til að álíta, að maðurinn sje glæpamaður, af því að hann er stórþingsmaður, heldur en einhver annar kannske hálfgerður bjálfi? Væri mjer sagt, að einhver þingmaður væri glæpamaður, mundi jeg álíta ástæðu til að hugsa mig um tvisvar áður en jeg tryði.

Hv. þm. Str. (TrÞ) kvaðst koma hjer með framrjetta hönd sem nokkurskonar sáttasemjari milli flokkanna og gagnvart stjórninni, því hann vildi henni svo vel. Jeg trúi þessu hálfilla. Það minnir mig á mynd, sem jeg hefi sjeð, þar sem stjórnmálamaður heilsar andstæðingi sínum með fögrum orðum um leið og hann rjettir fram höndina, en bak við eyrað sjest refur. Þetta er það, sem framrjetta höndin þýðir hjá hv. þm. Str. (TrÞ). Hann heldur, að stjórnin sje svo grunnhyggin að trúa því, að hann sje alt í einu farinn að bera umhyggju fyrir hennar velferð. Hv. þm. kveðst þess albúinn að „kritisera“ þetta mál hjer á „eldhúsdaginn“ — ekki þó með vantraustsyfirlýsingu — en nú vildi hann ómögulega deila á stjórnina. „Eldhúsdagurinn“ er á morgun, og ætlar þá hv. þm. að láta rannsaka málið fyrir morgundaginn ?

Eftir því, sem hv. þm. Str. (TrÞ) framsetur þetta mál, þá á þessi nefnd, sem hann stingur upp á, að koma í staðinn fyrir rannsóknardóm í málinu. Hún á að framkvæma rannsókn, sem á að byggja á við síðari aðgerðir í málinu. En hvernig getur slík rannsókn farið fram án þess að hlutaðeigandi maður sje yfirheyrður? það skil jeg ekki.

Hv. þm. sagði, að við hefðumst ólíkt að í dag. Hann væri með sáttaumleitun og framrjetta hönd, en jeg hefði í frammi reiging og illar undirtektir. Hv. þm. Str. má vita það, að jeg trúi honum ekki, þó hann komi og þykist vera vinur; og jeg veit, að hann ætlar ekkert annað að gera úr þessu máli en það, sem það hefir verið frá upphafi í hans herbúðum, sem sje flokkspólitík.

Jeg sný mjer næst að hv. 2. þm. Reykv. (JBald). Hann afbakaði mjög freklega ýmislegt af því, sem jeg sagði, og hans ræða var ekkert annað en samanhangandi útúrsnúningur frá upphafi til enda. Hann sagði, að jeg hefði sagt, að framkvæmdarstjórinn hefði neitað því, að hann hefði beðið nokkurn mann að sækja fyrir sig um að fá verkamenn innflutta. Jeg sagði skýrt og greinilega, að hann hefði beðið mann að gera það, ef breyting yrði á löggjöfinni. Svo fær hann að vita, að engin breyting er orðin, og þess vegna hefir hann gengið út frá, að enginn hafi sótt fyrir sig. Hv. þm. spurði um það, hvort verksmiðjustjóri hefði fundist sekur að ólöglegum innflutningi, þ. e. a. s. fyrir það að hafa ekki skýrt frá því á lögreglustjóraskrifstofunni, að mennirnir væru komnir. Jeg er ekki lögreglustjóri á Akureyri. Mjer er ókunnugt um þetta, en það er hans að líta eftir því. Hv. þm. sagði ennfremur, að jeg hefði talað eins og heimilt væri að reka brott þessa menn. Jeg sagði ekkert í þá átt. En ef svo hefði verið gert, hefði þurft að fá verkamenn úr sveit, því það er sannað, að það voru alls ekki nægir verkamenn á Akureyri í skarðið á þeim tíma. Hv. 2. þm. Reykv. (JBald) veit ekkert betur um þetta en jeg, því jeg var á staðnum um þetta leyti. Ennfremur kvað hv. þm. mig hafa skýrt rangt frá, og bar saman við Morgunblaðið. Það er þá ný tröllatrú, sem hv. þm. hefir fengið á Morgunblaðinu, ef því getur aldrei skjátlast. Eftir því hafa þá allar árásir hv. þm. á það blað verið fleipur eitt. Ennfremur sagði hv. þm., að jeg hefði tekið alt það gilt, sem framkvæmdarstjórinn í Krossanesi sagði. Veit jeg ekki, hvernig hv. þm. hefir fengið slíkt út úr minni ræðu, því það sagði jeg beinum orðum, að jeg hefði upp það, sem framkvæmdarstjórinn sagði, án þess að leggja á það sjálfur dóm. Jeg get bætt því við, að jeg bar þessi atriði undir gegna menn á Akureyri, nákunnuga þessum sökum, og þeir viðurkendu skýrslu hans rjetta. Jeg talaði við marga hans viðskiftamenn, og allir, að einum undanteknum, luku lofsorði á manninn og sögðu, að hann væri hinn besti í viðskiftum.

Þá spurði hv. þm., hvers vegna jeg hefði takmarkað tölu innfluttu verkamannanna. Það var beðið um leyfi fyrir innflutning á 15–18 mönnum, og leyfði jeg minni töluna. Jeg tók beiðnina svo, að hann ætlaði sjer ekki að flytja inn fleiri, þó hann hefði heimild til þess. Hv. 2. þm. Reykv. (JBald) þykir það verst, að jeg skyldi ekki segja: Komdu bara með eins marga menn og þú vilt. Fer það nokkuð í bága við það, sem hann annars heldur fram í þessu máli. Hann, sem þykist vera talsmaður íslenskra verkamanna, er hjer að halda fram rjetti þeirra útlendu á kostnað þeirra íslensku.

Þá las hv. þm. (JBald) upp það, sem blað eitt nyrðra þóttist hafa eftir mjer. Það er satt, að jeg ljet í ljós óánægju mína við framkvæmdarstjórann yfir því að flytja inn fleiri menn en leyfi var fyrir. En málið horfði alt öðruvísi við, þegar hann hafði skýrt frá því, að hann vissi ekki um, að sótt var fyrir hann.

Annars var hv. 2. þm. Reykv. (JBald) mjög hreinskilinn, þar sem hann sagði blátt áfram, að þessi till. þýddi það, að verið væri að leita eftir því, hvort stjórnin hefði nægilegt traust eða ekki. Hann sagði, að ef till. yrði feld, yrði ekki um annað að ræða en annaðhvort traust eða vantraust. Þarna liggur nú hundurinn grafinn. Vantraustið er sveipað í þessari till. Hv. þm. kom í þetta sinn til dyranna eins og hann er klæddur. Hv. þm. sagði, að við hæstv. forsrh. (JM) værum að ásaka hvor annan. Vitna jeg til allra hjer í hv. deild, hvort nokkur fótur er fyrir þessu. Jeg hefi ekki ásakað hæstv. forsrh. með einu orði, og ekki heldur heyrt ásakanir frá honum til mín.

Hv. 2. þm. Reykv. (JBald) vildi hamra það blákalt fram, að fyrir vestan hefðu verið löggilt síldarmál löngu fyr en í Krossanesi; og hann vildi ekki taka hið minsta tillit til þess, sem jeg margtók þó fram, að málin á Vestfjörðum hefðu verið löggilt í sömu ferðinni og fyrir norðan. Löggildingarmaðurinn fór vestur með og norður um og kom t. d. til Akureyrar um það leyti, sem jeg var á ferðinni. Þetta tók jeg svo skýrt fram í dag, að það hefði ekki átt að valda misskilningi hjá neinum, er heyra vildi rjett.

Svo klykti hann út með því, þessi hv. þm., að stjórnin tæki ekki móti þessari þál., vegna þess, að hún væri hrædd. Nú vil jeg spyrja: Hvaða stjórn mundi taka slíkum rangfærslum og útúrsnúningum, sem hjer er stofnað til, og leyfa andstæðingunum að þyrla því út um landið ? þetta er tilgangur flm. og þeirra annara, sem að þál. þessari standa, að læðast þannig aftan að stjórninni, til þess að reyna að koma henni frá.

Hv. 2. þm. Reykv. (JBald) mundi tæplega taka því með þökkum, að einhverjir Pjetur og Páll, honum að öllu leyti óviðkomandi, en þó illviljaðir, kæmu einhvern góðan dag og heimtuðu að fá að rannsaka allan rekstur Alþýðubrauðgerðarinnar með það fyrir augum að breiða sig svo út yfir, hvað hann seldi óumræðilega dýrt.

Engin stjórn getur trúað andstæðingunum eða látið þá ráða gerðum sínum, og geti hún ekki gefið stuðningsmönnum sínum þær upplýsingar, sem duga til þess að brjóta ekki af sjer traust þeirra, verður hún að leggja niður völdin. Annars yrði aldrei friður og engin stjórn trygg í sessi. Það yrðu þá heimtaðar rannsóknir á hverjum degi, og ræki að því, að engin stjóra sæti svo lengi, að hún gæti unnið að áhugamálum sínum.

Hv. 3. þm. Reykv. (JakM) kvaðst byggja mest á almannarómnum; almannarómurinn krefðist rannsóknar á máli þessu, og því yrði hún að framkvæmast.

En hvernig er hann til kominn þessi almannarómur? Já, það eru nokkur blöð, sem eru í andstöðu við stjórnina, sem hafa skapað hann. Þau hafa notað þetta sem árásarefni á stjórnina, bætt staðhæfingu á staðhæfingu ofan með látlausum blekkingum og stóryrðum, í þeirri einu von, að þarna væri sú deila hafin, sem riði stjórninni að fullu. Þegar almannarómurinn skapast á þennan hátt, þá virðist mjer varhugavert að byggja mjög mikið á honum, enda er ekki ábyrgðarlaust að taka mann og setja hann undir sakamálsrannsókn.

Hv. 3. þm. Reykv. (JakM) sagði líka, að það væri lögskipað að löggilda síldarmál, og þetta þóttist hann lesa upp úr sömu lögunum og jeg las upp úr í fyrri ræðu minni í dag. En sje farið eftir þessari grein laganna, sem hann var að vitna í, þá stendur það skýrum orðum, að löggilda eigi 1–2 lítra mæliker. Fyrsta málsgrein 10. gr. reglugerðarinnar hljóðar svo:

„Mæliker löggildast í þessum stærðum: 2 lítra, 1 lítra, 2 desilítra og 1 desilítra“.

Frekar stendur ekkert um stærð keranna, og veit jeg ekki, hvernig þm. ætlar að fá út úr þessu, að síldarmál sjeu löggildingarskyld samkvæmt þessari grein. En við skulum nú ganga út frá því, að samkvæmt þessum lögum eigi að löggilda síldarmál, en hafi verið látið undir höfuð leggjast í öll þau ár, sem lögin hafa verið í gildi, eða frá 1919. Jeg er þá fyrsti atvinnumálaráðherrann, sem læt gera þetta, og fyrir það á að hefja rannsókn á mig. (JakM: Þetta er aukaatriði). Aukaatriði segir þm., en það er það aukaatriði, sem hv. andstæðingar ætla þó að byggja á vantraust sitt.

Hv. sami þm. (JakM) sagði líka, að það varðaði við lög að hafa röng mæliker. Já, ef það er gert vísvitandi og í sviksamlegum tilgangi, en ekkert af slíku hefir sannast í þessu máli. Annars kvað hv. 3. þm. Reykv. (JakM) svo hart að orði, að þessi Krossanesmaður væri glæpamaður og hann hefði vísvitandi keypt síld eftir sviknum málum, en jeg er sannfærður um hið gagnstæða, eftir þeim upplýsingum, sem komu fram við rannsókn málsins, og eftir þeim hug, sem allflestir viðskiftamenn verksmiðjunnar báru til framkvæmdarstjórans. Og til frekari árjettingar getsökum sínum fullyrti þm., að hinar amerísku vogir hefðu verið keyptar í þeim tilgangi að hafa enn þá meira af viðskiftamönnunum. Þetta má vitanlega segja, og kannske auðveldast í þinghelginni, þó það hinsvegar sje lítt sæmandi, því hvar stæði hv. 3. þm. Reykv. (JakM), ef hann ætti að sanna þennan áburð? það eru þó altaf takmörk fyrir því, hvernig heiðvirðir menn haga orðum sínum. Hann þykist bara vitna í Holdö, en hefir þm. þá spurt hann um þetta? Jeg veit ekki, að svo sje. En hitt veit jeg, og það er aðalatriðið í þessu máli, að það hefir ekki sannast á Holdö, að hann hafi flutt þessar vogir inn í sviksamlegum tilgangi, enda mælir staða mannsins og traust hans á móti því. Og þó að nota eigi þetta sem pólitík hjer úti á Íslandi, þá breytir það í engu eða rýrir álit mannsins.

Hv. 3. þm. Reykv. (JakM) tók það upp eftir samþm. sínum, hv. 2. þm. Reykv. (JBald), að jeg bygði eingöngu á skýrslu framkvæmdarstjórans og færi eftir því, sem hann hefði sagt mjer, í einu og öllu. Það verður að kallast að ganga heldur á snið við sannleikann, eins og þessir tveir hv. samherjar haga sjer, er þeir fara að nota sjer í hag það, sem jeg sagði fyrir stundu. Annaðhvort er, að þessir tveir hv. þm. hafa ekki heyrt það, sem jeg sagði, eða þá að þeim virðist lítið fyrir að halla rjettu máli, því jeg tók það skýrt fram, að skýrsla mín, er jeg gaf áðan, væri bygð á ummælum margra manna og rannsóknum mínum um framkvæmdarstjórann og verksmiðjuna, en vitaskuld var ekki hægt að ganga fram hjá því, sem framkvæmdarstjórinn hafði að upplýsa í máli þessu, og bera saman við það, sem aðrir kunnugir báru. Og það er á þessum samanburði, sem skýrsla mín byggist í öllum meginatriðunum.

Hv. 3. þm. Reykv. (JakM) sagði líka, að framkvæmdarstjórinn verði sig með tómum ósannindum í Noregi. Jeg skal ekkert um það segja, jeg hefi ekki sjeð þessa skýrslu hans. En hitt veit jeg, að þetta mál er orðið að blaðamáli, bæði utanlands og innan, og sje það flutt á sama hátt af andstæðingunum í Noregi og hjer heima, þá er ástæðulaust að taka það mjög til greina.

Þá fór hv. 3. þm. Reykv. (JakM) mjög hörðum orðum um þennan starfsbróður sinn, norska stórþingsmanninn, og kvaðst hafa sannfærst um, af skýrslu minni og fleiru, að hann væri glæpamaður. En jeg vil aðeins benda honum á, að rök hefir hann engin fært fyrir þessum staðhæfingum, og hefði það þó átt betur við að finna að einhverju leyti orðum sínum stað, áður en bornar eru fram jafnþungar sakir á þingmann annars ríkis.

Hann sagði líka, að skýrsla sú, er jeg gaf í dag um löggilding mœlitækja og vogaráhalda, sannaði ekkert og væri ekki sambærileg í þessu efni. Þó benti jeg á, samkvæmt upplýsingum löggildingarstofunnar, að 68% allra mælitækja og vogaráhalda í landinu hefðu reynst röng og orðið að ógilda þau. Og þó segir þm., að þetta komi ekkert Krossanesmálinu við. En þegar á að hefja sakamálsrannsókn gegn einum manni, sem grunur liggur á, að notað hafi röng mælitæki, þá verður tæplega gengið fram hjá öllum hinum, sem sannir eru að sömu sök.

Þá sagði hv. 3. þm. Reykv. (JakM), að ástæðan til þess, að tekið væri svo ljett á þessu „hneykslismáli“, væri hræðsla manna við þennan erlenda „glæpamann“, og til þess að ná sjer niðri á hæstv. forsrh. (JM) klykti hann út með því, að hann sem dómsmálaráðherra bæri alla ábyrgðina. það er nú kunnugra en frá þurfi að segja, hvaða hug þm. þessi ber til hæstv. forsrh. (JM), en nokkuð er það langt seilst til lokunnar að gefa hæstv. dómsmálaráðherra það að sök að hefja ekki sakamálsrannsókn á mann, sem ekki hefir verið kærður fyrir sviksamlegt athæfi.

Annars skildist mjer, að þm. ætlaðist ekki til, að þessi erlendi „glæpamaður“ væri yfirheyrður.

Mjer er óskiljanlegt, hvernig mál þetta verði rannsakað til nokkurrar hlítar, ef ganga á fram hjá því að yfirheyra þann manninn, sem borinn er þyngstum sökunum og harðast dæmdur af þessum „almannarómi“, sem hv. 3. þm. Reykv. (JakM) vildi aðallega byggja á.

Nei, það liggur annað á bak við þessa till. en að rannsaka Krossanesmálið. öll ræða hv. 3. þm. Reykv. (JakM) benti á, að till. væri fram borin til höfuðs stjórninni. það er stjórnin, sem á að rannsaka. Væri þm. jafnhreinlyndur og samþm. hans, hv. 2. þm. Reykv. (JBald), þá hefði hann kveðið upp úr með þetta. En hann er ekki hreinlyndur og þorir ekki, fremur en hv. þm. Str. (TrÞ), að segja, að hjer sje að ræða um grímuklætt vantraust á stjórnina.